Færsluflokkur: Íþróttir

Stórleikur Rússa

Þetta var stórleikur Rússa, í einu orði sagt.  Nú var mér nokkur vandi á höndum því ég hef fylgst með Evrópumeistaramótinu í fótbolta með þá von í brjósti að Hollendingar yrðu meistarar.  En Rússar voru númer tvö í mínum huga.

Það var því nokkuð blendin tilfinning að þurfa að horfast í augu við þessi tvö draumalið mín keppa á þessu stigi, hefði auðvitað viljað sjá þau í úrslitaleiknum.  Það var hins vegar ekki í boði og því beið ég þess sem verða vildi.  En Rússar áttu einfaldlega stórleik.  Roman Pavljútsjenko og Andrej Arshavin voru frábærir og einnig Dmítríj Torbinskij sem kom inná sem varamaður.

Vissulega eiga Hollendingar frábæra leikmenn eins og Van der Saar og Nistelrooy, og það er sárt að sjá þá dottna út, meðan miklu síðri lið eins og Tyrkir og Ítalir halda áfram.  Svona er fótboltinn ósanngjarn á stundum.

En Rússar mega vel við una.  Þeir áttu einfaldlega stórleik í kvöld, voru mun betri lengi framan af þótt Hollendinga sæktu í sig veðrið og þeim tókst jú að jafna á 86. mínútu.  En í framlengingunni voru Rússar eins og þeir væru að byrja nýjan leik og úrslitin voru afar verðskulduð.

Og í öllu falli var leikurinn stórkostleg skemmtun.


mbl.is Rússar í undanúrslit eftir sigur á Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegar lokamínútur

Það er óhætt að segja að lokamínútur leiks Tékka og Tyrkja hafi verið ótrúlega, í mínum augum raunar skelfilegar því sananrlega vonaðist ég til að vinir mínir Tékkar kæmust áfram upp úr riðlinum.  Af því verður ekki, því miður.  En í hópi uppáhaldsliða minna eru enn eftir Hollendingar og Króatar sem eru líklegir til að standa sig vel.  Vonandi verða Hollendingar Evrópumeistarar.  En Tékkar fara heim, en þeir stóðu sig samt prýðilega og áttu vitaskuld að vinna þennan leik í kvöld.  Svona getur fótboltinn verið nöturlega ósanngjarn!


mbl.is Ótrúlegur lokakafli tryggði Tyrkjum sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ æ, svo sárt, svo sárt!

Leikur Íslands og Danmerkur í 8-liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í handbolta var hreint ótrúlegur.  Og svo nálægt því sem við vorum að komast í undanúrslitin.  Þvílík frammistaða og þvílíkur spenningur - en jafnframt þvílík vonbrigði þegar við misstum af tækifærinu til að innsigla sigur á síðustu mínútu í framlengdum leik.

Danir voru sigurvissir fyrir leikinn, töldu það nánast formsatriði að leika leikinn við Ísland.  Það kom í ljós að það var mikið vanmat.  Staðan var meira og minna jöfn, liðin áttu bæði góða spretti og náðu forystu.  Og það mátti heyra á manni leiksins, Snorra Steini Guðjónssyni, að það var sárt, svo sárt að missa af tækifærinu að ná lengra en íslenskt handboltalið hefur nokkru sinni náð fyrr á heimsmeistarakeppni.

Engu að síður er frammistaða íslensku strákanna frábær, þeir eiga hrós skilið.  Framundan er leikur við Rússland um 5. - 8. sæti á fimmtudag og nú er bara að gefast ekki upp heldur sýna að við erum í hópi fimm bestu handknattleiksþjóða í heimi.  Áfram Ísland!


Hvað komumst við langt?

Ísland keppir við Danmörku á heimsmeistaramótinu í handbolta á morgun. Það er mikilvægur leikur, vinningsliðið er komið í hóp fjögurra efstu liða og keppir um að komast á verðlaunapall.  Danskir fjölmiðlar greina frá því að íslensku strákarnir séu þeir sem Danirnir vildu helst lenda á móti.

Árangur íslensku strákanna hingað til er glæsilegur, og raunar hvernig sem fer.  Þeir hafa staðið sig með stakri prýði, eru í hópi 8 bestu handknattleiksliða í heiminum.  En vitaskuld munu þeir leggja allt í sölurnar í leiknum við Dani.  Það er ekki laust við að danskurinn telji Ísland auðvelda bráð í leiknum á morgun, það er a.m.k. undirtónninn í umfjöllun danskra fjölmiðla.  Þeim væri þó hollast að sýna Íslendingum tilhlýðilega virðingu í þessu efni.

Liðin eru auðvitað bæði firnasterk og leikurinn getur farið á hvorn veg sem er.  Vinni Ísland, keppum við við vinningsliðið úr leik Póllands og Rússlands í undanúrslitum.  Það er því mikið í húfi fyrir bæði liðin og þau munu bæði leika upp á sigur.  Þess vegna er viðbúið að þetta verði hörkuleikur.  Áfram Ísland!


Frábær barátta Íslands á HM

Íslenska handknattleiksliðið barðist stórkostlega allan leikinn á móti Slóvenum, en leiknum lauk nú fyrir stundu með sigri Íslands, 32-31.  Síðustu mínúturnar voru að vísu óþægilega spennandi þegar Slóvenum tókst að minnka muninn niður í eitt mark, en íslensku strákarnir gáfust aldrei upp og börðust eins og hetjur til loka leiksins. 

Ísland er nú komið í 8-liða úrslit og því ein af allra bestu handknattleiksþjóðum í heimi.  Leikurinn við Þjóðverja á morgun breytir ekki stöðu okkar að þessu leyti þó vissulega væri gaman að velgja gestgjöfunum aðeins undir uggum.  Vonandi gengur okkur vel þá líka.

Í leiknum í dag voru markverðirnir, Birkir Ívar Guðmundsson og Roland Eradze, ásamt Loga Geirssyni tvímælalaust bestu menn okkar.  Til hamingju með frábæran árangur.


mbl.is Ísland í 8-liða úrslit eftir sigur á Slóveníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og íslenska veðrið - stormasamt!

Það var sannarlega vel að verki staðið hjá íslensku handboltastrákunum að leggja Evrópumeistara Frakka með jafn eftirminnilegum hætti og raun varð á í gær.  Frammistaða þeirra var stórkostleg.  Ólafur Stefánsson lýsti því þannig að liðið væri eins og íslenska veðrið, óútreiknanlegt.  Og við vitum að það getur verið stormasamt hér heima, og þannig getur árangur liðsins líka verið.  Það eru svo ótal ótal mörg dæmi um það á undanförnum árum að liðið hafi vantað úthald á endasprettinum.

Út af fyrir sig var það dálítið skrýtið að heyra íþróttafréttamenn hneyksast og lýsa vanþóknun á liðinu í leik þess gegn Úkraínu, segja jafnvel að liðið væri ömurlegt og þar fram eftir götunum.  Sumir mættu gjarnan gæta orðavals í lýsingum.  En sannleikurinn er sá að lýsing Ólafs er hárrétt, við vitum aldrei hvernig liðinu mun reiða af, hvernig vindarnir blása svo notuð sé veðursamlíkingin.  Ég held raunar að liðinu gangi alltaf betur í rauðum búningi en bláum (og það er freistandi að leggja pólitískan skilning í það, þó það verði nú ekki gert hér).

Nú er staðan sú að Ísland er efst í sínum milliriðli og raunar þótt hinn milliriðillinn sé talinn með líka, Ísland hefur hagstæðustan markamun.  Það er ágæt forgjöf og vekur vonir um að Ísland komist jafnvel í fjórðungsúrslit, verði sem sagt eitt af fjórum liðum sem komast upp úr milliriðlinum.  Íslensku strákunum er óskað alls hins besta, þeir hafa sýnt hvað í þeim býr, þeir eru auðvitað mistækir eins og við öll, en þeir eiga órofa stuðning þjóðarinnar allrar í þeirri baráttu sem framundan er.  ÁFRAM ÍSLAND!


mbl.is Ólafur Stefánsson: „Erum eins og íslenska veðrið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir, Jafet og kona

Á fréttavef Ríkisútvarpsins var greint frá því að kona hefði boðið sig fram til formennsku Knattspyrnusambands Íslands.  Áður hafði komið fram að Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri KSÍ og Jafet Ólafsson fyrrv. forstjóri VBS hefðu tilkynnt um framboð til formennsku. 

Það er dæmigert að fréttin skuli snúast um það að kona bjóði sig fram, ekki að Halla Gunnarsdóttir hafi ákveðið að skella sér í formannsslaginn.  Kannski er þetta óafvitandi hjá mbl.is en kannski er þetta bara dæmigert fyrir viðhorfin í samfélaginu.  Út af fyrir sig er það fréttaefni að nú gefst knattspyrnuhreyfingunni í fyrsta skipti tækifæri til að kjósa konu í formannsstól en að sjálfsögðu er það aðalatriðið að það er Halla Gunnarsdóttir, blaða- og knattspyrnukona sem sækist eftir formennsku í KSÍ. Vonandi ber knattspyrnuhreyfingin gæfu til að gera hana að formanni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband