Samgöngunefnd fjalli um framkvæmd vegalaga

Í gær sendi ég formanni samgöngunefndar Alþingis, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, bréf og fór fram á að nefndin fjallaði um framkvæmd vegalaga og fullyrðingar um að í farvatninu sé að flytja verkefni í vegamálum frá ríki til sveitarfélaga.  Fréttir um það hafa komið sveitarstjórnarfólki mjög á óvart.

Nú hefur formaður nefndarinnar tilkynnt að málið verði tekið til umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar sem verður í næstu viku.  Er full ástæða til að þakka nefndarformanni fyrir skjót viðbrögð við beiðni minni.

Einstakir sveitarstjórnarmenn hafa vaknað upp við vondan draum nú að undanförnu á fundum sínum með Vegagerð ríkisins, en þar hefur komið fram að á grundvelli nýrra vegalaga undirbúi Vegagerðin að flytja ábyrgð tiltekinna þjóðvega í þéttbýli yfir á herðar sveitarfélaganna.  Þetta kemur í opna skjöldu, enda hefur engin umræða farið fram um málið á vettvangi sveitarfélaganna og því síður að samningar hafi verið gerðir milli ríkis og sveitarfélaga um verkefnaflutning, tekjustofna o.s.frv.  Því er nauðsynlegt að samgöngunefnd taki málið til sín og ræði hvort gera þurfi lagabreytingu eða fresta tilteknum ákvæðum vegalaga (sem voru afgreidd í hamaganginum rétt fyrir kosningar) meðan tóm gefst til að skoða málið til hlítar og afleiðingar þess.

Bréfið sem ég sendi formanni samgöngunefndar er svohljóðandi:

Formaður samgöngunefndar Alþingis

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

 Beiðni um umræður í samgöngunefnd um vegalög 

Undirritaður fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í samgöngunefnd óskar hér með eftir því að nefndin taki til umfjöllunar hið fyrsta framkvæmd vegalaga og skilgreiningar og skiptingu þjóðvega í flokka skv. vegalögum.  Mikilvægt er, m.a. í ljósi viðbragða frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, að samgöngunefnd fjalli um hvort vegalögin sem samþykkt voru sl. vor, gefi heimildir fyrir flutningi verkefna og útgjalda frá ríki til sveitarfélaga og hvort nauðsynlegt reynist að gera breytingar á lögunum.

 

Er þess jafnframt óskað að a.m.k. fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu o.fl. verði kallaðir fyrir nefndina til umfjöllunar um málið.

  

Reykjavík, 30. okt. 2007

 

Árni Þór Sigurðsson

 


Kærleikurinn umber ALLT - tækifæri kirkjunnar

Kirkuþing stendur nú yfir.  Samkvæmt fréttum og m.a. því sem haft er eftir biskupi, munu málefni samkynhneigðra verða talsvert til umræðu.  Hin íslenska þjóðkirkja hefur fram að þessu streist á móti því að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband eins og gagnkynhneigt.

Það var fróðlegt málþing haldið í Þjóminjasafninu í gær um þessi málefni og mörg áhugaverð erindi flutt.  Fjarvera biskups og helstu forvígismanna kirkjunnar var æpandi.  En sem betur fer eru starfandi innan þjóðkirkjunnar margir prestar sem láta sig málefni samkynhneigðra varða og vilja að kirkjan sýni kærleik sinn í verki og mæti samkynhneigðu fólki á sama grundvelli og öðrum einstaklingum.  Þeir eiga heiður og hrós skilið fyrir framsýni, réttsýni og kjark.

Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður Vinstri grænna, hefur ásamt þingmönnum úr tveimur öðrum stjórnmálaflokkum, lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir að í landinu gildi ein hjúskaparlög, þar sem hjónaband verði skilgreint sem hjúskapur tveggja einstaklinga (án kyngreiningar).  Í því felst mikil réttarbót en umfram allt snýst það um jafnrétti.  Að tveir einstaklingar geti stofnað til hjónabands ef þeir svo kjósa og það eigi bæði við um hjónaband karls og konu en einnig um hjónaband einstaklinga af sama kyni.

Grundvöllur kristinnar trúar er kærleikurinn.  Þjóðkirkja sem snýr baki við tilteknum hluta þjóðarinnar og treystir sér ekki til að horfa á alla þegna sína jafnt, heldur vill mismuna þeim, getur ekki staðið undir nafni sem þjóðkirkja.  Í fyrra bréfi Páls til Korintumanna standa þau fleygu orð sem ég vísa til í fyrirsögninni um kærleikann: "Hann ... umber allt.  Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi." [1. Kor. 13:7]

Þjóðkirkjan hefur nú tækifæri á yfirstandandi kirkjuþingi til að sýna í verki að hún umberi allt líkt og kærleikurinn.  Mun hún grípa það tækifæri - eða missa það úr höndum sér?


Geysir Green geysist áfram - veruleikafirring?

Útvarpið ræddi við forstjóra Geysis Green Energy í fréttum í kvöld.  Þar kemur fram að forstjórinn telur að skipun stýrihóps um orkumál, framtíð og hlutverk Orkuveitunnar, og síðustu atburði varðandi sameiningu REI og GGE, breyti engu. Atburði sem almenningi í borginni blöskrar og sem felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur.

Er engu líkara en forstjóri GGE hafi enga tilfinningu fyrir þeirri umræðu sem hefur átt sér í samfélaginu eða sé algerlega ónæmur fyrir gagnrýni.  Auðvitað verður forstjórinn að átta sig á því að hinn meinti ólögmæti eigendafundur í REI 3. október gat varla skuldbundið borgarbúa.  Þeir sem áttu hlut að þeim fundi hafa nú flestir viðurkennt að þar hafi ekki verið staðið rétt að málum og það þurfi að endurskoða málin frá grunni.  Ætlar forstjóri GGE að hunsa þau viðhorf?  Starfar forstjórinn á eigin vegum eða í umboði eigenda?  Væri ekki rétt hjá forstjóranum að taka mið af því sem þeir sem fara með stjórn borgarinnar eru að segja?  Eða eru viðbrögð forstjórans enn eitt dæmið um það sem kalla mætti veruleikafirringu stjórnendanna í REI/GGE-málinu?


Hver er launakostnaður yfirstjórnar Ríkisútvarpsins?

Á Alþingi nú í kvöld var lögð fram fyrirspurn mín til menntamálaráðherra um stjórnunarkostnað hjá Ríkisútvarpinu ohf.  Fyrirspurnin er þannig:

1.      Hver er launakostnaður vegna útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins ohf. nú og hver var sambærilegur kostnaður fyrir ári síðan? 
2.      Hver er þóknun formanns og annarra stjórnarmanna í Ríkisútvarpinu ohf. nú og hver var þóknun fulltrúa í útvarpsráði fyrir ári síðan? 
3.      Hver er kostnaður við yfirstjórn Ríkisútvarpsins ohf. og hver var hann fyrir ári síðan? 
4.      Hefur launakostnaður almennra starfsmanna breyst hlutfallslega eins og launakostnaður útvarpsstjóra?

Á þessari stundu er ekki ljóst hvenær ráðherrann mun svara fyrirspurninni en vonandi verður þess ekki langt að bíða.


Tjarnarkvartettinn - til hamingju

TjarnarkvartettinnNýr meirihluti tekur við í borgarstjórn Reykjavíkur á þriðjudag.  Það eru vissulega mikil tíðindi, og góð, að samstaða hafi náðst um nýjan meirihluta sem byggir á félagshyggju, almannahagsmunum, m.a. í orkumálum, lýðræði og umhverfisvernd.  Þessi meirihluti hefur á bak við sig atkvæði rúmlega 57% borgarbúa, meðan fráfarandi meirihluti hlaut aðeins stuðning 49% í síðustu borgarstjórnarkosningum.  Það mátti því draga í efa að þar væri raunverulegur meirihluti á ferðinni.

Við þessi einstæðu tíðindi í borgarstjórn, ganga svikabrigslin á víxl.  Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem hefur verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í 16 mánuði, segir andrúmsloftið innan þess flokks hafa verið óbærilegt og það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að slíta meirihlutasamstarfinu.  Líklega eru ástæður flokkadráttanna í Sjálfstæðisflokknum afar djúpstæðar og teygja sig inn í raðir æðstu forystunnar.  Það vekur vissulega athygli að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið reiðubúinn að standa við bakið á borgarstjóra sínum, heldur fórna honum í raun með opinberum fundahöldum með forystu flokksins, án borgarstjóra.  Þetta eru ekki sannfærandi vinnubrögð og von að Framsóknarflokknum hafi ekki þótt þau á vetur setjandi.

Samstarf félagshyggjufólks í borginni árin 1994-2006 var farsælt.  Þar kom saman fólk úr ýmsum flokkum og óháðir einstaklingar einnig.  Nú tekur við störfum nýr meirihluti á öðrum grunni en grundvallarhugsjónirnar eru eftir sem áður félagshyggjan og almannahagsmunir, velferð, lýðræði og mannréttindi, umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni.  Það eru ánægjuleg tíðindi og vonandi verður boltinn frá Reykjavík látinn rúlla víðar.

Engum blöðum er um það að fletta að framganga Svandísar Svavarsdóttur, oddvita Vinstri grænna í borgarstjórn, hefur skipt sköpum í þeirri atburðarás sem við höfum fylgst með undanfarið.  Hún hefur sýnt og sannað að þar fer sterkur leiðtogi sem talar frá hjartanu og í takt við almenning í borginni.  Pólitísk sannfæring hennar og kjarkur hefur nú skilað nýjum meirihluta í borgarstjórn.  Enginn einn einstaklingur á jafn mikinn þátt í þessum tíðindum og Svandís, þótt vissulega hafi fleiri komið að málum á ýmsum stigum.  Hún hefur áunnið sér traust og virðingu borgarbúa og ég er sannfærður um að í þeim vandasömum störfum sem bíða, mun hún bara vaxa enn frekar.  Henni og samstarfsfólki hennar í borgarstjórn fylgja árnaðar- og baráttukveðjur.


mbl.is Björn Ingi: Það var ekkert annað að gera í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undanhaldið hafið

Ríkisútvarpið hefur greint frá því að stjórn Reykjavík Energy Investment hafi ákveðið að öllum starfsmönnum verði nú gefið færi á að kaupa hlut í fyrirtækinu á sama gengi.  Það er augljóst að kaupréttarsamningarnir sem voru gerðir við fyrirmennin þola ekki dagsljósið og því hefur stjórnin ákveðið að hopa.

Undanhaldið í þessu hneykslismáli er hafið.  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ná ekki upp í nefið á sér og vilja bersýnilega ekki bera ábyrgð á því pólitíska drullumalli sem hér er á ferðinni.  Og Björn Bjarnason leggur þeim lið.  Vafalaust munu helstu fjármálagúrúar landsins telja þetta stærsta viðskiptasamning Íslandssögunnar og þeir sem eru bak við tjöldin fagna sigri - það skyldi aldrei fara svo að það verði Pýrrhosarsigur græðgisaflanna sem vilja komast yfir eignir þjóðarinnar fyrir slikk?

Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna heldur uppi málstað borgarbúa og landsmanna allra í þessu máli.  Hún hefur fengið geysilega mikinn stuðning hvaðanæva að, langt út fyrir raðir síns eigin flokks.  Fólki blöskrar og það setur nú traust sitt á hana.  Hún stendur sannarlega undir því.  Fyrir utan hneykslið með kaupréttarsamningana var fundurinn sem ákvað sameiningu Reykjavik Energy Investment og Geysir Green Energy kolólöglegur og ákvörðun hans um sameiningu þar með einnig.  Og á það verður látið reyna.  Það er ekki hægt að horfa hnípinn upp á fjármagnseigendur í landinu hirða eignir almennings í þágu eigin gróða.  Nú verður spyrnt við fótum!


mbl.is Finnur fyrir mikilli reiði í samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handarbakavinnubrögðin halda áfram

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur boðar til fundar til að sameina Reykjavik Energy Invest, sem er í eigu Orkuveitunnar o.fl. og Geysir Green Energy.  Fundurinn var boðaður með nokkurra klukkustunda fyrirvara þótt skyld sé að boða eigendafund í OR með 7 daga fyrirvara samkvæmt samþykktum. 

Lýðræðisleg vinnubrögð eru að engu höfð, enda liggur þessu liði á að koma sem mestu af samfélagslegum eignum í hendum einkaaðila.  Þeir vilja ekki lýðræðislega umræðu, gefa kjörnum fulltrúum ekki kost á að kynna sér málin.  Þetta eru sömu vinnubrögðin og varðandi breytingu Orkuveitunnar í hlutafélag og söluna á hlut borgarinnar í Landsvirkjun.

Er engu líkara en þeir sem ráða ferðinni í borgarstjórn líti svo á að þetta séu persónulegar eignir þeirra sem þeir geti farið með að vild.  Það er stundum sagt að valdið spilli.  Það hefur tekið ótrúlega stuttan tíma hjá núverandi valdhöfum í Reykjavík að láta það sannast.  Hagsmunir borgarbúa eru að engu hafðir í þágu pólitískra markmiða um einkavæðingu orkuauðlinda.  Mér virðist þetta vera eitthvað það ljótasta sem maður hefur séð í íslenskum stjórnmálum um langa hríð.


mbl.is Bjarni verður stjórnarformaður sameinaðs félags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekist á um stefnuræðu

Í morgun var ég í þættinum Í býtið á Bylgjunni og ræddi um stefnuræðu forsætisráðherra við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.  Það er greinilegt af öllu að frammistaða fulltrúa Vinstri grænna í umræðunni fer eitthvað fyrir brjóstið á stjórnarliðum, enda gefur hún fyrirheit um kröftuga og málefnalega stjórnarandstöðu.  Það er hægt að hlusta á upptöku af þættinum hér.

Vinstri græn styrkja sig við upphaf þings

Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins bendir til þess að við Vinstri græn séum að styrkja stöðu okkar, nú í upphafi þings.  Staða stjórnarflokkanna tveggja er vissulega sterk, en við þær aðstæður er sérlega mikilvægt að stjórnarandstaðan sé öflug og kraftmikil, þótt fámenn sé. 

Stjórnarndstaðan er órjúfanlegur hluti í virku lýðræði og því mikilvægt að vel sé búið að starfsaðstöðu hennar, ekki síst þegar haft er í huga að stjórnarmeirihlutinn hefur 12 ráðuneyti til að vinna fyrir sig, auk þess sem nefndarformenn (sem allir koma úr stjórnarliðinu) hafa ákveðið forskot á aðra þingmenn, þegar kemur að þjónustu þingsins við kjörna fulltrúa.  Ýmsir þingmenn úr núverandi stjórnarflokkum, auk stjórnarandstöðuþingmanna, hafa lýst áhuga á því að jafna aðstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu og vonandi mun forseti Alþingis taka það mál föstum tökum.

  Fylgi flokka

Það er eftirtektarvert að stjórnmálaspekingar sem tjá sig um stöðu stjórnmálanna nú, telja að stjórnin sé svo sterk að hún muni engar áhyggjur þurfa að hafa og stjórnarandstaðan verði ekki til stórræða.  Þetta má lesa bæði út úr viðbrögðum Einars Mar Þórðarsonar, sem tjáir sig um skoðanakönnun Fréttablaðsins, og Svanborgar Sigmarsdóttur sem ritar leiðara þess blaðs í dag.  Með fullri virðingu fyrir þessum ágætu stjórnmálafræðingum (sem ég tel raunar almennt séð vanda að virðingu sinni sem ekki verður sagt um alla kollega þeirra) held ég að þetta séu fljótfærnislegar ályktanir sem þau draga.  Það er að sjálfsögðu ekkert samhengi milli fjölda þingmanna í stjórn og/eða stjórnarandstöðu annars vegar og hins vegar hversu öflugur pólitískur málflutningur verður.  Fullyrðingar Einars Mar um að það andi köldu milli VG og Framsóknar eru gamlar fréttir og eins og stjórnmálafræðingurinn sé enn fastur í kosninganótt.  Vika er nefnilega langur tími í pólitík!  Og að ímynda sér að sífelld upphlaup einstakra stjórnarliða sé merki um sterkt lýðræði eins og leiðarahöfundur gerir er sérkennilegt.  Sannleikurinn er sá að það andar köldu innan stjórnarliðsins sem er líklegt til að grafa heldur undan samstarfsviljanum milli flokkanna.  Og þá getur allt gerst.  Stjórnmálafræðingarnir verða að gera betur í greiningu sinni á stöðunni.

Sú staðreynd að við Vinstri græn erum heldur í sókn, sýnir að áherslur okkar í vor og sumar hafa verið réttar og þær ná eyrum almennings.  Við munum að sjálfsögðu halda áfram á sömu braut, hin pólitísku átök næstu mánuði og misseri munu að líkindum standa um hagstjórnina almennt, auðlindamál (bæði eignarhald og nýtingu, þmt. orkuauðlindanna), heilbrigðismál (þar sem einkavæðingarstefna Sjálfstæðisflokksins verður í hávegum höfð), umhverfismál (m.a. í tengslum við virkjanaáform í Þjórsá), byggðamál (þar sem ríkisstjórnin skilar algerlega auðu enn sem komið er) og áherslur Íslands í alþjóðamálum.  Af miklu fleiru er að sjálfsögðu að taka, en líklega verða helstu átakalínurnar í þessum málaflokkum.  Við Vinstri græn erum reiðubúin til að takast á við hægri sinnaða ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins og munum hvergi draga af okkur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband