7.1.2009 | 14:27
Lagfæring
5.1.2009 | 20:38
Norskur þingmaður vill að Simon Peres skili friðarverðlaununum
Friðarverðlaun Nóbels er líklega sú viðurkenning í friðarmálum sem nýtur hvað mestrar virðingar. Símon Peres, núverandi forseti Ísraels, hlaut þau árið 1994 ásamt Yasser Arafat og Yitzak Rabin. Nú hefur Peres horfið frá boðskap friðar og ver fjöldamorðin á Gaza. Þetta hefur orðið norskum þingmanni Verkamannaflokksins, Espen Johnsen, tilefni til að krefjast þess að Peres skili verðlaununum. Um þetta er fjallað í Aftenposten (sem vel að merkja er hægrisinnað dagblað):
Sjá hér.
4.1.2009 | 19:37
"Við vöðum í dauða, blóði og limlestingum"
Fjöldamorð Ísraela á Gaza halda áfram af auknum þunga. Lýsingar sjónarvotta eru skelfilegar og vekja hvarvetna viðbjóð og fordæmingu. Allir sanngjarnir menn, burtséð frá afstöðu þeirra til deilunnar að öðru leyti, hljóta að sjá að framferði stjórnar Ísraels er ófyrirgefanlegt og hlýtur að kalla á hörð viðbrögð heimsbyggðarinnar. Norska dagblaðið Aftenposten birtir nú síðdegis lýsingar frá norskum lækni, Mads Gilbert. Óhætt er að kalla sms-skilaboð hans NEYÐARÓP. Þar segir:
De bombet det sentrale grønnsaksmarkedet i Gaza by for to timer siden. 80 skadde, 20 drepte, alt kom hit til Shifa. Hades! Vi vasser i død, blod og amputater. Masse barn. Gravid kvinne. Jeg har aldri opplevd noe så fryktelig. Nå hører vi tanks. Fortell videre, rop det videre. Alt. GJØR NOE! GJØR MER! Vi lever i historieboka nå!
Sjá nánar á www.aftenposten.no
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.1.2009 | 13:11
Hryðjuverkin á Gaza
Það verða kosningar í Ísrael í byrjun febrúar. Stjórnarflokkarnir óttast að þeir missi völdin. Þeir grípa til gamalkunnugra aðferða aðþrengdra stjórnarherra: að fara í stríð til að þjóðin eignist sameiginlegan óvin, annan en stjórnvöld sjálf. Fórnarlömbin eru almenninr palestínskir borgarar, börn og aldraðir, konur og karlar. Ráðamenn í Ísrael skirrast einskis, líf almennra borgara eru einskis metin, völd þeirra sjálfra eru jú í húfi.
Þetta er því miður ekkert einsdæmi. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa staðið um margra áratuga skeið, einstaka vopnahléstímabil inn á milli, en í meginatriðum hafa þessi átök staðið áratugum saman. Og fátt sem bendir til að alþjóðasamfélaginu takist að hlutast til um frið á svæðinu. Ástæðan er fyrst og fremst blindur stuðningur Bandaríkjanna við hryðjuverk Ísraels og fjöldamorð þeirra á saklausum palestínskum borgurum. Lengi vel andstaða þeirra við sjálfstætt palestínskt ríki. Og enn á ný lýsir Bush Bandaríkjaforseti yfir skýlausum stuðningi við Ísrael og ódæðisverk þeirra, enda er hann löngu orðinn þekktur af því að fótum troða mannréttindi. Í því skjóli stunda stjórnvöld í Ísrael hernaðaraðgerðir sínar, aðgerðir sem eru ekkert annað en hryðjuverk. Með stuðningi Bandaríkjanna og annarra sem fylgja Bandaríkjastjórn í blindni í alþjóðamálum.
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins kemur í útvarpsviðtal í dag og segir ekki unnt að fordæma Ísrael. Það gera þó stjórnvöld vítt og breitt um heiminn, m.a. afdráttarlaus fordæming af hálfu ríkisstjórna Noregs og Svíþjóðar. Og utanríkisráðherra Íslands sendir tilkynningu beint inn í sama fréttatíma, bersýnilega í tilefni af hreint ótrúlegu viðtali við menntamálaráðherra, um að hún fordæmi framferði Ísraela á Gaza. Og tekur þar með undir með formanni VG, Steingrími J. Sigfússyni. Nema hvað!
Staðan á Gaza er skelfileg. Stjórnvöld um allan heim fordæma aðgerðir Ísraela en þó eiga þeir hauka í horni þar sem er m.a. Bandaríkjastjórn (og að því er virðist Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi). Þessir aðilar styðja beint eða óbeint fjöldamorðin á palestínsku þjóðinni. Þeim verður að linna og alþjóðasamfélagið getur ekki lengur setið hjá og látið mótmæli í orði duga ein. Nú þarf að bregðast við með miklu meira afgerandi hætti. Það verður að beita ísraelsk stjórnvöld þrýstingu sem þau skilja og finna fyrir. Efnahags- og viðskiptaþvinganir eru nærtækar og einnig að slíta pólitísk tengsl. Slíkar aðgerðir urðu ásamt öðru á sínum tíma til að fella aðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku. Nú verða aðgerðir að fylgja orðum.
Utanríkismálanefnd Alþingis fundar um málið á morgun, mánudag. Þaðan þurfa að koma skýr skilaboð, ég er sannfærður um að það er meirihluti fyrir því á Alþingi að fordæma aðgerðir Ísraelsstjórnar og beita hörku í samskiptum við hana. Ef ekki vill betur, verður að skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir í þjónkun sinni við ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ísraels.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2009 | 11:21
Er of flókið að kjósa?
Margir hafa lýst þeirri skoðun, í umræðunni um Evrópumálin, að eðlilegt sé að viðhafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er átt við að áður en stjórnvöld taka stefnumótandi ákvörðun um að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, eigi þau að leita eftir umboði frá þjóðinni til þess, burtséð frá niðurstöðum viðræðnanna. Nái stjórnvöld síðan samningi við ESB um aðild, yrði slíkur samningur að sjálfsögðu einnig borinn undir þjóðaratkvæði. Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins bættist um áramótin óvænt í hóp þeirra sem vilja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi afstaða fer mjög fyrir brjóstið á Samfylkingarfólki, og yfirleitt þeim sem eru mjög áfram um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varaformaður Samfylkingarinnar segir í Fréttablaðinu m.a. um þessa hugmynd: "Mér finnst miklu skynsamlegra að við förum ekki í þjóðaratkvæði fyrr en við höfum einhvern samning til að kjósa um þannig að staðreyndirnar séu á hreinu. Annars er hætta á að umræðan fyrir kosningarnar verði öfgafull snúist um óraunhæfar væntingar og svartsýnishjal." Þessi sjónarmið hef ég heyrt frá fleirum úr forystu Samfylkingarinnar. T.d. sagði Skúli Helgason framkvæmdastjóri flokksins, þegar við ræddum málin í sjónvarpinu í þætti Björn Inga "Markaðurinn", að við misstum of mikinn tíma með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er athyglisvert að bera þessa afstöðu saman við kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar. Þar segir m.a.: "Í lifandi lýðræði felst að almenningur eigi þátt í töku ákvarðana með virkum hætti. Vinnubrögð og viðhorf þeirra sem starfa í umboði þjóðarinnar þurfa að endurspegla virðingu fyrir lýðræðislegum gildum. Stjórnvaldsathafnir eiga að vera gagnsæjar, studdar málefnalegum rökum og lúta lýðræðislegu eftirliti. Þróa þarf leiðir og setja skýrar reglur um hvernig almenningur getur haft bein áhrif á ákvarðanir sem varða nánasta umhverfi. Samfylkingin vill: Setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá og setja ákvæði lög um framkvæmd atkvæðagreiðslna meðal almennings til að tryggja jafnræði og lýðræðislega umgjörð. " Samkvæmt þessu vill Samfylkingin innleiða atkvæðagreiðslur um mikilsverð mál í ríkari mæli en við Íslendingar höfum nýtt okkur til þessa. En þó ekki um Evrópumálin!
Í mínum huga er holur hljómur í þessum málflutningi. Hugsunin með hinni fyrri atkvæðagreiðslu er einföld. Flestir stjórnmálaflokkar hafa hingað til gengið til kosninga með andstöðu við ESB-aðild í farteskinu og það er sú afstaða sem þjóðin hefur kosið út frá. Það má því halda því fram með sterkum rökum að stjórnmálamenn og -flokkar hafi ekki raunverulegt umboð frá þjóðinni til að fara af stað í ferli sem gæti endað með aðild að ESB. Vafalítið er hægt að halda því fram að Alþingi gæti tekið ákvörðun um að hefja viðræður, en er ekki betra í svo afdrifaríku máli að leita eftir beinu umboði frá þjóðinni? Höfum við ekki tíma fyrir beint lýðræði? Fyrri atkvæðagreiðslan myndi þannig í meginatriðum snúast um það hvort hugmyndafræðin á bak við Evrópusambandið sé eitthvað sem hugnast okkur. Stefna sambandsins í helstu samfélagsmálum, s.s. í auðlindamálum, lýðræðismálum, friðar- og mannréttindamálum, umhverfismálum, utanríkismálum, félags- og velferðarmálum o.s.frv. væri þá undir ef svo má segja, þannig fengist fram almenn afstaða þjóðarinnar til þess, hvort hún vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Verði svarið neikvætt liggur það þá fyrir og það þarf ekki að eyða tíma í viðræður við sambandið um aðild. Ef þjóðin svarar þessari spurningu játandi, myndu stjórnvöld þá fara í aðildarviðræður, með aðild allra stjórnmálaflokka, og niðurstaða slíkra viðræðna yrði síðan einnig borin undir þjóðina. Þá gæfist kostur á að taka endanlega afstöðu til aðildarskilmála, s.s. að því er varðar sjávarútveg, landbúnað o.fl.
Getur verið að það sé of flókið að kjósa? Getur verið að það sé of flókið að viðhafa beint lýðræði á mörgum stigum málsins? Af hverju óttast stuðningsmenn ESB-aðildar þjóðina? Frá mínum bæjardyrum er einmitt mikilvægt að stíga varlega til jarðar, að þjóðin sé ávallt beint og milliliðalaust með í ráðum, að þjóðin eigi ekki bara síðasta orðið eins og það er oft kallað, heldur taki sjálf ákvörðun um það hvort fyrsta skrefið verður stigið. Það er lýðræði.