Gjaldmiðilsumræða á villigötum

MIKIL umræða um íslensku krónuna, veikleika hennar og stöðu, og um hugsanlega upptöku annars lögeyris hefur nánast tröllriðið samfélaginu nú um nokkurt skeið. Því miður hefur það um of einkennt þá umræðu að óskhyggja ræður málflutningi fremur en rökhyggja. Ákafir stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) finna krónunni allt til foráttu og tala um að við eigum að ganga í Myntbandalagið og taka upp evru, jafnvel einhliða. Á hinn bóginn er þeim málflutningi haldið á lofti af hálfu andstæðinga ESB-aðildar að upptaka evru sé útilokuð fyrir ríki sem stendur utan ESB og vandinn sem blasir við atvinnulífinu sé ekki krónunni að kenna og myndi ekki hverfa við upptöku evru.

Bæði rangt og rétt

Í raun má segja að báðir aðilar hafi nokkuð til síns máls og báðir hafi um leið að hluta til rangt fyrir sér. Ef horft er á gjaldmiðilinn út frá fræðilegu sjónarmiði má vel halda því fram að unnt sé að skipta krónunni út fyrir evru eða annan gjaldmiðil, t.d. bandarískan dollar eða norska krónu, og taka um það einhliða ákvörðun. Á hitt er að líta að þannig einhliða ákvörðun gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér til lengri tíma litið, m.a. vegna þess að evrópski Seðlabankinn myndi ekki styðja við þá ákvörðun og Íslendingar hefðu því engan bakhjarl í peningamálum. Þá þyrftu Íslendingar að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur og vandséð að nokkur myndi vilja taka þátt í þeim viðskiptum með gjaldmiðil sem opinberlega væri á útleið og þar með verðlítill. Þessu til viðbótar hafa leiðtogar allra stjórnmálaflokka tekið að því er virðist afdráttarlausa afstöðu í þessu efni: einhliða upptaka evru er ekki á dagskrá. Fullyrðingar um að það sé unnt að taka upp evru, einhliða eða með inngöngu í Myntbandalagið, án ESB-aðildar eru því einungis til þess að slá ryki í augu fólks og afvegaleiða umræðuna. Tilgangurinn er augljóslega að beina umræðunni að ESB-aðild eftir þessari krókaleið. Tvíeggjað sverð vissulega því um leið er verið að veikja undirstöður íslensks efnahagslífs. Þannig má segja að einhliða upptaka evru sé fræðilega möguleg en hún sé hins vegar í reynd ófær leið.

Skilyrði Evrópusambandsins

Síðan komum við að þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur um stöðu efnahagsmála í aðildarríkjum ESB fyrir upptöku evru. Í fyrsta lagi verða öll ný aðildarríki að taka upp evru um leið og þau uppfylla hin efnahagslegu skilyrði, en þau lúta m.a. að verðbólgu og vaxtastigi, skuldum hins opinbera o.fl. Slök hagstjórn undanfarinna ára á hins vegar ríkan þátt í að hér er verðbólga farin á skrið og vextir gríðarlega háir. Við eigum því langt í land að uppfylla skilyrði um upptöku evru, jafnvel þótt þjóðin ákvæði að ganga í Evrópusambandið sem vitaskuld getur orðið í framtíðinni. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi, af forystumönnum í stjórnmála- og viðskiptalífi, að tala eins og evruupptaka geti verið innan seilingar. Nema tilgangurinn sé einmitt sá að skaða hagsmuni Íslands og þröngva okkur inn í ESB með góðu eða illu, aðallega illu. Hvort þjóðin tekur síðan ákvörðun um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næstu árum er annað mál og sjálfsagt að halda umræðu um það áfram og fordómalaust. Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess hins vegar að tekið sé til í hagstjórninni og stöðugleika komið á, verðbólgunni náð niður og vöxtunum, líkt og vinstri stjórnin gerði í lok níunda áratugarins og byrjun hins tíunda. Áframhaldandi stóriðjustefna er ekki ávísun á árangur í hagstjórninni. Á meðan þurfum við á því að halda að standa vörð um krónuna en tala hana ekki niður og gera eins gott úr þeim ágæta efnivið og við frekast getum. Ábyrgð stjórnenda í fjármála- og viðskiptalífi er vissulega mikil í því efni en einnig og ekki síður stjórnmálamanna, að ekki sé talað um forystumenn í ríkisstjórnarflokkum.

Atvinnuástandið ekki síst mikilvægt

Loks verðum við að hafa í huga að stjórn peningamála er aðeins einn afmarkaður þáttur hagstjórnarinnar. Aðrir þættir, eins og ríkisfjármálin og atvinnustigið, skipta ekki síður miklu máli og við sjáum að í löndum Evrópusambandsins hefur hagvöxtur verið lítill sem enginn og atvinnuleysið mikið. Ekki hefur evran dugað til að vinna á þeim vandamálum og það er ekki eftirsóknarverð fyrirmynd. Á sama tíma má líta til Noregs þar sem ríkir stöðugleiki, hagvöxtur, lítil verðbólga og eðlilegt vaxtastig. Utan ESB og engin evra heldur norsk króna. Veröldin er nefnilega flóknari en svo að hún snúist bara um evru eða krónu eða aðild að ESB eða ekki aðild. Það er alls ekki einboðið hvaða leið er hagstæðust fyrir okkur Íslendinga og fyrir efnahags- og atvinnulífið hér á landi en eins og gjaldmiðilsumræðan hefur verið að undanförnu þá er hún á villigötum. Vonandi tekst að ráða bót á því.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar sl.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband