Stórleikur Rússa

Þetta var stórleikur Rússa, í einu orði sagt.  Nú var mér nokkur vandi á höndum því ég hef fylgst með Evrópumeistaramótinu í fótbolta með þá von í brjósti að Hollendingar yrðu meistarar.  En Rússar voru númer tvö í mínum huga.

Það var því nokkuð blendin tilfinning að þurfa að horfast í augu við þessi tvö draumalið mín keppa á þessu stigi, hefði auðvitað viljað sjá þau í úrslitaleiknum.  Það var hins vegar ekki í boði og því beið ég þess sem verða vildi.  En Rússar áttu einfaldlega stórleik.  Roman Pavljútsjenko og Andrej Arshavin voru frábærir og einnig Dmítríj Torbinskij sem kom inná sem varamaður.

Vissulega eiga Hollendingar frábæra leikmenn eins og Van der Saar og Nistelrooy, og það er sárt að sjá þá dottna út, meðan miklu síðri lið eins og Tyrkir og Ítalir halda áfram.  Svona er fótboltinn ósanngjarn á stundum.

En Rússar mega vel við una.  Þeir áttu einfaldlega stórleik í kvöld, voru mun betri lengi framan af þótt Hollendinga sæktu í sig veðrið og þeim tókst jú að jafna á 86. mínútu.  En í framlengingunni voru Rússar eins og þeir væru að byrja nýjan leik og úrslitin voru afar verðskulduð.

Og í öllu falli var leikurinn stórkostleg skemmtun.


mbl.is Rússar í undanúrslit eftir sigur á Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Má ég spyrja svolítið persónulegrar spurningar: Er algengt að vinstri menn haldi með Rússum og heldur þú með þeim vegna vinstri sinnaðra skoðana þinna?

Ég tek fram að mér finnst Rússarnir hafa verið með stórgott lið í þessari keppni. Þó ég mikill kapítalisti, sem ég er ekki, myndi það ekki breyta þeirri skoðun minni. 

Theódór Norðkvist, 21.6.2008 kl. 22:45

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll.

Hefur ekkert með pólitík að gera, en ég hef búið í Rússlandi og þekki vel til rússneskrar menningar, bókemennta o.s.frv. og ber mikla virðingu fyrir þessari þjóð sem hefur þurft að þola margt í gegnum aldirnar, ofríki keisaraveldisins, kommúnismans og nýfrjálshyggjunnar.  En þetta var bara vel spilað og verðskuldað!

Árni Þór Sigurðsson, 22.6.2008 kl. 00:27

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Árni,

sammála þér ... leikurinn var FRÁBÆR skemmtun, stórkostlegur leikur - líklega sá besti í keppninni. Vonandi nær Wenger vinur minn í Arsenal að krækja í kappann þó líkurnar á að hann fari til Chelsea séu kannski ögn meiri. Svo er hann víst orðinn 27 ára og Wenger er ekki beint að kaupa menn á þeim aldri!

Í kvöld var hins vegar heldur bragðdaufur leikur Spánverja og Ítala þar sem mínir menn frá Spáni unnu. Úrslitaleikurinn verður Spánn - Tyrkland og Spánverjar fagna LOKSINS stórum titli!

ps. sá þig ekki á landsleiknum um helgina  - þú færð annað tækifæri á fimmtudag, nú máttu ekki klikka!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 23.6.2008 kl. 00:02

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Samúðarkveðja vegna úrslita kvöldsins, en Spánverjarnir sönnuðu einfaldlega að þeir eru mun sterkari!

Magnús Geir Guðmundsson, 26.6.2008 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband