Tímabær vinstrisveifla

Niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins eru um margt athyglisverðar. En helstu tíðindin og þau augljósustu eru þessi: það er orðin skýr og löngu tímabær vinstrisveifla meðal Íslendinga.

Samkvæmt könnunini fengju Samfylking og Vinstri græn 39 þingmenn kjörna en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur (sem stjórnuðu hér saman útrásinni og einkavæðingunni í 12 ár) fengju 24 þingmenn.  Frjálslyndi flokkurinn næði ekki 5% lágmarkinu til að fá kjörna þingmenn.

Fylgi við ríkisstjórnina dalar sömuleiðis mikið og er nú aðeins um 40% þótt um 65% segist styðja flokkana tvo sem nú sitja í ríkisstjórn.  Sérstaka athygli vekur að um helmingur kjósenda Samfylkingarinnar styður ekki ríkisstjórnina.  Það er því ekki hægt að lesa í þessar niðurstöður með öðrum hætti en þeim að landsmenn séu að gera kröfur um viðsnúning á stjórnarstefnunni, að sjónarmið réttlætis, jöfnuðar og samhygðar ráði ferð og taki við af græðginni, misskiptingunni og sérhyggjunni sem Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur verið í fararbroddi fyrir.  Í samstarfi að vísu við aðra flokka, Alþýðuflokkinn, Framsóknarflokkinn og nú Samfylkinguna.  Það er hins vegar engin ástæða fyrir Samfylkinguna, Jafnaðarflokk Íslands, að sitja föst í neti frjálshyggjunnar, það eru sannarlega aðrir kostir í boði og þjóðin vill þá.

Engum blöðum er um það að fletta að um þessar mundir er  jarðvegur fyrir verulega breytta stjórnarstefnu.  Ýmsir halda því fram að það sé málefnalega langt á milli Vinstri grænna og Samfylkingar og þessi flokkar eigi erfitt með að starfa saman.  Það hygg ég að sé bábylja.  Vissulega hafa Vinstri græn í stjórnarandstöðu á Alþingi haft uppi hvassa gagnrýni á Samfylkinguna sem situr í stjórn í skjóli Sjálfstæðisflokksins.  Og Samfylkingin svarað stjórnandstöðu VG fullum hálsi.  Það er eðlilegt.  En kjarni málsins er þó sá að báðir þessir flokkar eiga djúpar rætur meðal almenns launafólks, verkalýðshreyfingarinnar, og bera hag þess mjög fyrir brjósti.  Báðir flokkarnir hafa talað fyrir jafnrétti á öllum sviðum, afnámi kynbundins launamunar, bættum hag elli- og örorkulífeyrisþega, eflingu menntunar og menningar, meira gagnsæi í opinberri stjórnsýslu, sameign þjóðarinnar á auðlindum, sjálfbærri þróun, stuðningi við baráttu fátækra þjóða fyrir frelsi og efnahags- og félagslegum umbótum og svo mætti áfram telja.  Þótt þá greini oft á um leiðir er engin ástæða til að ætla annað en að stjórn þessara flokka yrði samhent og sterk.

Líklegt er að einhverjir bendi á ólíka sýn flokkanna tveggja á utanríkismál og víst er um það að á því sviði eru markmið flokkanna ólík.  En við lifum á síbreytilegum tímum, þar sem afstaða og markmið eru breytingum undiropin.  Skýrt dæmi um það er afstaða okkar til Breta, sem við höfum lengi talið til vinaþjóðar okkar.  Stórpólitísk deilumál undanfarinna ára, eins og afstaðan til Atlantshafsbandalagsins, Evrópusambandsins, Rússlands o.s.frv. lýtur einnig lögmálum breytinga.  Hornsteinn traustrar utanríkisstefnu verður þó líklega ávallt samstarf okkar á vettvangi norrænna þjóða, Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og baráttan fyrir friði og mannréttindum.

Vinstri græn hafa talað fyrir því að þegar við höfum komist í gegnum erfiðasta hjallann í þeim efnahagsþrengingum sem við tökumst nú á við, þurfi að endurmeta frá grunni þau pólitísku leiðarljós sem eiga að varða veginn til framtíðar.  Það er aðeins þjóðin sjálf sem getur tekið þær ákvarðanir sem þarf að taka í því efni og það hlýtur að gerast áður en mjög langt um líður.


mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Árni ég vona að þú gerir þér grein fyrir að þú ert ábyrgur líka og ættir ásamt öllum þeim sem sitja á þingi og hafa setið síðan 1990 að láta vera að bjóða þig fram, og ekki koma með eitthvað um að þú hafir ekki verið í ríkisstjórn og hafir bennt á eitt að annað það er ekki málið.  Eing og ég segi þá eiga þeir sem hafa verið á þingi síðan 1990 að láta sið hverfa af vettvangi stjórnmálana efir að þið hafið komið lögum yfir þá sem að þessu stóðu.

Einar Þór Strand, 26.10.2008 kl. 12:01

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll Einar.

Ég get nú ekki tekið undir með þér, sjálfur hef ég setið á þingi í eittoghálft ár og hef þar að auki alla tíð verið gagnrýninn á þá stjórnarsetefnu sem hér hefur verið rekin undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðan 1991.  Betur hefði farið ef fleiri slíkir væru á þingi.  Nú þurfum við breytta stjórnarstefnu og alls ekki meira af því sama takk.

Árni Þór Sigurðsson, 26.10.2008 kl. 12:34

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

"...að sjónarmið réttlætis, jöfnuðar og samhygðar ráði ferð og taki við af græðginni, misskiptingunni og sérhyggjunni..."

Ég skil ekki alveg hvernig stjórnmálamaður sem situr á þingi getur séð til þess að samhygð taki við af græðgi. Hvernig er það gert?

Benedikt Halldórsson, 26.10.2008 kl. 12:48

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Árni ég veit það en þú ert búinn að vera í stjórnkerfinu mun lengur og eins og ég segi það fæst engin sátt nema þið hættið allir hversu erfitt sem það er fyrir ykkur í VG að kyngja því.  Það er enginn að tala um meira af því sama það er bara verið að tala um eitthvað nýtt ekki endurunnin kommunisma sem er grein af sama meiði og kapítalisminn og byggir á óendanlegri græðgi, og græðgin verður ekkert betri undir nýjum merkjum.  Einnig má benda á að stjórnarandstaða sem þið hafið stundað hefur verið hörmulega léleg.

Einar Þór Strand, 26.10.2008 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband