Borgarstjórn samþykkir að vinna hjólreiðaáætlun

Ég sit nú í dag minn síðasta fund í borgarstjórn Reykjavíkur, en ég hef beðist lausnar þar sem ég hef nú tekið sæti á Alþingi.  Á þessum síðasta fundi mínum lagði ég fram tillögu um að unnin verði sérstök hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.  Skemmst er frá því að segja að tillagan var samþykkt samhljóða og fékk góðar viðtökur allra borgarfulltrúa sem til máls tóku.

Tillagan er þannig:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að unnin verði sérstök hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.  Markmið áætlunarinnar verði að gera hjólreiðar að viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum Reykvíkinga.  Áætlunin taki annars vegar til stefnumótunar um aukið og bætt aðgengi hjólreiðafólks í borginni og hins vegar verði um að ræða framkvæmdaáætlun til nokkurra ára sem geri grein fyrir einstökum verkefnum og fjármögnun.  Yfirstjórn verkefnisins verði í höndum umhverfis- og samgönguráðs og skal að því stefnt að áætlunin verði lögð fyrir borgarstjórn eigi síðar en um mitt ár 2008.

Tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð sem hér fylgir líka:
Samgöngumálin í borginni eru eitt helsta viðfangsefni á sviði umhverfismála.  Umræðan um sjálfbæra þróun hefur ágerst hin síðari ár og hugmyndafræði hennar hefur ratað inn í stefnumótun stjórnvalda, m.a. í Reykjavík og birtist bæði umhverfisstefnu og samgöngustefnu borgarinnar.  Yfirgnæfandi hluti allra ferða innan borgarinnar eru farnar með einkabíl og aðrir samgöngumátar hafa átt erfitt uppdráttar í samkeppninni við hann.  Engu að síður hefur hlutur hjólreiða heldur verið að aukast þótt hann sé enn miklu minni en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.   Hingað til hefur einkum verið litið á hjólreiðar sem góða útivist og heilsusamlega hreyfingu en síður verið litið á reiðhjólið sem samgöngutæki.  Þess vegna hefur verið talið eðlilegt að hjólreiðafólk nýtti sér útivistarstíga til að stunda hjólreiðar.  Það er gott svo langt sem það nær, en í því sambandi verður að hafa hugfast að þeir stígar hafa fremur verið lagðir með hliðsjón af útivistargildi en sem samgönguásar.Í samgöngustefnu Reykjavíkur, sem samþykkt var 2006, segir m.a.: „Til að ná settum markmiðum um að auka hlutdeild hjólreiða verður ríkisvaldið hvatt til þess að breyta vegalögum á þann hátt að auknu fjármagni verði úthlutað til hjólreiðastíga samfara uppbyggingu þjóðvegakerfis, líkt og 17. gr. núgildandi vegalaga kveður á um. Göngustígakerfi og hjólreiðabrautir skulu hannaðar sem samgönguæðar og viðhaldið sem slíkum. Það þarf að bæta aðgengi reiðhjólsins sem samgöngutækis, sér í lagi aðgengi að verslunum og vinnustöðum. Sveitarfélögin á höfuðborgar­svæðinu skulu hvött til að skapa tengingar stígakerfis á sveitarfélagamörkum þannig að aðstaða fyrir vegfarendur verði viðunandi.“Þar segir ennfremur um hjólreiðar og heilsu:„Auka skal fræðslu um mikilvægi hreyfingar og möguleikann á því að tengja saman samgöngumáta og hreyfingu. Borgarbúum skal bent á heilsufarslegan ávinning af hjólreiðum og göngu og gerð skal athugun á því hvernig hægt er að gera íbúðahverfi hjólreiðavænni. Reiðhjólanámskeið skólabarna eru góð leið til að minna þau á hjólin. Starfsmenn borgarinnar geta einnig verið fyrirmyndir á ferðum sínum um borgina. Ástæða er til þess að taka á vandamálum vegna offitu barna og samgöngur geta verið leið til þess. Borgarbúum skal vera unnt að kjósa reiðhjólið sem samgöngutæki eða að ganga til að stuðla að eigin vellíðan. Stefnt skal að því að auka enn fremur öryggi óvarinna vegfarenda í umferðinni en varast ber að fara í aðgerðir sem hamla hreyfanleika þessara vegfarenda um of í þágu öryggis. Nýta skal þau sóknarfæri sem felast í göngu og höfða sérstaklega til foreldra að láta börn sín ganga eða hjóla í skóla. Auka skal hlutdeild hjólandi og gangandi vegfarenda, sér í lagi á styttri ferðum, til að sporna við loftmengun og samtímis bæta heilsu.“Loks segir um hjólreiðar og borgarbrag:„Þar sem reiðhjól eru áberandi í borgarmyndinni skapast hreyfanleiki og er reiðhjólamenning merki umheilsusamlegan lífsstíl. Kostnaður við hjólreiðar er lítill ef hann er borinn saman við rekstur einkabílsins….  Benda skal borgarbúum á reiðhjólið sem mögulegan valkost og minna þá sem eru akandi á hjólreiðafólkið í umferðinni. Ímynd reiðhjólsins sem samgöngutækis skal efld með fræðslu og vitundarvakningu. Komið skal upp hjólagrindum víðs vegar um borgina og stuðlað að jafnræði á milli allra samgöngumáta. Hrinda skal í framkvæmd átaki um miðborgarmenningu með gangandi og hjólandi umferð.“Þannig hefur borgarstjórn nú þegar markað ákveðna meginstefnu og þar birtist eindreginn vilji til þess að auka hlutdeild hjólreiða og tryggja að þær verði viðurkenndur og fullgildur kostur í samgöngumálum Reykvíkinga.  Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að fylgja málum eftir með sérstakri hjólreiðaáætlun fyrir borgina.  Henni er ætlað að skýra frekar stefnumótun um aukið og bætt aðgengi hjólreiðafólks í borginni, hvaða viðmiðanir skuli gilda um gerð hjólreiðastíga, hvar þá skuli leggja, hvernig umferðaröryggi hjólreiðafólks verði best tryggt o.s.frv.  Hins vegar er áætluninni ætlað að vera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára, þar sem gerð er grein fyrir einstökum framkvæmdum og fjármögnun á grundvelli hinnar almennu stefnumótunar.  Með því móti verði tryggt að stefnumörkunin verði ekki einvörðungu gott plagg til tyllidagabrúks, heldur fylgi henni framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjólareiðastígakerfis þar sem einni g komi fram hvaða fjármunir verða lagðir til verkefnisins á hverju ári.  Þannig hefur t.a.m. verið unnið að almennri gatnagerð í borginni, og hið sama má segja um uppbyggingu 30 km hverfa.Hér er lagt til að þetta verkefni verði undir yfirstjórn umhverfis- og samgönguráðs og að áætlunin verði lögð fyrir borgarstjórn fyrir mitt ár 2008.  Í því sambandi getur verið skynsamlegt að ráðið skipi sérstaka verkefnisstjórn, með þátttöku ráðsfulltrúa en einnig með aðild hagsmunaaðila, s.s. samtaka hjólreiðafólks, lögreglu og umferðarráðs og annarra eftir atvikum.Þessa vikuna stendur yfir samgönguvika í Reykjavík sem er hluti af evrópsku verkefni sem um 1300 borgir víðs vegar um Evrópu taka þátt í.  Það er vel við hæfi að einmitt í þeirri viku samþykki borgarstjórn Reykjavík að vinna sérstaka hjólreiðaáætlun.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég þakka þér drengilega framgöngu í þeim málum, sem á borð þitt komu og ég vissi um.

Heiðarleiki og drengskapur, voru í hávegum hjá þér.

 Sem Miðbæjaríhald, vil ég enn þakka þér atfylgi við góð mál á þessum vetvangi.

Og svo mundu það, að við búum í mannheimum, eins og hann Einar minn Oddur sagði svo oft. 

Vonandi nærð þú að viðhalda þessum eiginleikum á hinu háa Alþingi en mundu, að þar eru jafnvel enn fleirri að Hurðabaki en á hinum fyrri vetvangi.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 19.9.2007 kl. 09:33

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Til hamingju með þetta Árni Þór. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 19.9.2007 kl. 14:40

3 Smámynd: Svanur Jóhannesson

Ég tek undir hamingjuóskir þér til handa vegna þessarar samþykktar borgarstjórnar Reykjavíkur. Þú átt hrós skilið fyrir þessa tillögu og eins borgarstjórn fyrir að samþykkja hana.

Þar sem ég á nú heima í Hveragerði veit ég að sumir hér vinna í nágrannabæjum og nota reiðhjól til þess að komast á milli. Suðurlandsvegurinn er nú ekki besti vegurinn til þess að hjóla á í þessari miklu umferð sem er hér orðin.

Þess vegna vil ég benda sérstaklega á þetta í greinargerð þinni: ,,Til að ná settum markmiðum um að auka hlutdeild hjólreiða verður ríkisvaldið hvatt til þess að breyta vegalögum á þann hátt að auknu fjármagni verði úthlutað til hjólreiðastíga samfara uppbyggingu þjóðvegakerfis, líkt og 17. gr. núgildandi vegalaga kveður á um."

Svanur Jóhannesson, 20.9.2007 kl. 20:46

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Tek heilshugar undir sjónarmið allra hér að ofan.

Gangi þér vel á nýjum vettvangi. Drengskapur og heiðarleiki er gott veganesti út á þennan varhugaverða öldusjó en þú Árni ert vel sjóaður í þeim málum.

Bestu kveðjur úr Mosfellsbæ

Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 26.9.2007 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband