Færsluflokkur: Bloggar

Frábær barátta Íslands á HM

Íslenska handknattleiksliðið barðist stórkostlega allan leikinn á móti Slóvenum, en leiknum lauk nú fyrir stundu með sigri Íslands, 32-31.  Síðustu mínúturnar voru að vísu óþægilega spennandi þegar Slóvenum tókst að minnka muninn niður í eitt mark, en íslensku strákarnir gáfust aldrei upp og börðust eins og hetjur til loka leiksins. 

Ísland er nú komið í 8-liða úrslit og því ein af allra bestu handknattleiksþjóðum í heimi.  Leikurinn við Þjóðverja á morgun breytir ekki stöðu okkar að þessu leyti þó vissulega væri gaman að velgja gestgjöfunum aðeins undir uggum.  Vonandi gengur okkur vel þá líka.

Í leiknum í dag voru markverðirnir, Birkir Ívar Guðmundsson og Roland Eradze, ásamt Loga Geirssyni tvímælalaust bestu menn okkar.  Til hamingju með frábæran árangur.


mbl.is Ísland í 8-liða úrslit eftir sigur á Slóveníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og íslenska veðrið - stormasamt!

Það var sannarlega vel að verki staðið hjá íslensku handboltastrákunum að leggja Evrópumeistara Frakka með jafn eftirminnilegum hætti og raun varð á í gær.  Frammistaða þeirra var stórkostleg.  Ólafur Stefánsson lýsti því þannig að liðið væri eins og íslenska veðrið, óútreiknanlegt.  Og við vitum að það getur verið stormasamt hér heima, og þannig getur árangur liðsins líka verið.  Það eru svo ótal ótal mörg dæmi um það á undanförnum árum að liðið hafi vantað úthald á endasprettinum.

Út af fyrir sig var það dálítið skrýtið að heyra íþróttafréttamenn hneyksast og lýsa vanþóknun á liðinu í leik þess gegn Úkraínu, segja jafnvel að liðið væri ömurlegt og þar fram eftir götunum.  Sumir mættu gjarnan gæta orðavals í lýsingum.  En sannleikurinn er sá að lýsing Ólafs er hárrétt, við vitum aldrei hvernig liðinu mun reiða af, hvernig vindarnir blása svo notuð sé veðursamlíkingin.  Ég held raunar að liðinu gangi alltaf betur í rauðum búningi en bláum (og það er freistandi að leggja pólitískan skilning í það, þó það verði nú ekki gert hér).

Nú er staðan sú að Ísland er efst í sínum milliriðli og raunar þótt hinn milliriðillinn sé talinn með líka, Ísland hefur hagstæðustan markamun.  Það er ágæt forgjöf og vekur vonir um að Ísland komist jafnvel í fjórðungsúrslit, verði sem sagt eitt af fjórum liðum sem komast upp úr milliriðlinum.  Íslensku strákunum er óskað alls hins besta, þeir hafa sýnt hvað í þeim býr, þeir eru auðvitað mistækir eins og við öll, en þeir eiga órofa stuðning þjóðarinnar allrar í þeirri baráttu sem framundan er.  ÁFRAM ÍSLAND!


mbl.is Ólafur Stefánsson: „Erum eins og íslenska veðrið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir, Jafet og kona

Á fréttavef Ríkisútvarpsins var greint frá því að kona hefði boðið sig fram til formennsku Knattspyrnusambands Íslands.  Áður hafði komið fram að Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri KSÍ og Jafet Ólafsson fyrrv. forstjóri VBS hefðu tilkynnt um framboð til formennsku. 

Það er dæmigert að fréttin skuli snúast um það að kona bjóði sig fram, ekki að Halla Gunnarsdóttir hafi ákveðið að skella sér í formannsslaginn.  Kannski er þetta óafvitandi hjá mbl.is en kannski er þetta bara dæmigert fyrir viðhorfin í samfélaginu.  Út af fyrir sig er það fréttaefni að nú gefst knattspyrnuhreyfingunni í fyrsta skipti tækifæri til að kjósa konu í formannsstól en að sjálfsögðu er það aðalatriðið að það er Halla Gunnarsdóttir, blaða- og knattspyrnukona sem sækist eftir formennsku í KSÍ. Vonandi ber knattspyrnuhreyfingin gæfu til að gera hana að formanni.


Kominn í sveitina

Jólahátíðin er yfirstaðin og gekk allt venju samkvæmt.  Við fjölskyldan ákváðum að njóta áramótanna í sveitasælunni í Borgarfirði og erum komin þangað.  Og hér verðum við í Reykholtsdalnum fram yfir áramót.

Nú er komin ný og enn afkastameiri nettenging í sveitina, svo það er leikur einn að fylgjast með á netinu, senda og taka á móti tölvupósti og skrifa færslur á bloggsíðuna.  Tæknin hefur sem sagt tekið öll völd, líka í sveitasælunni.  Á móti kemur að það verður auðveldara að sinna ýmsum störfum í fjarvinnslu og börnin hafa gott af því að komast úr borgarysnum og í bústörfin eftir því sem nennan leyfir.

 


Framsókn á undanhaldi

Hinn nýi formaður Framsóknarflokksins reiddi hátt til höggs á miðstjórnarfundi flokksins í gær.  Fyrir högginu urðu Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.  Og Valgerður Sverrisdóttir og Geir H. Haarde.  Nú segir hann að innrásin í Írak og allt það ferli hafi verið mistök. Þannig tekur hann undir með Vinstri grænum og hinum stjórnarandstöðuflokkunum sem gagnrýndu ákvörðun þáverandi forsætis- og utanríkisráðherra harðlega.

Menn hljóta að velta því fyrir sér hvað vakir fyrir formanni Framsóknarflokksins. Sumum finnst þetta djarft útspil hjá honum, öðrum þykir þetta aumkunarvert. Getur verið að formaðurinn sé að opna dyr til vinstri? Getur verið að skilaboðin eigi að vera að það sé ekki sjálfsagt að Framsóknarflokkurinn vinni með Sjálfstæðisflokknum? Eða er þetta bara örvæntingarfull tilraun til að ná aftur til flokksins því fylgi sem hefur yfirgefið hann í stríðum straumum að undanförnu? Það er að mínu mati líklegasta skýringin. Hið sama á við um yfirlýsingu hans skömmu eftir að hann tók við formennsku og ráðherradómi, að stóriðjustefnan væri ekki lengur til!

Framsóknarflokkurinn hefur áður leikið þann leik að breiða yfir gerðir sínar í ríkisstjórn þegar kemur að kosningum. Draga upp allt aðra mynd heldur en þá sem blasað hefur við kjósendum, og freista þess að fríska upp á andlitið. Koma með digurbarkalegar yfirlýsingar sem vísa til vinstri en hlaupa svo strax til baka að kosningum loknum í fangið hjá íhaldinu og halda áfram fyrri iðju við stjórnarstörfin.

Hernaðurinn gegn landinu sem felst í stóriðjustefnunni, hernaðurinn gegn almennum borgurum sem felst í stuðningnum við stríðið í Írak, allt er þetta á sínum stað í afrekaskrá Framsóknarflokksins. Hið sama á við um misskiptinguna í samfélaginu og svikin við aldraða og öryrkja. Við hljótum að spyrja okkur hversu trúverðugur þessi málflutningur er. Kjósendur eru ekki svo gleymnir að hægt sé að strika yfir fortíðina með yfirlýsingum af því tagi sem formaður Framsóknarflokksins sendi frá sér í gær. Stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar, þ.m.t. Framsóknarflokksins, verður haldið til haga í komandi kosningabaráttu.  Framsóknarflokkurinn verður að leggja það allt í dóm kjósenda þótt hann sé nú á harðahlaupum undan ábyrgðinni.


Vinstri græn frambjóðendakynning

Á morgun, laugardag 25. nóv. munu frambjóðendur í forvali Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu, kynna sig í Vesturgötu 7.  Frambjóðendur verða á staðnum amk. milli kl. 13 og 16.  Boðið verður upp á kaffi og veitingar sem frambjóðendur sjá um að baka og má búast við miklum kræsingum. 

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta og svo má minna á að síðasti frestur til að skrá sig í flokkinn er til kl. 17 á morgun, laugardag.  Þá verður kjörskránni lokað en forvalið miðast við flokksbundna félaga.  Fjölmennum í Vesturgötuna og tökum þátt í stemningunni fyrir forvalið.


Skiptir kyn máli í stjórnmálum?

Umræðan um prófkjör og forval hjá stjórnmálaflokkunum er í algleymingu enda stendur sú vertíð hvað hæst um þessar mundir.  Æ ofan í æ koma upp vangaveltur um kynjahlutföll og hvort unnt sé að ná jafnrétti í þessu sambandi.  Stundum er spurt hvort kyn skipti máli og oftar en ekki er þeirri spurningu svarað með því að segja að það eitt skipti máli að velja "hæfasta" fólkið.

Í mínum huga skiptir kyn að sjálfsögðu máli í stjórnmálum eins og í öðrum þáttum þjóðlífsins.  Það þýðir hins vegar ekki að það eitt skipti máli.  En stjórnmálin eiga að endurspegla samfélagið sjálft og ef við viljum að t.d. þing og sveitarstjórnir séu speglar samtímans þá þurfa kynjahlutföllin að vera jöfn.  Því miður erum við enn langt frá því marki hér á landi.

Eru þá kynjakvótar rétt leið til að ná árangri?  Mitt svar við því er: já.  Meðan hlutföll kynjanna eru jafn skökk og raun ber vitni er nauðsynlegt að viðhafa kynjakvóta til að ná settu marki.  Vitaskuld hlýtur framtíðarsýnin að vera sú að slíkir kvótar séu óþarfir, en við erum einfaldlega ekki komin á þann stað í dag.  Oft er það haft á orði að prófkjörin séu konum óhagstæð.  Ég held að margt sé til í því.  Vissulega er hægt að tína til dæmi um prófkjör þar sem konum hefur vegnað vel, en hitt held ég að sé algengara.  Kynjakvótinn sem gildir í komandi prófkjöri Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu er nauðsynlegt skref til að tryggja jafnan hlut kynjanna.  Sumir telja raunar að ganga hefði átt lengra og láta kvótann aðeins gilda í aðra átt, þ.e. til að tryggja hlut kvenna en ekki karla.  Er þá horft til þess að hlutur kvenna á þingi á vegum stjórnmálaflokkanna almennt sé svo rýr að það væri bara jákvætt að einn flokkur, eins og VG, gengi á undan og tryggði fleiri konum en körlum sæti á þingi.  Ég tel að þessi nálgun sé mjög eðlileg miðað við það hver staðan raunverulega er.  Nú varð það að vísu ekki niðurstaðan hjá okkur í Vinstri grænum að ákveða kvótann með þessum hætti, en það kemur að mínum dómi vel til greina að horfa til þessa þegar kemur að endanlegri uppröðun, enda er prófkjörið leiðbeinandi.  Um það þarf þó að vera full samstaða.

Innan annarra flokka og hjá hinum ýmsu stjórnmálaskýrendum er því oft haldið fram að það sé því miður bara engin leið að tryggja jafnan hlut kynjanna  þegar prófkjörsleiðin er farin.  Þetta er rangt.  Að sjálfsögðu er unnt að tryggja jafnrétti með kynjakvóta eins og við Vinstri græn gerum.  Það er hins vegar spurning hvort aðrir flokkar hafa hugrekki til að ganga jafn langt og við í þessu efni.  Fyrir liggur eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins að karlar eru í 3 efstu sætunum í Suðurkjördæmi og í Reykjavík.  Uppstilling mun tryggja þremur körlum efstu sætin í Norðvesturkjördæmi hjá sama flokki.  Þetta væri óhugsandi hjá Vinstri grænum.  Í því liggur mikill hugarfarsmunur.  Ég skora á aðra stjórnmálaflokka að taka VG til fyrirmyndar og setja á kynjakvóta á framboðslistum og þá fléttulista að okkar hætti.  Það verður einfaldlega að grípa til áhrifaríkra ráða til að ná árangri í kynjajafnréttisbaráttunni.  Hæfasta fólkið er nefnilega að finna meðal beggja kynja og það skiptir nefnilega máli að kynin séu jafnsett í stjórnmálum.


Lækurinn í Lækjargötu - nýr eða gamall?

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu Björns Inga Hrafnssonar borgarfulltrúa um að fela framkvæmdasviði borgarinnar að kanna möguleika að opna lækinn sem Lækjargata dregur nafn sitt af.  Þetta er ágæt tillaga enda fékk hún góðar viðtökur.  Fyrir nokkrum árum, þegar unnið var að skipulagi á Bernhöftstorfunni, óskaði ég eftir því að skipulagshöfundar skoðuðu þennan möguleika.  Þetta var reyndar undir lok kjörtímabilsins 1998-2002 en á þeim tíma var ég formaður skipulagsnefndar.  Ég hygg að raunar hafi ekki verið unnið meira með málið í nýrri skipulagsnefnd sem tók við 2002 en það breytir ekki því að hugmyndir er prýðileg og sjálfsagt að vinna að málinu.

Endurvakinn lækur í Lækjargötu getur lífgað heilmikið upp á miðbæinn.  Sennilegt er að einfaldast sé að gera nýjan læk, velja honum legu t.d. í miðri götunni og beina honum í fallega rennu sem endaði á Lækjartorgi.  Þar væri vel við hæfi að koma upp vatnslistaverki eða gosbrunni þar sem lækurinn endaði.  Vonandi verður þess ekki langt að bíða að endurskapaður lækur í Lækjargötu líti dagsins ljós.


Borgarstjórnarmeirihlutinn fer offari í Landsvirkjunarmáli

Fréttablaðið greinir frá því í morgun að í dag verði skrifað undir samning um sölu á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun til ríkisins.  Þessar fréttir koma kjörnum fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur á óvart.að því leyti að borgarstjóri hefur ekki kynnt málið fyrir borgarráði og er málið ekki einu sinni á dagskrá borgarráðsfundar á morgun, fimmtudag. 

Greinilegt er að talsmönnum meirihlutans finnst meira um vert að baða sig í ljósi fjölmiðla en að gera kjörnum fulltrúum, framkvæmdastjórn sveitarfélagsins, grein fyrir málinu og leita eftir umboði til að undirrita samkomulag um söluna.  

Á fundi borgarráðs þann 20. júlí sl. lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurn til borgarstjóra um málið:

Fyrirspurnin er svofelld:

1.    Hvenær var tekin ákvörðun um að hefja að nýju viðræður við ríkið um kaup þess á     hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun?
2.    Hverjir annast viðræðurnar af hálfu Reykjavíkurborgar?
3.    Hefur borgarstjóri sett fulltrúum borgarinnar erindisbréf eða samningsmarkmið?
4.    Hyggst borgarstjóri kynna gang viðræðnanna fyrir borgarráði og þá hvenær?


Svör borgarstjóra voru lögð fram í borgarráði þann 27. júlí sl.:

1.    Borgarstjóri tók þá ákvörðun í byrjun júlí að halda viðræðum áfram.
2.    Sem fyrr, Helga Jónsdóttir og Sigurður Snævarr.
3.    Nei, viðræðum er haldið áfram á sama grunni og áður.  Þegar viðræðum var frestað í upphafi árs lá fyrir að þráðurinn yrði tekinn upp á ný síðar.   
4.    Já, strax og viðræðum hefur skilað áfram þannig að fyrir liggi atriði sem taka þarf     afstöðu til.

Samkvæmt svari borgarstjóri hefði mátt vænta að borgarráði yrði gerð grein fyrir því í hverju viðræðurnar fælust, hvaða verðhugmyndir væru til umræðu, hvernig greiðslufyrirkomulagi yrði háttað o.fl. þess háttar sem skiptir máli og borgarstjórn þarf að sjálfsögðu að ræða.  Af þessu hefur hins vegar ekki orðið og borgarstjóri hyggst nú, skv. fréttum, undirrita sölusamning án þess að hafa kynnt málið á réttum vettvangi. 

Borgarstjórnarmeirihlutinn fer offari í málinu og handleikur lýðræðislegt umboð af mikilli léttúð.  Með þessum vinnubrögðum veikir borgarstjóri mjög stöðu sína og trúverðugleika sem æðsti embættismaður Reykvíkinga.



Tekur ráðherrann ekki rökum?

Einar Guðfinnsson, sá ágæti ráðherra úr norðvesturkjördæmi, skrifar pistil í Fréttablaðið í dag undir heitinu "Tekur fólk ekki rökum?"  Þar býsnast hann yfir því að fólk hér á landi skuli ekki taka sjónarmiðum hans sem og gera þau að sínum, fólk taki einfaldlega ekki rökum og vilji það ekki.  Nú má eins spyrja Einar: tekur ráðherrann ekki rökum?

Enda þótt nokkrar veiddar langreyðar breyti litlu sem engu um stofninn og afkastagetu hans, þá er hitt ekki jafn óumdeilt að við höfum allan rétt þjóðréttarlega okkar megin.  Hvalir eru auðlind sem flakkar á milli landa (eða hafsvæða öllu heldur) og þess vegna getur ein þjóð ekki gert tilkall til að ráða því hvað hún gerir hjá sér.  Það sjá allir hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér ef hver ætlaði bara að gera það sem honum dytti í hug.  Þess vegna eru alþjóðasamningar í gildi á þessu sviði.

Hitt er óumdeilt að hvalveiðarnar hafa enga efnahagslega þýðingu fyrir Ísland en getur hins vegar haft mjög skaðleg áhrif á umfangsmikla efnahags- og atvinnustarfsemi, t.d. í ferðaþjónustu, útflutningsatvinnugreinum o.fl.  Það er engu líkara en Einar ráðherra taki ekkert tillit til þessara sjónarmiða.  Hann hlustar ekki, hann tekur ekki rökum.  Hann vill greinilega taka minni hagsmuni fram yfir meiri.  Kannski vegna þess að hvalveiðiútgerðin skiptir Einar og flokk hans máli í komandi alþingiskosningum.  Og þá er þeim rétt sama um þjóðarhag.

Það er bara þannig minn kæri Einar að það eru skiptar skoðanir um málið hér á landi og ég er t.d. í hópi þeirra sem er algerlega ósammála rökum ráðherrans.  Ekki vegna þess að ég telji stofninn í hættu, ekki vegna þess að ég sé upptekinn af þjóðrembingsrökunum, ekki vegna þess að ég sé af tilfinningaástæðum á móti því að veiða hval (ég er hins vegar alfarið á móti því að við styðjum stríðsrekstur og fjöldamorð á óbreyttum borgurum í Írak - nokkuð sem Einar og Sjálfstæðisflokkurinn studdu!!), heldur vegna þess að ég tel að hvalveiðar nú þjóni ekki heildarhagsmunum lands og þjóðar.  Ég tel þær stríða gegn hagsmunum okkar og að það sé verið að þjóna lund fárra á kostnað heildarinnar.  En það kemur ekki á óvart að sjálfstæðismenn skilji ekki slík sjónarmið eða taki þeim rökum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband