Fátækt og heimilsofbeldi til umræðu

Á fundi stjórnar sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem nú stendur yfir hér í Strasbourg, hefur sjónum einkum verið beint að fátækt og heimilisofbeldi.  Mikill vilji er til þess að beina því til sveitarstjórna í aðildarríkjum Evrópuráðsins, að taka þessi mál föstum tökum.

Augljóslega er það mikið áhyggjuefni hvað misskipting hefur aukist og fátækt er útbreidd.  Því hefur sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins falið félagsmálanefnd sinni að fjalla um þetta viðfangsefni og leita leiða til að sveitarfélög geti haft meiri áhrif í baráttunni við fátækt sem er vaxandi vandamál í evrópskum borgum.  Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna fer vaxandi og enn er við mikið atvinnuleysi að stríða víða.  Aðgerðir sveitarfélaga beinast því einkum að því að þjálfa langtímaatvinnulausa þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að fara út á vinnumarkaðinn.

Heimilisofbeldi og baráttan gegn því og mansali er verkefni sem sveitarstjórnarþingið í Evrópuráðinu lætur sig varða.  Hér er um að ræða einn alsvartasta blettinn á samfélagi nútímans og sem brýnt er að vinna gegn með öllum tiltækum ráðum.  Evrópuráðið hefur nú hrint af stað herferð, "Stöðvum heimilisofbeldi", sem mun standa næstu tvö ár og er ætlunin að nota tímann til að vekja fólk til umhugsunar um þennan smánarblett og leita áhrifaríkra leiða til að berjast gegn honum í samstarfi við þjóðþing, ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, félagasamtök o.fl.  Meðal þess sem hér er rætt um er viðunandi aðstaða fyrir konur og börn sem búa við heimilisofbeldi.  Þá hefur Evrópuráðið og sveitarstjórnarþing þess einnig, hafið baráttu gegn mansali undir slagorðinu "Human being - not for sale!"  Hægt er að skoða nánar yfirlýsinguna um þetta mál á slóðinni www.coe.int/stop-trafficking

Þá er rétt að nefna að hér hefur líka verið til umfjöllunar og afgreiðslu ályktun um réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og kynskiptinga. Í ályktun sem var samþykkt hér eru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að taka afstöðu gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi gegn þessum hópum og tryggja mannréttindi þeirra í hvívetna.  Áhersla var lögð á að nýta skólakerfið markvisst til þess að fræða og upplýsa um mannréttindi og það, að fólk er mismunandi og má vera það.  Það kom ekki á óvart að Rússar og fleiri Austur-Evrópuþjóðir vildu fara varlegar í sakirnar og lögðu til að ályktunartextinn yrði þynntur aðeins út, en það var sem betur fer ekki samþykkt. 

Í öllum þessum málum hafa sveitarstjórnir hlutverki að gegna sem vafalaust er vanmetið víða.  Hins vegar er sjálfsagt að efla starf sveitarfélaganna að mannréttindamálum hvers konar og nýta þau tæki sem þau ráða yfir í því efni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hér er engu við að bæta.  Þakka þér kærlega fyrir þennan fróðlega pistil Árni.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.3.2007 kl. 16:16

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já ég er hjartanlega sammála þér með að auka þarf fræðslu um mannréttindi á öllum "vígstöðvum" og ekki síst í skólum og á sveitarstjórnarstiginu.

Herdís Sigurjónsdóttir, 2.4.2007 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband