Borgarstjóri á villigötum

Ekki hefur farið framhjá mörgum að umferðar- og samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið talsvert til umfjöllunar og nærtækast að minnast á aðgerðir atvinnubílstjóra til að mótmæla þróun eldsneytisverðs.  Til eru þeir sem vilja af einlægni beita sér fyrir umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum borgarinnar og er undirritaður einn þeirra sem lengi hafa talað fyrir slíku átaki.  Borgarstjórinn í Reykjavík er því miður ekki í þessum hópi.  Kemur það vægast sagt á óvart eftir allar yfirlýsingar hans um að umhverfismálin séu hans hjartans mál.

Tillaga mín og 11 annarra þingmanna um raunverulega athugun á hagkvæmni lestarsamgangna, m.a. léttlestakerfis á höfuðborgarsvæðinu, hefur almennt fengið góðar viðtökur. Í kjölfarið lagði minnihlutinn í borgarstjórn fram sambærilega tillögu þar og Sjálfstæðismenn tóku undir hana með samþykkt tillögu í þessa sömu veru í borgarráði. Varð að fresta málinu í borgarráði milli funda en borgarstjóri var svo fjarverandi þegar málið var afgreitt.

Margvísleg rök mæla með því að gerð verði heildstæð athugun á hagkvæmni lestarsamgangna. Úrtölumenn, eins og t.d. borgarstjóri, hafa bent á að slík könnun hafi verið gerð fyrir nokkrum árum og niðurstaðan þá ekki þótt fýsileg. En það er eins og það komist ekki inn fyrir skel úrtölumanna að það hefur margt breyst á fáum árum í þessu efni. Í fyrsta lagi má nefna að athugunin á sínum tíma fjallaði ekki um þjóðhagslega hagkvæmni, hún tók aðeins til beins kostnaðar og áætlaðra rekstrartekna. Ekki var fjallað um samfélagslegan ávinning af færri slysum, styttri ferðatíma, minni losun gróðurhúsalofttegunda eða ávinning samfélagsins af því að nota innlent rafmagn sem orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis svo eitthvað sé nefnt. Þessu til viðbótar hafa viðhorfin í samfélaginu til umhverfismála breyst og sem betur fer á þann veg að æ fleiri skynja nú mikilvægi þessa málaflokks og þess, með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi, að tryggja sjálfbæra þróun á öllum sviðum. Þá hefur eldsneytisverð hækkað geysilega að undanförnu og fátt sem bendir til þess að sú hækkun sé aðeins tímabundið skot. Það er því afar brýnt að leita nýrra lausna og við verðum að leggja talsvert á okkur í því sambandi.

Loðin svör borgarstjóra nú síðast um að hægt sé svosem að fara í ódýra athugun ber vott um að maðurinn ber ekkert skynbragð á kröfur og þarfir nútímans og framtíðarinnar og er að því er virðist algerlega laus við allan skilning á umhverfismálum í borgarsamfélagi. Þegar augu sífellt fleiri opnast fyrir því að stórefling almenningssamgangna er eina vitræna lausnin í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins og að tryggja þarf öruggar, áreiðanlegar og mengunarlitlar almenningssamgöngur og nýta innlenda orkugjafa fremur en innflutt bensín og olíu, er borgarstjórinn eins og síðasti móhíkaninn með fjarrænt blik í augum og skilur ekki kall tímans. Hann er því miður á algjörum villigötum og væri óskandi að hann skynjaði sinn vitjunartíma.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. apríl)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Hann hefur þá áhuga á náttúruvernd í nokkuð hefbundnum skilningi, og á varðveitingu húsa og götumynd, en virðist hafa litill áhuga á umhverfisvernd, og sérstaklega ekki að þoka samfélagið  í átt til sjálfbærni ?

Fann lítið um stefnu borgarstjórans á netinu í umhverfismálum, auðveldari var að finna umhverfisáherslur Ástu Þorleifs.  

Samt segir í málefnabók Frjálslýndra, sem virðist vera frá árinu 2007

Móta þarf stefnu um umhverfisvernd í þéttbýli
Taka þarf á sorpmálum, útblæstri og hávaðamengun. Flokkurinn leggur áherslu  að umbuna fólki fyrir það sem það leggur af mörkum og gera því auðvelt fyrir ð breyta í samræmi við nýtt hugarfar umhverfisverndar.

Þá er kafli um að gróðurhúsamálin þurfa að taka á í alvöru og ekki beri að reyna að framlengja undanþáguákvæði Kyóto bókunarinnar. 

Og ég sem hélt að Ólafur F væri á grænna vængnum  miðað við samstarfsaðila sína í Frjálslýnda flokknum. 

Morten Lange, 5.4.2008 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband