Hvers vegna sögðu Norðmenn NEI?

Frændur okkar Norðmenn hafa tvívegis efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, ESB, (áður Evrópubandalaginu), árin 1972 og 1992. Raunar má rekja samskiptasögu Norðmanna við bandalagið aftur til upphafs sjöunda áratugar en þá var talsverð umræða í Noregi um aðild, en aldrei var þó látið á hana reyna þá, líklega vegna andstöðu innan bandalagsins sjálfs, þótt pólitískar aðstæður í Noregi hafi líka haft sitt að segja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð stóð fyrir málþingi um Ísland og Evrópu þann 10. janúar sl. Var þar margt ágætra erinda og umræða góð og málefnaleg. Frá Noregi kom Dag Seierstad, landsþekktur baráttumaður gegn aðild Noregs að ESB og forystumaður í SV (Sosialistisk Venstreparti), flokks Kristinar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs. Eftir Dag liggur fjöldi greina, bóka og bæklinga, einkum um Evrópumálefni (sumt af því má nálgast á hér eða hér.

Í erindi sínu fjallaði Dag Seierstad um umræðuna í Noregi um ESB-aðild og helstu ástæður þess að Noregur hefur tvívegis hafnað aðild, enda þótt meirihlutinn í stjórnmálalífi, atvinnulífi og fjölmiðlum hafi stutt aðild (það er reyndar sama mynstur og við höfum séð í öðrum löndum þar sem fram hafa farið þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök málefni ESB, t.d á Írlandi, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi).

Það er fróðlegt fyrir okkur að skoða hvaða rök hafa vegið þyngst í Noregi. Ekki vegna þess að aðstæður séu að öllu leyti sambærilegar eða að við Íslendingar metum málin á nákvæmlega sama hátt og Norðmenn. Miklu fremur vegna þess að við eigum þrátt fyrir allt margt sameiginlegt, atvinnulíf hér og í Noregi er miklu sambærilegra heldur en innan Evrópusambandsins að jafnaði, bæði löndin eru aðilar að samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið og hafa þannig sömu stöðu gagnvart ESB, bæði löndin liggja í útjaðri Evrópu og hafa langa strandlengju og eru þannig langtum háðari sjávarútvegi en nokkurt land innan ESB (reyndar má segja að þar sé himinn og haf á milli og ESB er afar háð viðskiptum við þessi tvö lönd með sjávarafurðir). Af þessum og fleiri ástæðum er gagnlegt að skoða reynslu Norðmanna. Helstu ástæður þess að segja nei við aðild að ESB eru m.a. að mati Dags Seierstad:


Ég rek þessi atriði úr erindi Dags Seierstad hér vegna þess að mörg þeirra eiga vel við um aðstæður hér á Íslandi. Ekki öll og sum misvel, en engu að síður er margt sem við eigum sameiginlegt með Norðmönnum hvað varðar sambandið við ESB. Hagstjórnarrökin, rökin um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar og byggðamál eiga vel við, og svo að sjálfsögðu allt sem sagt er um lýðræði og sjálfstæða rödd í alþjóðasamfélaginu.  

Í Noregi fór fram ítarleg umræða um ESB-málin, bæði í kringum atkvæðagreiðsluna 1972 og eins 1992. Þar var ekki hrapað að ákvörðun heldur stóð umræðan og upplýsingaöflun í mörg ár og síðan aðildarviðræður sem skiluðu Norðmönnum einungis 3ja ára aðlögunartíma hvað varðaði sjávarútveginn. Það reyndist þeim óaðgengilegt og eitthvað í þá veru væri okkur enn frekar óaðgengilegt.

Það er mikilvægt að við Íslendingar förum ekki fram úr sjálfum okkur í þessu máli. Við búum að skelfilegri reynslu af því að hafa hlaupið of hratt í kapphlaupinu um að græða mest og eiga mest. Við skulum því anda rólega og takast á við þau viðfangsefni sem eru hvað brýnust nú um stundir. Hitt hleypur ekki frá okkur ef svo skyldi fara að þjóðin vilji að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Og hún á sjálf að taka þá ákvörðun.

 

(Þessi grein birtist á www.mbl.is 21. janúar 2009).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjör snilldarpistill! Ég er horfa á land, Svíþjóð, hrynja félagslega, eftir að aðild þeirra varð veruleiki. Atvinnuleysið leysa þeir með skólum og námskeiðum.

Fimmtugur smiður varð að fara á námskeið hjá dansskóla í staðin fyrir að leita sér að einhverju að gera. Agúrgur máttu ekki vera bognar samkv. reglum ESB Þeir voru mjög harðir áþví.

Influtningur á salmonellu með kjúklingum sem ekki hafði þekkst áður. Norður Svíþjóð sem á voru bændabýli sem voru búnir að ganga í ættliði, lögðust í eyði og Þjóðverjar kaupa landið fyrir sumarbústaði.

Vingjum einn fulltrúa hjá ESB og hann má ekki tala um Ísland né vera málssvari fyrir eigið land. Hann má eingöngu ræða sameiginlega hagsmuni ESB. ESB er afleitur kostur fyrir Ísland og við ættum bara að styrkja samvinnu við Noreg.

Óskar Arnórsson, 22.1.2009 kl. 17:23

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Góður pistill Árni Þór!  Keep up the good work!

Baldur Gautur Baldursson, 22.1.2009 kl. 18:48

3 Smámynd: Elín Sigurðardóttir

Já Svíar eru að lenda í vandræðum núna og fleiri og fleiri leggjast gegn aðild.

Elín Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 21:21

4 Smámynd: Pétur Sig

Ég tel reyndar víst að eftirspurn eftir Íslandi eða hverri annarri gjaldþrota þjóð inn í Evrópusambandið sé stórlega ofmetin. Hvort það er afdalamennska eða hreinlega gamli íslenski hrokinn sem heldur að Evrópusambandð vilji nokkuð með okkur hafa?

Ég veit það bara að vinnan er farin, krónan er farin, verðbólgan er 20%, vextir eru 20%, mjög mörg fyrirtæki eru farin eða að fara á hausinn. Skattar og álögur eru hér háar og við borgum hærra matvælaverð en þekkist víðast hvar á byggðu bóli Jarðarinnar. Ég hef hinsvegar ekki séð eina einustu tillögu frá VG. um hvað þið viljið gera. Það eina sem ég tók eftir hjá Steingrími var að skila láninu frá IMF! Maðurinn hlýtur að vera á sama morgunkorni og Davíð Oddson ef hann heldur að það sé til þess fallið að efla trú á íslenskri hagstjórn og efnahagslífi. Þá fyrst fer allt beinustu leið fjandans til.

Það er endalaust hægt að þræta um Evrópusambandið, ég veit bara af reynslu minni af því að búa þar, að þar er einfaldara að lifa af launum sínum en hér, 3% vextir og verðbólgan sveiflast frá 2-4%. Mér finnst að VG eigi að koma með einhverjar tillögur til úrbóta. Mér finnst ekki vera hættulegt lýðræðinu að láta kjósa um hvort eigi að fara í aðildarviðræður við ESB og svo ef þær samningaviðræður ganga þannig að okkur séu þær hagstæðar, þá láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort lengra verður haldið. Er VG á móti þannig lýðræði? Er VG á móti því að fólk fái að kjósa um mikilvæg mál? 

Pétur Sig, 23.1.2009 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband