Stjórnin í bullandi vörn - lokasóknin er hafin

Stöð 2 var með ágætan þátt í kvöld þar sem formenn stjórnmálaflokkanna tókust á um meginmál kosninganna á laugardag. Þátturinn var nýstárlegur, bæði sátu formennirnir öll saman en síðan var hvert og eitt þeirra yfirheyrt sérstaklega. Í lokin voru síðan þrír álitsgjafar sem sögðu kost og löst á frammistöðu formannanna.

Þátturinn hófst með því að kynnt var ný og stór skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Stöð 2. Þar fær Sjálfstæðisflokkurinn um 38% og Framsókn 8,6% og samanlagt fá stjórnarflokkarnir 30 þingmenn. Samfylkingin hefur náð vopnum sínum og mælist með tæp 30%, sem er að nálgast kjörfylgið í síðustu kosningum, Vinstri græn eru rúm 16% en það er tvöföldun á fylgi frá 2003 og Frjálslyndir eru með rúm 5%. Samanlagt fá stjórnarandstöðuflokkarnir 33 þingmenn. Íslandshreyfingin nær ekki að koma manni að og vantar talsvert á að svo verði.

Í þættinum voru formenn stjórnarflokkanna í bullandi vörn, einkum Jón Sigurðsson. Að mínum dómi stóðu Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sig áberandi best, þannig að ég er sammála álitsgjöfum Stöðvar 2 um það atriði. Sömuleiðis um að formaður Framsóknar hafi átt lakastan leik. Hins vegar vekur athygli mína sú skoðun álitsgjafanna að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafi verið að daðra hvort við annað. Það vekur upp spurningar um það hvort atkvæði greitt Samfylkingu sé hugsanlega ávísun á áframhaldandi stjórnarforystu Sjálfstæðisflokks.

Nú eru aðeins 2 dagar til kjördags. Þótt enn séu talsverðar sveifur í skoðanakönnunum þá eru stóru línurnar samt skýrar. Samfylkingin verður á svipuðu róli og síðast og hið sama má segja um Frjálslynda. Framsókn tapar og Sjálfstæðisflokkur bætir við sig. Vinstrihreyfiingin - grænt framboð stefnir síðan í að tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum, og verði það úrslitin á laugardag, þá er það sögulegur pólitískur sigur og skýr skilaboð frá kjósendum um að VG eigi að axla ábyrgð í landsstjórninni. Til þess erum við að sjálfsögðu reiðubúin. Nú verða allir að leggjast á eitt og tryggja VG sögulegan sigur, það er eina raunverulega tryggingin fyrir breytingar. Lokasóknin er hafin, það er hægt að fella ríkisstjórnina og koma sjónarmiðum velferðar, umhverfisverndar, jafnréttis og jöfnuðar að í ríkisstjórn. Látum þann draum rætast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Daður milli djélistans og Samfylkingarinnar trúi ég að eigi sér helst stað í höfðinu á álitsgjöfunum.  Ég býð nú ekki mikið í álitgjafa: Atli Rúnar hélt að Geir sinn væri í svo góðum málum.  Þar er ég ekki sammála.  Lét rúlla yfir sig.  Lúffaði fyrir Guðjóni og frekar en ekkert, og til að breiða yfir vandæðaganginn, fór hann að atast í Ingibjörgu.  Í lokaorðunum mátti sjá á Geir að hann var að fara á taugum, enda ekki vanur að hafa annað en jáfólk í kringum sig.  Gat svo ekki almennileg svarað hvort  hann væri frjálshyggjumaður, heldur tafsaði einhverja vitleysu!  Gallinn við "maður á mann" hlutann var sá að tekið var á Jóni og Geir með silkihönskum! Já, hálfpartinn mjálmað utaní þá! Steingrímur lét ekki Sigmund  Erni ekkert vaða yfir sig, sem þó reyndi hvað hann gat.  Var reyndar sá eini af spyrlunum þrem sem vann fyrir kaupinu sínu í þeim hlutanum!  Annars var þetta hálfgert teboð.

Auðun Gíslason, 9.5.2007 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband