Skiptir kyn máli í stjórnmálum?

Umræðan um prófkjör og forval hjá stjórnmálaflokkunum er í algleymingu enda stendur sú vertíð hvað hæst um þessar mundir.  Æ ofan í æ koma upp vangaveltur um kynjahlutföll og hvort unnt sé að ná jafnrétti í þessu sambandi.  Stundum er spurt hvort kyn skipti máli og oftar en ekki er þeirri spurningu svarað með því að segja að það eitt skipti máli að velja "hæfasta" fólkið.

Í mínum huga skiptir kyn að sjálfsögðu máli í stjórnmálum eins og í öðrum þáttum þjóðlífsins.  Það þýðir hins vegar ekki að það eitt skipti máli.  En stjórnmálin eiga að endurspegla samfélagið sjálft og ef við viljum að t.d. þing og sveitarstjórnir séu speglar samtímans þá þurfa kynjahlutföllin að vera jöfn.  Því miður erum við enn langt frá því marki hér á landi.

Eru þá kynjakvótar rétt leið til að ná árangri?  Mitt svar við því er: já.  Meðan hlutföll kynjanna eru jafn skökk og raun ber vitni er nauðsynlegt að viðhafa kynjakvóta til að ná settu marki.  Vitaskuld hlýtur framtíðarsýnin að vera sú að slíkir kvótar séu óþarfir, en við erum einfaldlega ekki komin á þann stað í dag.  Oft er það haft á orði að prófkjörin séu konum óhagstæð.  Ég held að margt sé til í því.  Vissulega er hægt að tína til dæmi um prófkjör þar sem konum hefur vegnað vel, en hitt held ég að sé algengara.  Kynjakvótinn sem gildir í komandi prófkjöri Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu er nauðsynlegt skref til að tryggja jafnan hlut kynjanna.  Sumir telja raunar að ganga hefði átt lengra og láta kvótann aðeins gilda í aðra átt, þ.e. til að tryggja hlut kvenna en ekki karla.  Er þá horft til þess að hlutur kvenna á þingi á vegum stjórnmálaflokkanna almennt sé svo rýr að það væri bara jákvætt að einn flokkur, eins og VG, gengi á undan og tryggði fleiri konum en körlum sæti á þingi.  Ég tel að þessi nálgun sé mjög eðlileg miðað við það hver staðan raunverulega er.  Nú varð það að vísu ekki niðurstaðan hjá okkur í Vinstri grænum að ákveða kvótann með þessum hætti, en það kemur að mínum dómi vel til greina að horfa til þessa þegar kemur að endanlegri uppröðun, enda er prófkjörið leiðbeinandi.  Um það þarf þó að vera full samstaða.

Innan annarra flokka og hjá hinum ýmsu stjórnmálaskýrendum er því oft haldið fram að það sé því miður bara engin leið að tryggja jafnan hlut kynjanna  þegar prófkjörsleiðin er farin.  Þetta er rangt.  Að sjálfsögðu er unnt að tryggja jafnrétti með kynjakvóta eins og við Vinstri græn gerum.  Það er hins vegar spurning hvort aðrir flokkar hafa hugrekki til að ganga jafn langt og við í þessu efni.  Fyrir liggur eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins að karlar eru í 3 efstu sætunum í Suðurkjördæmi og í Reykjavík.  Uppstilling mun tryggja þremur körlum efstu sætin í Norðvesturkjördæmi hjá sama flokki.  Þetta væri óhugsandi hjá Vinstri grænum.  Í því liggur mikill hugarfarsmunur.  Ég skora á aðra stjórnmálaflokka að taka VG til fyrirmyndar og setja á kynjakvóta á framboðslistum og þá fléttulista að okkar hætti.  Það verður einfaldlega að grípa til áhrifaríkra ráða til að ná árangri í kynjajafnréttisbaráttunni.  Hæfasta fólkið er nefnilega að finna meðal beggja kynja og það skiptir nefnilega máli að kynin séu jafnsett í stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband