Þjösnaskapur Evrópusambandsins

VIÐ Íslendingar eigum í stríði við Breta. Og fleiri þjóðir. Það er í raun ekki hægt að lýsa deilum okkar við þá með öðrum hætti. Bresk stjórnvöld ákváðu að beita hryðjuverkalöggjöf á Ísland með þeim afleiðingum að bankakerfið á Íslandi hrundi endanlega. Það var að vísu komið á hnén, ekki síst vegna margvíslegra hagstjórnarmistaka hér innanlands undanfarin ár og þess að bankakerfinu var leyft eftirlitslaust að vaxa þjóðarbúskapnum langt yfir höfuð. Hin alþjóðlega fjármálakreppa hratt af stað atburðarás og átti þannig sinn þátt, en innlendi þátturinn verður ekki undanskilinn og á honum bera íslensk stjórnvöld undanfarinna ára höfuðábyrgð.

 

Eitruð tenging

Nú kemur í ljós að Evrópusambandið, félagsskapur sem margir vilja að Ísland gangi í, beitir okkur sem þjóð ótrúlegum þjösnaskap þegar við erum að reyna að koma samfélaginu á lappirnar á nýjan leik. Það hefur komið á daginn, eins og við þingmenn VG sögðum strax í upphafi, að lánveiting frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði með beinum eða óbeinum hætti tengd því að Ísland féllist á kröfur Breta, Hollendinga og fleiri aðila um uppgjör vegna innistæðureikninga íslenskra banka í þessum löndum. Þessi baneitraða tenging milli umsóknar um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og deilnanna við Breta, Hollendinga o.fl. vegna innlánsreikninganna býður þeirri hættu heim að Ísland verði þvingað pólitískt til að ábyrgjast langtum meira en lagaleg skylda býður. Á fundi þingmannanefndar EES-svæðisins með fulltrúum frá framkvæmdastjórn og ráðherraráði Evrópusambandsins sl. þriðjudag kom fram ítrekað að sum aðildarríki ESB hygðust tengja atkvæði sín í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því að niðurstaða næðist í deilum við Íslendinga. Þessi framganga ESB er að mínu mati ekkert annað en fjárkúgun og lét ég þá skoðun skilmerkilega í ljós á umræddum fundi. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis tók undir þau sjónarmið mín.

 

Bognum en brotnum ekki

Sama dag fór fram fundur fjármálaráðherra ESB-ríkja með starfsfélögum þeirra frá EFTA-ríkjum. Þar mun hafa verið löng og ítarleg umræða um málið þar sem framganga ESB-ríkjanna var ekki síður fantaleg. Í framhaldinu mun hafa verið reynt að þvinga Ísland til að undirrita plagg frá framkvæmdastjórn ESB með gersamlega óaðgengilegum kostum. Það á sem sagt að knésetja íslensku þjóðina til langrar framtíðar í boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og Breta (samstarfsþjóðar okkar á vettvangi NATO) alveg sérstaklega. Ekki er nóg með að Bretar hafi beitt hryðjuverkalöggjöfinni, nú kemur Evrópusambandið nánast eins og það leggur sig og reynir að kúga þjóðina til undirgefni og hlýðni. Það er þjösnaskapur sem mikilvægt er að þjóðin viti um. En við skulum ekki láta kúga okkur. Við Íslendingar kunnum að bogna lítið eitt um sinn en við brotnum ekki. Ef við trúum á okkur sjálf, á auðinn í okkur sjálfum sem þjóð, á landið og gögn þess og gæði, ræktum menningu okkar og tungu, þá höfum við okkur út úr þessum erfiðleikum eins og öðrum sem við höfum ratað í. Í því sambandi er freistandi hugsun að betra sé að sleppa því að taka öll hin erlendu lán. Herða þess í stað sultarólina aðeins fastar um sinn, en eiga í staðinn von í betri og bjartari framtíð fyrir okkur og börnin okkar innan ekki allt of langs tíma. Áratuga þrautaganga með skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins á herðunum, sem mun skerða lífskjör og takmarka möguleika okkar um áratugaskeið, er skelfileg tilhugsun.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 10. nóvember 2008)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Lopapeysur, föðurland, skyr og fisk get ég sætt mig við. En með fullri virðingu gerir þingmaðurinn sér grein fyrir því hvað það kostar að loka á öll viðskipti við útlönd?

Að innflutningur lyfja, bifreiða, tækni- og tölvubúnaðar stöðvist? Torfkofarnir aftur?

Þetta er ekki hægt.

Theódór Norðkvist, 10.11.2008 kl. 17:03

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Takk fyrir þetta.

Ég held því raunar hvergi fram í greininni að loka eigi landinu eins og fram kemur hjá Theódór.  En hættan er sú að IMF-lán til að halda krónunni á floti muni þýða að gjaldeyrir renni úr landi og við sitjum uppi með skuldirnar.  Að þessu þarf að hyggja.

Árni Þór Sigurðsson, 10.11.2008 kl. 17:15

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Landið er lokað ef það fæst enginn gjaldeyrir. Ef aðrar þjóðir neita að eiga í gjaldeyrisviðskiptum við okkur vegna þeirra pappakassa sem eru við völdin.

Theódór Norðkvist, 10.11.2008 kl. 17:17

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Í þeirri stöðu, sem við erum, þá er það greinilega möguleiki,sem hugsa verður fyrir, að við fáum engin lán. Þetta er nöturlegt en eigi að síður eitt af viðfangsefnum dagsins. Við fáum engin lán og við borgum ekkert. Verða settar á okkur viðskiptaþvinganir? Fáum við olíu á skipin? Fáum við varahluti í virkjanirnar og stóriðjuna? Hráefni? Lyf? Matvæli? Munu Norðurlöndin taka þátt í að einangra Ísland? Verður farið með okkur eins og Íraka?

"Lets bomb them back to stoneage" var haft á orði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ekki svitnuðum við þegar þúsundir dóu í Írak á sínum tíma vegna lfyjaskorts.  

Sigurbjörn Sveinsson, 10.11.2008 kl. 17:51

5 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Árni Þór!

Þegar þú talar um þvinganir Evrópusambandsins ertu þá að tala um fulltrúa 2ja aðildarlanda eða að tala um fulltrúa allra aðildarlandanna? - Stór munur þar á. 

Sjálf er ég mjög mótfallinn efnahagsaðstoð frá IMF -

...... en sú hugsum hefur ítrekað leitað á mig, hvort Evrópuþjóðirnar treysti stjórnvöldum hér vegna spillingar?

Gæti það verið að hafa áhrif á lánveitingar og möguleika þjóðarinnar við að leita liðsinnis annarra þjóða - spillingin hér á landi?

Menntamálaráðherra hefur setið beggja megin borðs!  

Stjórnvöld samþykktu skuldsetningu á 14 faldri þjóðarframleiðslu! 

Skuldsetning 14 faldrar þjóðarframleiðslu getur ekki og taktu eftir - getur ekki farið fram hjá neinum, hvað þá ráðherrum ríkisstjórna vestrænna landa.

Svo - annað hvort hafa stjórnvöld verið á kafi í spillingunni eða hreinlega hafa ekki haft getu til að uppfylla þau skilyrði að stýra þjóðfélaginu á sem einfaldastan hátt.

Hvað sem við berjum höfðinu í steininn með Ice-save málið - þá vitum við það öll að þar verður að koma til úrskurður dómstóla.

Ég er þess fullviss að lánsfjárvandræði myndu leysast mun fyrr og farsælar ef skipt yrði um ríkisstjórn og stjórn Seðlabanka Íslands sem og fjármálaeftirlits -

því rétt eins og barnið sér að hér hafa hlutir brugðist eins hrottalega og raunin er - 14 föld þjóðarframleiðsla í skuldir - þá er viðbúið að erlend stjórnvöld hafi nú þegar komið auga á það.

Styð þingmenn VG í þeirri einu raunhæfu aðgerð nú, til að öðlast traust alþjóðasamfélagsins, að vinna að því að koma á utanþingsstjórn ellegar þjóðstjórn svo hægt sé að byrja einhvers staðar.

Mér finnst VG leyfa Sjálfstæðisflokknum að dreifa málum á dreif, með því að taka þátt í þessari umræðu - 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 11.11.2008 kl. 02:24

6 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Vel gert að taka þetta upp hér!  Það virðist enginn af "EURO" elskandi fólkinu átta sig á því að það er í megindráttum Evrópubandalagið sem stendur bak við tregðuna á ví að við Íslendingar fáum lánin sem gera að við eigum að geta rétt út kútnum.

Það er rétt að Evrópubandalagselskendur átti sig á þessu!

Baldur Gautur Baldursson, 11.11.2008 kl. 09:45

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er ágreiningur um það hvort íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á óreiðuskuldum banka í einkaeigu.

Hitt er annað að með því að bæta íslenskum sparifjáreigendum tapað sparifé en skilja hina útundan brutu íslensk stjórnvöld jafnræðisreglu ESB.

Hefðu sparifjáreigendur í Garðabæ samþykkt að þeir fengju ekkert, en Hafnfirðingar sinn sparnað að fullu?

Theódór Norðkvist, 11.11.2008 kl. 15:21

8 Smámynd: Bjarni Þór Hafsteinsson

Við stöndum frammi fyrir mestu ógnun við lýðveldið Ísland síðan það var stofnað. Hvorki ríkisstjórn né alþingi hefur umboð þjóðarinnar til að samþykkja þessa þrælasamninga. Samninga sem fela í sér að við veðsetjum okkur sjálf, fósturjörðina og afkomendur okkar. Og allt þetta vegna fjármálaævintýris örfárra einstaklinga.  Íslensk alþýða samanstendur af vinnusömu, friðsömu og heiðarlegu fólki sem treður ekki illdielur við þjóðir heimsins. Stjórnvöldhafa ekki umboð til að svipta þetta fólk ærunni. Íslenska þjóðin á skilið sanngjarna málsmeðferð við að vinna úr sínum málum hér innanlands og við erlenda granna sína og gera upp fortíðina,Téð kúgun er ekki sanngjörn málsmeðferð. Ríkisstjórn Íslands ásamt stjórnmálaflokkum þessa lands eru upp til hópa gersamlega flækt í spillingarvefi þá sem ríkt hafa hér síðustu ár og eru þarmeð ófær um að leysa þann vanda sem þau hafa komið okkur í. Íslensk alþýða getur ekki goldið fyrir spillinguog óstjórn síðustu ára. Ég tel að ef við ætlum að halda áfram að byggja þetta land sem sjálfstæð og frjáls þjóð þurfi að koma nýtt afl til. Það afl þarf að koma úrröðum fólks sem er hlutlaust af atburðarrás síðust ára, er komið hefur þjóðinni í ógöngur. Sjálfstæðisbarátta Íslands hin síðari þarf að hefjast.      Ég held að ef sjónarmið Íslensku þjóðarinnar, hinar vinnandi alþýðu Íslands væru kynnt útávið væri hægt að snúa atburðarrásinni við, við fengjumsanngjarna málsmeðferð og héldum okkar vegsemd og virðingu og sjálfstæði landsins ásamt því að við gætum endurreyst vinasambönd okkar við erlendarþjóðir.     Baráttukveðjur, Bjarni Hafsteinsson 

Bjarni Þór Hafsteinsson, 17.11.2008 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband