Staðan í stjórnmálum

Þegar flokksmálgögnin voru og hétu (ja sumir segja að þau séu nú enn við lýði!) þá mátti oft sjá í tilkynningum um flokksstarfið að tiltekinn forystumaður viðkomandi stjórnmálaflokks myndi ræða "stjórnmálaástandið" á flokksfundi.  Þetta kom upp í hugann nú um daginn vegna allra þeirra atburða, viðtala, bloggfærslna, yfirlýsinga o.s.frv. sem dunið hafa á okkur úr heimi stjórnmálanna að undanförnu.  Það er sannarlega tilefni til að ræða "stjórnmálaástandið".

Framsóknarflokkurinn hefur nú um alllangt skeið goldið ríkisstjórnarsetu sinnar í skoðanakönnunum.  Fylgi flokksins mælist á bilinu 6-10% sem lætur nærri að vera um helmingur þess fylgis sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum.  Þá er gjarnan rifjað upp að flokkurinn hefur tilhneigingu til að mælast lægri í könnunum en síðan kemur á daginn í kosningum.  Kann vel að vera.  Hitt er ljóst að flokkurinn má sannarlega muna sinn fífil fegurri og ekki er alveg laust við átök innan flokksins, eins og prófkjörin í norðvestur- og suðurkjördæmum sýna glöggt.  Nýr for(n)maður hefur ekki náð viðunandi fótfestu og alls ekki tekist að rífa flokkinn upp úr þeirri lægð sem löng seta við ríkisstjórnarborðið með Sjálfstæðisflokknum hefur komið honum í.  Og fátt sem bendir til að honum muni takast það.  Í röðum yngri forystumanna flokksins er líka greinilegur áhugi á að flokkurinn fari í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili, noti þá tímann til að byggja upp flokksstarfið og styrkja málefnagrunn sinn - og - til að endurnýja forystu flokksins.  Líklegt er að Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Björn Ingi Hrafnsson muni blanda sér í þá baráttu og fyrir þann síðastnefnda er stjórnarandstaða örugglega ákjósanlegust til þess að ná árangri.

Samfylkingin á í augljósi basli með að koma málefnum sínum til skila á trúverðugan hátt.  Fylgi í könnunum sem losar 20% er langt í frá að vera viðunandi miðað við 31% fylgi í síðustu kosningum og eftir að hafa verið stærsti stjórnmálaflokkurinn í stjórnarandstöðu um langt skeið.  Við þær aðstæður eru margir sem finna hjá sér þörf til að finna blóraböggul og benda á formanninn, Ingibjörgu Sólrúnu.  Samherjar, eins og Jón Baldvin og Stefán Jón, reiða rýtinginn hátt til höggs í bak formannsins, eins lúalegt og það getur orðið, sbr. Kastljós núna í vikunni.  Og á hliðarlínunni er Össur, sem sagðist ætla að standa með formanninum eftir tapið í formannskjörinu, en hefur trúlega aldrei meint það og kyndir ófriðarbálið.  Ég tel að vandi Samfylkingarinnar sé ekki sök formannsins, hugsanlega hefur hún verið ólánsöm í einstaka formúleringum.  Vandinn er dýpri, hann á sér rætur í því að hugsunin um samfylkingu vinstri manna og aðferðafræðin við það allt, er einhvern veginn á skjön við raunverulega íslenska hefð, sögu og menningu í stjórnmálum.  Einhvern tímann var sagt að íslensk þjóðarsál væri í meginatriðum í fjórum stjórnmálaflokkum, nokkuð til í því.  Hins vegar er ljóst að ef stjórnarandstöðunni á að takast að fella ríkisstjórnina í vor, verður Samfylkingin að ná vopnum sínum og sækja fylgi sem nú er að gefa sig upp á stjórnarflokkana, hún verður að sækja lengra á miðju- og hægrimiðin.  Tekst henni það?

Farsinn í Frjálslynda flokknum er dapurlegur.  Landsþingið tókst með afspyrnum illa og forysta flokksins fór illa að ráði sínu þegar hún valtaði yfir Margréti Sverrisdóttur og hennar fólk og bolaði því í raun úr flokknum.  Hið félagslega og umhverfisvæna yfirbragð sem Frjálslyndi flokkurinn hefur borið, ekki síst í borgarstjórn Reykjavíkur, er farið veg allrar veraldar.  Og áherslurnar sem lagðar voru á stefnumiðin í innflytjendamálum eru ógeðfelldar.  Í raun alveg með ólíkindum að sá mæti maður Guðjón Arnar Kristjánsson hafi villst inn á þessa braut.  Sumir telja jafnvel að hann hafi stútað kaffibandalaginu svonefnda.  Það er að vísu of snemmt að fullyrða um það, en hitt er ljóst að flokkurinn mun ekki fá hljómgrunn fyrir innflytjendastefnu sína í samstarfi við aðra flokka, hann gerði því réttast í því að ýta henni strax út f borðinu.  Mér þykir sennilegast að flokkurinn muni missa flugið í næstu skoðanakönnunum eftir þessa skelfilegu tragíkómedíu.

Staða Sjálfstæðisflokksins er ótrúlega stöðug.  Fylgið mælist 36-40% en flokkurinn fékk um 34% í síðustu kosningum, sem raunar var lakasta fylgi flokksins um langt árabil.  Á hitt er að líta að flokkurinn mælist jafnan nokkuð hærra í könnunum en hann fær í kosningum og er nýjasta dæmið um það einmitt borgarstjórnarkosningarnar í vor.  Engu að síður er staða flokksins góð, hann siglir á lygnum sjó ef svo má segja og þarf að því er virðist aldrei að gjalda fyrir afspyrnu lélega frammistöðu í ríkisstjórn.  Ótrúlegt!  Eins og staðan er nú er líklegt að flokkurinn bæti við sig fylgi, etv. 1-2 þingmönnum, en þó gæti framboðslistinn í suðurkjördæmi, með Árna Johnsen í öðru sæti, haft áhrif, einkum í öðrum kjördæmum.  Framboð aldraðra og öryrkja sem etv. verða tvö, gætu tekið fylgi af Sjálfstæðisflokknum og ugglaust líka af Framsóknarflokknum en stjórnarandstöðuflokkarnir geta líka liðið fyrir slíkt framboð og kannski verða heildaráhrifin lítil.  En hvað sem öðru líður, þá stendur Sjálfstæðisflokkurinn nokkuð traustur og ef stjórnarandstaðan ætlar sér að fella ríkisstjórnina þarf hún ekki síst að beina sjónum sínum að forystuflokki hennar og þvinga flokkinn í pólitíska umræðu.

Vinstri græn hafa nú um langt skeið mælst með stöðugt fylgi á bilinu 15-20%.  Það er vitaskuld gríðarlega góður árangur m.v. að flokkurinn fékk um 9% í síðustu kosningum.  Útkoma flokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor er líka fyrirheit um að gengi flokksins verði gott í komandi þingkosningum.  Málefnastaðan er sterk og skýr og æ fleiri finna samhljóm með stefnu og málflutningi flokksins.  Þá er forysta flokksins trúverðug og traust og nýtur mikils almenningsálits.  Flokkurinn þarf hins vegar að halda vel á sínum spilum og má ekki taka góða stöðu í skoðanakönnunum sem ávísun á góð kosningaúrslit.  Það má hvergi slaka á og ekki sýna neina værukærð.  Haldi flokkurinn hins vegar áfram á sömu braut og hann hefur verið er full ástæða til bjartsýni fyrir vorið.

Í raun má segja að aðeins tveir flokkar séu í nokkuð góðum málum.  Ef horft er til málefnastöðu, fylgis í skoðanakönnunum, einingar innan flokks og styrks og trausts flokksforystunnar, eru það einungis Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sem mega vel við una.  Spurning er hvert það skilar flokkunum á þeim mánuðum sem enn eru til kosninga!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Kosningabarátta VG var algjört klúður meðal annars með lélegri markaðsetningu.  Ef menn hefðu tekið þátt í kosningakapphlaupinu hefði VG mátt eiga vona á töluvert meiri árangri. 

TómasHa, 31.1.2007 kl. 18:11

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þú þekkir það afar vel sjálfur, að frekar er heiðarlegra samstarfsmanna að leita í Sjálfstæðisflokknum en Samfylkingunni.  Þar er reynsla þín ólygnust.

 Ef eitthvað var bundið fastmælum, var við það staðið af hálfu þinni og Sjálfstæðismanna.  Samfylkingamenn eru frekar líklegt til að hlaupa útundan sér, bara ef þeir HALDA að skoðanakannanir bendi til hins.

Stefán Jón og fl. hafa þurft að plokka allskonar bitvopn ú r baki sínu eftir ,,forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar.  SVo mun um fleirri á vinstri væng stjórnmála.

 Okkur bráðvantar Nýsköpunarstjórn, til að fara oní eitt og annað, sem orðið hefur vegna ótrúlegra valda Framsóknar allt frá Lýðveldisstofnunar.  Til þeirrar vinnu treysti ég allnokkrum VG mönnum ásamt og með Sjálfstæðismönnum.

Gróðapungar og skrifræðisþráandi Kratar vilja láta laus náttúruauðævi okkar og falbjóða það nánast á Evrópu,,markaði" Sjálfsákvörðunarréttur okkar er til fárra fiska metinn og allir tala um Evru.

 læt nægja í bili en samt er þjóðarnauðsyn, að Nýsköpunarstjórn verði eftir kosningar.

Bjarni Kjartansson, 1.2.2007 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband