Jákvætt tákn Sólrúnar – en Geir snuprar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að kalla heim eina íslenska starfsmanninn í Írak.  Segja má að um sé að ræða eina áþreifanlega táknið um aðild Íslands að Íraksstríðinu og stuðning stjórnvalda við það.  Þótt þetta framlag sé lítið er það engu að síður táknrænt og að sama skapi er ákvörðun utanríkisráðherra táknræn.  Hún er engu að síður jákvæð og ber að fagna henni og ljóst að allir þeir sem voru andvígir ákvörðun hinnar vígfúsu ríkisstjórnar formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hljóta að styðja þessa ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar.

 

Á sama tíma gerist það að forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir því að hann hefði ekki tekið þessa ákvörðun og hann styðji hana ekki.  Með því gerir hann tvennt.  Hann snuprar utanríkisráðherra sinn og formann hins stjórnarflokksins, sem hlýtur að taka til varna og mótmæla, en um leið ítrekar hann (alla vega með táknrænum hætti) stuðning Sjálfstæðisflokksins við stríðsreksturinn í Írak.  Það er ef til vill ekki hvað síst alvarlegt og ámælisvert.

 

Við í Vinstri grænum lýstum þeirri skoðun strax í vor við myndun núverandi ríkisstjórnar, að það ylli verulegum vonbrigðum að ný ríkisstjórn, með þátttöku Samfylkingarinnar, skyldi ekki lýsa afdráttarlaust yfir því að Ísland teldi stríðsreksturinn í Írak rangan og ólögmætan og að Ísland væri ekki lengur í hópi hinna vígfúsu þjóða, sem svo hafa verið kallaðar.  Í stjórnarsáttmálanum er stríðið og afleiðingar þess einungis harmaðar og stjórnvöld hafa engan afsökun borið fram á stuðningi sínum.

En nú bítur forsætisráðherra höfuðið af skömminni með því í reynd að lýsa því að hann hefði kosið áframhaldandi beina þátttöku Íslands í Íraksstríðinu, jafnvel þótt hún væri aðeins táknræn.  Er hann nú þegar horfinn frá „harminum“ sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum?  Og mun Samfylkingin una því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skarfurinn

Sammála því að þetta voru mistök af Geirs hálfu að vera að upplýsa þjóðina að hann hefði ekki gert þetta væri hann utanríkisráðherra í dag, hvaða máli skiptir að segja þetta núna, auðvitað skapar þetta úlfuð á milli þessara tveggja forrmanna, Geir er nokkurs konar verkstjóri stjórnarinnar og á að bera klæði á vopnin en ekki búa til óeiningu.

Svo má kannski deila um hvort einn starfsmaður þarna út skipti nokkru máli í sjálfu sér, en samt sem áður tel ég gjörning Ingibjargar af hinu góða þótt smár sé. 

Skarfurinn, 6.9.2007 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband