Færsluflokkur: Evrópumál

Ráðherrar eru þingbundnir

Alþingi ákvað hinn 16. júlí sl. að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að síðan færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegar niðurstöður aðildarviðræðna.  Ákvörðunin var vissulega umdeild, m.a. innan míns flokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.  Hún er þó í samræmi við það sem lagt var upp með í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og flokksráð VG samþykkti.  Á þeim tíma lá þó jafnframt fyrir að nokkrir þingmenn flokksins myndu ekki styðja tillögu þessa efnis.  Ákveðið var að tillagan fengi þinglega meðferð og meirihluti Alþingis yrði einfaldlega að ráða hvaða leið yrði farin.  Og Alþingi tók ákvörðun eins og kunnugt er eftir ítarlega vinnu í utanríkismálanefnd og langa umræðu í þingsal.

Í stjórnarskránni kemur fram að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn.  Það þýðir að ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að njóta stuðnings meirihluta Alþingis.  Hið sama á að sjálfsögðu við um einstaka ráðherra.  Þeir eru þingbundnir.  Í fjölmiðlum nú nýverið lýsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, yfir því að hann teldi réttast að fresta viðræðum við ESB um aðild vegna þeirrar veiku stöðu sem Ísland væri í um þessar mundir.  Vísaði hann í því efni m.a. til yfirlýsinga hollenska utanríkisráðherrans sem tengdi saman ESB-umsókn Íslands og lausn Icesavedeilunnar.  Ég tel að yfirlýsingar hollenska ráðherrans hafi fyrst og fremst verið til heimabrúks.  Hið sama á við um yfirlýsingar Jóns Bjarnasonar.  Þær eru að mínu mati einkum til heimabrúks í kjördæmi ráðherrans.  Eða – ef ráðherranum er alvara með tillögu sinni hlýtur hann að fylgja henni eftir með því að leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að fresta ESB-viðræðum.  Ráðherrann verður nefnilega að hlíta niðurstöðu Alþingis.

Það er ljóst að í viðræðum við ESB munu sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin skipa veigamikinn sess.  Ég skora því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja nú þegar vandlegan undirbúning viðræðnanna á málasviði hans, þar eru ríkustu hagsmunir lands og þjóðar.  Hvað sem okkur kann að finnast um ESB-aðild (sem þjóðin mun að sjálfsögðu ráða til lykta) þá ber okkur öllum að taka samþykkt Alþingis alvarlega og vinna í samræmi við hana af fullum heilindum að hagsmunum þjóðar í hvívetna.  Jón Bjarnason eins og aðrir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband