Um hvað snýst þá málefnasamningurinn?

Morgunblaðið, málgagn hins nýja meirhihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um atburði liðinnar viku og  m.a. gert mikið úr því að núverandi meirihlutaflokkar hafi komið sér saman um málefnasamning, sem sé meira en fráfarandi meirihluti hafi gert.

Þetta er náttúrulega hálf broslegt þegar maður les þessa frétt á mbl. is um fund sjálfstæðismanna í Reykjavík þar sem bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýstu þeirri skoðun sinni að íbúabyggð ætti að reisa í Vatnsmýri og þar með að flugvöllurinn eigi að víkja.  Í hinum víðfræga málefnasamningi D- og F-lista í borgarstjórn er efsta mál á dagskrá að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri.  Það var enda kosningaloforð Ólafs F. Magnússonar en listi hans fékk um 10% atkvæða.  Allir hinir listarnir boðuðu að flugvöllurinn myndi víkja og íbúabyggð rísa í Vatnsmýri.  Þau viðhorf hlutu um 90% atkvæða.

En væntanlega þykir Morgunblaðinu og skríbentum þess allt í himna lagi að meirihlutinn styðjist við málefnasamning enda þótt flestir borgarfulltrúar séu andvígir einu mikilvægasta skipulagsmáli hans, og haninn hafi ekki galað þrisvar þegar tveir af helstu forvígismönnum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafi afneitað honum. 

Tilgangurinn helgar bersýnilega meðalið - sem Hönnu Birnu og Gísla Marteini svelgist á!


mbl.is Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hanna Birna og Gísli Marteinn þurftu ekkert að lýsa þessu yfir,þau eru löngu og oft búin að gera það og það vita allir sem fylgjast með enda var sagt við Borgarstjórnaskiptin í síðustu viku að mál flugvallarins yrði ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili.Hvað verður svo gert í þessu á næsta tímabili kemur svo bara í ljós.Svo þessi yfirlýsing þeirra hefði nú ekki átt að koma þér neitt í opna skjöldu.Það er öllum ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og fleiri flokkar í Borgarstjórn vilja flytja völlin burt.Hitt er svo annað mál Árni að stjórnmála menn hafa ekki langt í vana sinn að hlusta á vilja kjósenda og er það miður.Fyrir nokkru síðan var rætt um að áhugi á stjórnmálum færi dvínandi ásamt þátttöku í kosningum á Vesturlöndum og í Bandaríkjunum.Ertu hissa á því Árni?Það hefur marg oft komið í ljós hvað er efst á óskalista hins almenna borgara í þessu landi.Fólkið vill betri samgöngur,eyða biðlistum á sjúkrahúsum,eyða biðlistum eftir plássi í þjónusthúsnæði fyrir aldrað fólk.Lækkun að verðlagi hérna,hækkun á persónuafslætti,stórbætt kjör aldraðra og öryrkja og svo mætti lengi telja.En hvað gerist?Afskaplega lítið,maður er enn að heyra sömu tugguna um sömu málin sem maður hefur hlustað á síðan maður fékk kosningarétt og er maður að nálgast miðjan aldur eins og það er kallað.Fólk er að missa áhugann á að mæta á kjörstað og láta hafa sig að fíflum,það er bara þannig.Það er ekki hlustað á okkur.Það er ekkert eða lítið gert af því sem við viljum láta gera.Þetta er sögð ein ríkasta þjóð í heimi en það sýnir sig ekki.Hvar er allt þetta fjármagn?Hvar er þetta ríkidæmi?Þú ert á þingi,þú kannski veist það?Við erum ekki og viljum ekki, fyrr en allt er í lagi hér hjá okkur að það sé verið að setja 350 milljónir í Írak,annað eins í Afganistan,friðargæslulið í Sri Lanka, Afganistan.Irak og á fl.stöðum.Það getur þá komið seinna.Við eigum ekkert að taka þátt í þessu hernaðarbrölti,okkur kemur það ekki við og þeir sem fóru þarna inn og sprengdu allt uppí loft geta þá bara sjalfir borgað þetta,þetta er jú þeirra verk.En að hlusta á stjórnmálamenn á þingi í dag er ekki það skemmtiegasta sem maður gerir,svo mikið er víst.

Alþingi er eini vinnustaðurinn sem ég veit um í dag sem virðist vera leiðinlegur fram úr hófi og þar virðist verkefnaskortur hrjá mannskapinn út í eitt.Það var t.d.afskaplega fræðandi fyrir þá sem á hlýddu þegar tillagan var borin fram um nafgiftina Ráðherra og eitthvað annað fyrir konur eða hvort hvítvoðungar á fæðingardeildini ættu að klæðast í bleikt eða blátt.Var það þetta sem var mest aðkallandi,hélt þetta vöku fyrir þingheimi?.......Hvað er að?.....eitt er víst að..........politík er leiðinleg tík.

Júlíus Már Baldursson (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 00:55

2 Smámynd: Bergljót Aðalsteinsdóttir

Það verður fróðlegt að fylgjast með fyrsta fundi hins nýja meirihluta í borgarstjórn. Það er ljóst að það er ekki meirihluti lengur fyrir því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni. Enda fáanlegt að hafa flugvöll inní miðri borg. Í allri umræðunni um borgarstjóraskiptin finnst mér vanta að Kjartan M og Villi séu spurðir í fjölmiðlum útí hvernig þeirra aðkoma að málinu er. Margrét Sv hefur lýst því í viðtali við Dagblaðið þegar Kjartan hringdi í hana óðamála og bauð henni að velja um forstöðu í nefndum. Margur heldur mig sig gott hjá henni! Þessir sérgæðingar í sjálfstæðisflokknum reyna nú að fela sig á bak við Ólaf í von um að fólk vorkenni honum. Þarna er um pólitískan hráskinnaleik að ræða og það á ekki að hlífa þeim sem hófu hann. Uppá borðið svo fólk sjái hvað var raunverulega á seiði

Bergljót Aðalsteinsdóttir, 27.1.2008 kl. 09:30

3 Smámynd: Vilberg Tryggvason

Það er sorglegt þegar stjórnmálamenn bera fyrir sig skilningsleysi eða eitthvað sé broslegt hjá öðrum en líta sér ekki nær.  Vissulega eru  misjafnar skoðannir innan stjórnmála flokka og því fjölbreyttari eru þær eftir því sem flokkarnir eru stærri. Það finnast einstaklingar innan vinstri grænna sem vilja völlinn áfram í Vatnsmýrinni. Svo hafa stjórnmálamenn ennþá rétt til að skipa um skoðun rétt eins og kjósentur. Mér finnst merkilegt að jafn mikill félagshyggjuflokkur og Vinstri grænir eru, skuli ekki enn vera búnir að áttta sig á nauðsin Reykjavíkurflugvallar fyrir heildina, þegar kjósendur í Reykjavík eru farnir að gera það.

Vilberg Tryggvason, 27.1.2008 kl. 11:24

4 Smámynd: Óttarr Makuch

Í málefnasamningi nýja meirihlutans í Reykjavík segir orðrétt

"Reykjavíkurflugvöllur verður sýndur í óbreyttri mynd í aðalskipulagi á meðan rannsóknir standa yfir vegna nýs flugvallarstæðis á höfuðborgarsvæðinu. Ekki verður tekin ákvörðun um flutning Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu."

Eins og þú veist Árni þá eru ekki fyrirhugaðar breytingar á flugvellinum fyrr en árið 2016 og þessu kjörtímabili líkur 2010.

Bara ef maður skoðar málefnasamningin og les hann sem og hugsar um þær samþykktir sem eru fyrir hendi vegna flugvallarins, þá sést glöggt rangfærslan sem á sér stað hér fyrir ofan, en væntanlega leiðréttir þú hana í samræmi við þær upplýsingar sem þú hefur!

Innan Sjálfstæðisflokksins eru misjafnar skoðanir um veru flugvallarins eins og í öllum öðrum flokkum, sjálfur vill ég hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni og hef alltaf viljað.  Sjálfstæðismenn hafa hinsvegar einnig alltaf sagt að flugvöllurinn verður ekki færður fyrr en viðeigandi lausn hefur verið fundinn um staðsetningu ofl.

Óttarr Makuch, 27.1.2008 kl. 11:35

5 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Þetta eru ágætar athugasemdir Vilberg og Óttarr.  Hvað afstöðuna til Reykjavíkurflugvallar snertir þá horfi ég á það mál einkum með gleraugum sjálfbærrar þróunar.  Ég tel gríðarlega mikilvægt fyrir þróun borgarinnar að geta haldið útþenslu byggðar í skefjum og byggja inn á við, nýta innviði samfélagsins enn betur og draga úr ferðaþörf og þar með losun gróðurhúsalofttegunda eins og kostur er.  Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir mikilvægi flugvallar í Reykjavík fyrir landsmenn alla og hef ætíð haldið þeim sjónarmiðum á lofti einnig.  En það þýðir ekki endilega að Reykjavíkurflugvöllur þurfi að vera í miðbænum sjálfum.  Undir það hljóta þeir að geta tekið sem leggja megináherslu á góðar samgöngur við borgina.

Í athugasemd Óttarrs kemur fram að ekki sé hvort eð er gert ráð fyrir flutningi flugvallar á yfirstandandi kjörtímabili.  Mikið rétt.  En hvers vegna telur Ólafur F. þetta mál þá einkum og sér í lagi hafa valdið erfiðleikum innan fráfarandi meirihluta?  Það er með öllu óskiljanlegt því það hafa einungis verið rannsóknir og athuganir af ýmsum toga í gangi.  Kannski á að setja allt slíkt á ís líka?  Er nema von að menn velti fyrir sér hvort það séu önnur sjónarmið sem réðu ákvörðun Ólafs F. að slíta meirihlutasamstarfi, án nokkurs fyrirvara og án þess að gera nokkrar athugasemdir við störfin innan fyrri meirihluta?

Árni Þór Sigurðsson, 27.1.2008 kl. 12:17

6 Smámynd: Óttarr Makuch

Ekki get ég svarað fyrir Ólaf F. en sjónarmið F-listans voru síður en svo uppá pallborðinu í gamla meirihlutanum og það vita allir sem fylgst hafa með.  Kannski væri réttara að spyrja hvers vegna F-listinn hafði ekki fasta fulltrúa í ráðum og nefndum borgarinnar í stað þess að vera einungis með áheyrnafulltrúa í einhverjum þeirra?  Hefði ekki talist eðilegra í ljósi kjörfylgis að þeir hefðu verið með meira vægi en Framsóknarflokkurinn sem mældist með mun minna fylgi. 

Ég hugsa eða öllu heldur ég veit að málefni F-listans eru ofar í umræðunni í dag en þau voru fyrir nokkrum vikum síðan.

Óttarr Makuch, 27.1.2008 kl. 13:38

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég les ekki sorprit Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðið. Ég get því ekki tjáð mig um þau skrif.

Málefnasamningur nýja meirihlutans er hinsvegar ekki pappírsins virði og mér dettur einungis í hug lýsingarorð og sagnorð sem ekki eru birtingarhæf um hann.

Hvað flugvöllinn varðar, þá finnst mér fyrir mitt leyti ágætt að hafa hann þar sem hann er. Ég er utan af landi. Ég bjó samt í vesturbænum í nokkur ár og skil vel þá sem finnst flugvélagnýrinn þreytandi.

Það þekkist að ég held hvergi í stórborgum að flugvöllur sé í miðri íbúabyggð. 

Theódór Norðkvist, 27.1.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband