Tekur ráðherrann ekki rökum?

Einar Guðfinnsson, sá ágæti ráðherra úr norðvesturkjördæmi, skrifar pistil í Fréttablaðið í dag undir heitinu "Tekur fólk ekki rökum?"  Þar býsnast hann yfir því að fólk hér á landi skuli ekki taka sjónarmiðum hans sem og gera þau að sínum, fólk taki einfaldlega ekki rökum og vilji það ekki.  Nú má eins spyrja Einar: tekur ráðherrann ekki rökum?

Enda þótt nokkrar veiddar langreyðar breyti litlu sem engu um stofninn og afkastagetu hans, þá er hitt ekki jafn óumdeilt að við höfum allan rétt þjóðréttarlega okkar megin.  Hvalir eru auðlind sem flakkar á milli landa (eða hafsvæða öllu heldur) og þess vegna getur ein þjóð ekki gert tilkall til að ráða því hvað hún gerir hjá sér.  Það sjá allir hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér ef hver ætlaði bara að gera það sem honum dytti í hug.  Þess vegna eru alþjóðasamningar í gildi á þessu sviði.

Hitt er óumdeilt að hvalveiðarnar hafa enga efnahagslega þýðingu fyrir Ísland en getur hins vegar haft mjög skaðleg áhrif á umfangsmikla efnahags- og atvinnustarfsemi, t.d. í ferðaþjónustu, útflutningsatvinnugreinum o.fl.  Það er engu líkara en Einar ráðherra taki ekkert tillit til þessara sjónarmiða.  Hann hlustar ekki, hann tekur ekki rökum.  Hann vill greinilega taka minni hagsmuni fram yfir meiri.  Kannski vegna þess að hvalveiðiútgerðin skiptir Einar og flokk hans máli í komandi alþingiskosningum.  Og þá er þeim rétt sama um þjóðarhag.

Það er bara þannig minn kæri Einar að það eru skiptar skoðanir um málið hér á landi og ég er t.d. í hópi þeirra sem er algerlega ósammála rökum ráðherrans.  Ekki vegna þess að ég telji stofninn í hættu, ekki vegna þess að ég sé upptekinn af þjóðrembingsrökunum, ekki vegna þess að ég sé af tilfinningaástæðum á móti því að veiða hval (ég er hins vegar alfarið á móti því að við styðjum stríðsrekstur og fjöldamorð á óbreyttum borgurum í Írak - nokkuð sem Einar og Sjálfstæðisflokkurinn studdu!!), heldur vegna þess að ég tel að hvalveiðar nú þjóni ekki heildarhagsmunum lands og þjóðar.  Ég tel þær stríða gegn hagsmunum okkar og að það sé verið að þjóna lund fárra á kostnað heildarinnar.  En það kemur ekki á óvart að sjálfstæðismenn skilji ekki slík sjónarmið eða taki þeim rökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband