Bjartar nætur í Feneyjum norðursins

Pétursborg er iðulega nefnd „Feneyjar norðursins.“  Nafngift sem full innistæða er fyrir.  Sjálfir segja borgarbúar að borgin sé nyrsta bVetrarhöllinorg í heimi, enda kalla þeir ekki bæjarfélög með innan við eina milljón íbúa „borg“.  Svo sem hægt að skilja þ hvað Reykjavík varðar, en hvers eiga Helsinki, Stokkhólmur og Osló að gjalda?  En allt um það.

Með ánni Névu, þverám hennar og síkjum er Pétursborg í hópi „vatnaborga“ sem hafa sérstakt aðdráttarafl.  Hér spilla ekki fyrir björtu sumarnæturnar (Bélyje notsjí – Белые ночи) sem hiklaust vega upp hinn langa vetur og dimma, rétt eins og í henni Reykjavík.  Nú er reyndar daginn farið að stytta en engu að síður er hér bjart langt fram á kvöld og líflegt í borginni eins og vænta má.

Það eru liðin 23 árIsaak-dómkirkjan síðan ég kom fyrst til borgarinnar og síðast kom ég hingað árið 2001 (í kringum 11. september).  Þótt miðborgin sé vissulega enn á sínum stað með sínum fögru byggingum, torgum og görðum, hefur gríðarlega margt breyst.  Þróunin hér í Rússlandi hefur verið hröð í átt til þess sem gengur og gerist í vestur Evrópu.  Bæði hið jákvæða og neikvæða.  Endurbætur á byggingum og nýbyggingar eru áberandi og víða hefur tekist afar vel til en hér eru líka uppi mikil áform um skýjakljúfabyggð, einkum á Vasilíj-eyjunni (fyrir staðkunnuga) sem eru vægast sagt umdeild meðal borgarbúa.  Á meðan sumum finnst skýjakljúfahverfi tilheyra stórborg eins og Pétursborg, eru aðrir sem segja að slíkar byggingar muni eyðileggja ásýnd borgarinnar og yfirbragð.  Skipulagsvinna er þó í fullum gangi og væntanlega verður ekki skortur á fjárfestum þegar þar að kemur.

Umferðin hefur tekið stakkaskiptum.  Meðan Sovétríkin voru enn og hétu var ekki mikið um einkabíla á götum borgarinnar.  Nú er allt með öðrum brag.  Borgarumferðin er þung liðlangan daginn en samt er hér gott og öflugt almenningssamgöngukerfi þar sem jarðlestirnar eru þungamiðjan.  Hér er dýpsta neðanjarðarlestarkerfi í heimi, að sögn, enda þarf það að liggja undir öllu vatnakerfinu hér, liggur undir ám og vötnum og tengir saman eyjar og hólma.

Í nýlegri skýrslu um verðlag í borgum heims kom í ljós að Moskva er nú dýrasta borg í heimi.  Þótt verðlag í Pétursborg sé talsvert lægra en í höfuðborginni, veitir „höfuðborg norðursins“ systur sinni í suðaustri harða samkeppni og er allt verðlag hér á hraðri siglingu í átt að því sem gerist í Moskvu.  Og það er ekki að ófyrirsynju að talað er um „höfuðborg norðursins.“  Ekki bara vegna þess að Pétursborg er næst stærsta borg Rússland, með liðlega 5 milljónir íbúa, heldur hafa stjórnvöld í Kreml einnig ákveðið að flytja ýmsa opinbera starfsemi hingað.  Til dæmis hefur stjórnlagadómstóll landsins þegar verið fluttur frá Moskvu til Pétursborgar og fyrirhugað er að opna hér skrifstofur bæði forsetaembættisins og embættis forsætisráðherra.  Þeir Médvédev forseti og Pútín forsætisráðherra eru rauna vopnabræður úr pólitísku starfi tíunda áratugarins hér í Pétursborg og voru báðir handgengnir Sobtsjak sem var kosinn borgarstjóri hér í kjölfar falls Sovétríkjanna.

Það er hiklaust hægt að mæla með heimsókn til Pétursborgar.  Hér er gríðarlega margt að sjá, mikil saga og menning sem hér tengist og héðan er ekki langt til Novgorod, hins forna höfuðstaðar Garðaríkis sem í handritum var kallaður Hólmgarður.  Þangað er ferð minni heitið á morgun og verður vonandi eftirminnilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Hafðu það gott í ríki sem einkumtveir menn komu á kortið hvor á sinn hátt, Pétur mikli og Lenin.Báðir höfðu þeir þá hugsjón að gera Rússland að ríki sem stæði iðnaðarríkjunum ekki að baki.Rússar búa nú að því að hugsjónir Lenins urðu að veruleika í nýtingu orku, meðal annars fallvatna sem sum urðu að veruleika áður en hann lést.Rússar standa, þökk sé Lenin, fremstir í dag, allra þjóða í orkunýtingu.Rannsóknir þeirra á nýtingu jarðhita eru jafnlangt á veg komnar og rannsókni okkar.Það væri betur að þið sem kallið ykkur vinstri menn hugsuðuð annað slagið til Lenins og hans hugsjóna í smbandi við framfarir.Hafðu það gott í Garðaríki.vonandi lærir þú eitthvað í ferðinni og snýrð þér frá Amerískri leikarahugsjón sem þú og flokkur þinn, sem eitt sinn var líka flokkur minn, hafið starfað eftir.Með von um betri mannKv

Sigurgeir Jónsson, 26.7.2008 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband