Stefnum hiklaust á rauðgræna ríkisstjórn

Það hefur ekki verið venja í íslenskum stjórnmálum að flokkar gangi bundnir til kosninga.  "Við göngum óbundin til kosninga" er viðkvæði sem er alþekkt úr stjórnmálaumræðunni hér á landi.  Nú eru aðstæður í samfélaginu hins vegar þær að það er skynsamlegt að horfa á þessi mál öðrum augum en hingað til.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar er að vísu minnihlutastjórn.  Slíkar stjórnir eru algengar á hinum Norðurlöndunum.  Þar er það líka almenna reglan að flokkar lýsa því fyrir kosningar hvernig stjórn þeir vilja mynda í kjölfarið.  Núverandi ríkisstjórn er líka myndið við óvenjulegar aðstæður.  Hún hefur farið vel af stað og engum dylst að henni hefur tekist að skapa sátt og ró og myndun hennar var mikilvægt skref til að endurheimta traust milli þings og þjóðar.  Stjórnin nýtur stuðnings Framsóknarflokksins en margir þar á bæ vilja gjarnan líta til samstarfs við núverandi stjórnarflokka að kosningum loknum, þótt skoðanir þar séu ugglaust eitthvað skiptar.

Að mínu mati eiga stjórnarflokkarnir hiklaust að stefna að áframhaldandi stjórnarsamstarfi.  Hin rauðgræna ríkisstjórn nýtur almenns velvilja og stuðnings í skoðanakönnunum og engum dylst að þjóðin hefur meiri trú á störfum hennar en fráfarandi stjórnar, þótt sú stjórn hafi stuðst við 2/3 meirihluta þingmanna en núverandi stjórn sé minnihlutastjórn.  Það er góð samstaða og traust milli stjórnarflokkanna, bæði almennra þingmanna sem og forystumanna stjórnarinnar.  Ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að því að koma heimilum og atvinnulífi til aðstoðar eftir efnahagshrunið sem reið yfir landið eftir 18 ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.  Þeim flokki þarf að gefa langt frí frá ríkisstjórnarborðinu.  Það tekst aðeins ef núverandi stjórnarflokkar fá aukið og styrkt umboð frá þjóðinni.  Besta leiðin er að flokkarnir segi kjósendum það skýrt fyrirfram að þeir stefni hiklaust að rauðgrænni ríkisstjórn að loknum kosningum 25. apríl.  Þá vita kjósendur hvaða kosti þeir eiga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband