Pabbi kvaddur

Útför föður míns, Sigurðar Kr. Árnasonar, fór fram frá Háteigskirkju í dag.  Það var falleg og notaleg stund.  Fjölmargir ættingjar, vinir og samstarfsfólk pabba mætti í kirkju og í erfidrykkju á eftir.  Sr. Pálmi Matthíasson jarðsöng og fórst honum það einkar vel úr hendi og var persónulegur, enda hafði hann þekkt pabba frá því hann var smástrákur á Akureyri.  Tónlistin var líka mjög falleg, Karlakór Reykjavíkur, undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar, skilaði sínu óaðfinnanlega og nutu þeir liðstyrks Marteins H. Friðrikssonar organista og trompetleikaranna Ásgeirs H. Steingrímssonar og Eiríks Arnar Pálssonar.  Framlag þeirra setti sérstakan hátíðarblæ á tónlistarflutninginn.  Þá lék bróðursonur minn, Sindi Már Eydal Friðriksson, fallegt enskt dægurlag, Hinsta kveðja, á píanó af mikilli tilfinningu og frændi minn, Stefán Arngrímsson óperusöngvari, söng Bára blá við undirleik Marteins.  Allt yfirbragð athafnarinnar bar þess merki að við vorum að kveðja mann sem hafði helgað hafinu starfsævi sína, í um hálfa öld.

Fjölskyldan er þakklát öllum þeim sem heiðruðu minningu hans með nærveru sinni í dag, með kveðjum, skrifum eða á annan hátt.

Minningargreinar um pabba má m.a. lesa á mbl.is, http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1177594;minningar=1

 


Skynsemin ræður

Ákvörðun borgarráðs um að ógilda sameiningu REI og GGE er fagnaðarefni.  Með þeirri afstöðu viðurkennir borgarráð að ekki hafi verið staðið rétt að málum og að endurskoða þurfi málið frá grunni.  Sú vegferð, sem Svandís Svavarsdóttir hóf í kjölfar hins margumrædda eigendafundar OR í byrjun október, er að skila áþreifanlegum árangri.  Fyrst féll meirihlutinn í borgarstjórn og nú hefur nýr öflugur meirihluti tekið á málinu af myndarskap.

Borgarráð og einstakir borgarfulltrúar geta verið stoltir af ákvörðun sinni.  Þar ber enginn skarðan hlut frá borði, það er enginn sem tapar.  Skynsemin ræður för og það munu allir standa uppi sem sigurvegarar í kjölfarið.  Burtséð frá því hvaða skoðun einstaklingar kunna að hafa haft í upphafi, þá hefur skoðun málsins leitt í ljós að það var ekki vel undirbúið, lýðræðislegir ferlar voru ekki haldnir og ýmislegt í málinu efnislega orkaði tvímælis.  Það er bara stórmannlegt að þeir sem stóðu að ákvörðunum eigendafundar OR 3. október skuli nú standa einróma að þessari niðurstöðu borgarráðs.

Það er líka ánægjulegt að sjá að í borgarstjórn er nú þverpólitísk samstaða um að setja hagsmuni almennings í fyrirrúm og tryggja aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa að ákvörðunum.  Full ástæða er til að óska stýrihópi Svandísar og borgarráði öllu til hamingju með farsæla niðurstöðu í dag.


mbl.is Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband