Afrek Svandísar

Umræðan um skýrslu REI-hópsins hefur tekið á sig ýmsar myndir að undanförnu.  Efalaust má draga ýmislegt í skýrslunni fram og teygja og toga á ýmsa lund.  Kjarninn í þessu máli öllu saman vill þó á stundum gleymast. 

Hann er sá að það stefndi í það í haust að almannahagsmunir yrðu stórlega fyrir borð bornir, sullað yrði saman hlutverki og markmiðum opinbers veitufyrirtækis annars vegar og hagnaðarsjónarmiðum einkaaðila hins vegar, verðmætum eignum almennings yrði kastað á glæ og brautin rudd fyrir einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur og þar með þeirra mikilvægu almannahagsmuna sem eigendur OR eiga að gæta.  Allt þetta var sannarlega í farvatninu í skugga óheyrilegs flýtis og leyndar sem hvíldi á öllum málatilbúnaði.  Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var aðeins ein rödd sem andæfði.  Það var Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna.  Hún mótmælti einnig lögmæti eigendafundarins og ákvað að sitja hjá við afgreiðslu málsins og með því taka enga afstöðu til máls sem var í raun algerlega vanreifað til að hægt væri að taka til þess afstöðu.  Á hvorn veg sem var.  Og nauðsynlegar upplýsingar skorti einnig. 

Það var ekki fyrr en á síðari stigum að aðrir kusu að hoppa á vagninn og njóta eldanna sem Svandís fyrst kveikti.  Það er út af fyrir sig gott og blessað, en gæta verður allrar sanngirni og minnast þess hvernig málið allt bar að.  Ef Svandís hefði ekki risið til varnar og mótmælt og höfðað mál þá stæðum við nú væntanlega enn með sama meirihlutann og var í byrjun október, sama borgarstjóra og Orkuveituna komna á útsölu til einkaaðila.  Í því ljósi eru veikburða athugasemdir um að Svandís hafi ekki verið nógu „grimm“ í skýrslunni hjóm eitt.  Það var hún sem eigin hendi og óbilandi málafylgju stöðvaði ruglið sem var í uppsiglingu og hún hefur nú landað mikilvægri niðurstöðu um að Orkuveitan og REI verði í 100% opinberri eigu og að ný og breytt vinnubrögð verði innleidd í stjórnmálin.  Og allir flokkar taka undir.  Það er ekki lítið afrek.

 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir mjög góða grein Árni. Það er merkilegt hvað margir eru tilbúnir til að snúa út úr og rangfæra atburðina í REI-málinu. Svandís er sú eina sem stóð uppi og varði hagsmuni fólks þegar allir aðrir klikkuðu. Svo er eitthvert lið að halda öðru fram eins og spurningin á útvarpi Sögu er í dag: "Er Svandís Svavarsdóttir með hreinan skjöld í REI-málinu?" Sem betur fer sjá flestir að Svandís er auðvitað meið hreinan skjöld, nokkuð sem sumir aðrir hafa ekki. Og það fer greinilaga í taugarnar á Arnþrúði Karlsdóttur á Sögu. Hér er þessi könnun á Sögu og spurningarnar þar eru reyndar kafli út af fyrir sig. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 13.2.2008 kl. 09:06

2 identicon

Þegar maður les þessa reglulegu sjálfsstyrkingarpistla ykkar VG manna er nú ekki hægt annað en að brosa góðlátlega út í annað amk.  Því enginn tekur mark á þessum ósköpum - nema ef vera skyldi þið sjálf.  Það vita allir.

Við lesturinn dettur mér nú ævinlega Bush forseti í hug, sem talar um það í tíma og ótíma hve Amerika sé góð, þar sé best að búa og amerikanarir stórkostlegir o.s.frv. 

Hann veit það nefnilega ekki heldur, að þetta virkar ekki.

Skyldi maður þó síst til af öllu ætla að hjá honum finndi forysta VG fyrirmynd sína.  Ja... öðru vísi mér áðurbrá.

En lengi skal manninn reyna.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 10:24

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Segið mér eitt.

Með REI, hvaða náttúruauðlind átti að selja? Var það einhver Íslensk virkjun, hver eða foss?  Hvað var þá að því að selja vinnu frá einu stað til annars?

Fannar frá Rifi, 13.2.2008 kl. 12:42

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Það sem stöðvaði málið var að sexmenningarnir sögðu stopp.  Fólk er löngu hætt að kippa sér upp við það þótt VG segi stopp.  Þeir segja alltaf stopp.

Það sem er hins vegar fyrst og fremst athyglisvert við þessa skýrslu er hvaða atriði vantar í hana.  T.d. er hvergi fundurinn þar sem Svandís, Dagur og Sigrún Elsa settu saman endanlega listann yfir kaupréttarhafana.  Merkilegt nokk þá komst sá fundur ekki inn í skýrsluna.  Kannski það hafi verið "málamiðlun" sem olli því.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 13.2.2008 kl. 22:44

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég get ekki séð nein afrek hjá Svandísi, hún fór mikinn í upphafi og þessi skýrsla starfshópsins var ekkert annað en yfirklór og málamiðlanir og það átti að velta við öllum steinum og fara ofan í kjölinná hvað þarna fór fram.  Og hvað kom svo í ljós sem skipti máli?  Ekkert.  Og hvað gerði Svandís?  Ekkert.  Og það sem virðist alveg gleymast er að Svandís kom þessu máli af stað en hafði ekki "manndóm" í sér til þess að klára það og það stendur eftir af þessu.  Þessa dagana nýtur hún þess að öll spjót standa á Villa svo hún losnar við að svara fyrir sinn þátt. 

Jóhann Elíasson, 14.2.2008 kl. 07:46

6 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Já hefði Svandís ekki gengið fram með þeim hætti sem hún gerði í byrjun október sl. hefði samruni GGE og REI verið samþykktur með einkaréttarsamningum við OR, kaupréttarsamningum og fleira sukki.

Samfylking var búin að samþykkja það. Fór ekki Össur iðnaðarráðherra hamförum og flaug með forkólfum "hins sameinaða félags" til landvinninga í Indónesíu? Ég man ekki betur en hann hafi fagnað manna mest þessari "sameiningu".

Hinir frægu sexmenningar hafa sýnt það að þeir hafa vítt kok og hafa á síðustu dögum mátt kyngja öllu sem að þeim var rétt. Þeir fylgja foringja sínum í gegnum þykkt og þunnt.

Með kveðju,

Valgeir Bjarnason, 14.2.2008 kl. 08:06

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Í grundvallaratriðum er hugsunin á bak við REI ekki svo galin. Aðferðin var hins vegar arfavitlaus og var dæmd til að mistakast eins og félagi Svandís hefur gert eftirminnilegt. Ekki gengur að fá ávextina áður en trjánum hefur verið plantað en allir þessir kaupsamningar báru einkenni að verið væri að skipta kökunni áður en baksturinn hæfist!Íslendingar hafa átt miklu láni að fagna að vera í nábýli við jarðhitann. Í 1000 ár þekktum við enga tækni eða aðferð að nýta okkur þessi gæði uns hugvitsamur bóndi á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, Stefán B. Jónsson frá Dunkárbakka í Dölum, fær þá kostulegu hugmynd að leggja járnpípu um 1100 metra frá svonefndum Tunnuhver sem var vestanvert við Reykjafellið og í íbúðahús sitt. Sú saga er sögð að presturinn á Mosfelli í Mosfellsdal hafi varað Reykjabónda við þessu uppátæki enda ekki von á neinu góðu sem uppruna sinn ætti í því neðra! Sennilega var það fremur ótti klerksins sem var sr. Magnús Þorsteinsson hafi verið tengdur varkárni í fjármálum enda var þjóðin mjög fátæk á þeim tímum. Þetta var það mikla upphaf sem við þekkjum í dag og meira en 90% húsa á Íslandi njóta hitaveitu.Í um 30 ár hefur starfað á Íslandi Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna. Gegnum þetta merka skólastarf eru flestir jarðhitasérfræðingar okkar í mjög nánum tengslum við jarðhitasérfræðinga um allan heim. Við höfum miðlað af þekkingu okkar og reynslu þeim þjóðum sem hafa sent hingað til náms efnilega stúdenta sem numið hafa af okkar fólki.Þessi mikilvægu sambönd þarf að rækta enda er jarðhiti víða mikill og við erum í fremstu framlínu þeirra þjóða sem nýtt hafa jarðhitann, jafnvel háhitasvæði sem eru í eðli sínu stórvarhugaverð en með réttri tækni er unnt að nýta hann engu að síður en lághitann.Íslenska útrásin verður að halda áfram þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bar ekki þá gæfu að halda rétt á spilunum. Starf Svandísar var mjög mikilvægt enda miðast skýrslan sem unnin var að hennar frumkvæði að fara yfir þau grafalvarlegu mistök sem þar voru gerð og koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig.Mig langar til að taka undir þakkir til þín Árni fyrir góðar greinar og að þú ert virkilega virkur á þingi!Gangi þér allt í haginn!Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 15.2.2008 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband