Verðskulduð viðurkenning

Félagi minn og vopnasystir úr hinni pólitísku baráttu, Svandís Svavarsdóttir, var kosin maður ársins 2007 af hlustendum Rásar 2.  Það er verðskulduð viðurkenning.  Fátítt er að einstaklingar breyti gangi stjórnmálanna nánast með eigin hendi eins og Svandísi tókst nú á haustmánuðum þegar hún gekk á móti straumnum og til baráttu gegn spillingu og áformum um einkavinavæðingu orkuauðlinda borgarbúa.  Þeirri baráttu lyktaði með fullu sigri heiðarleika og lýðræðis og falli meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eftir 16 mánaða valdasetu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði beðið eftir óþreyjufullur í 12 ár, sprakk hann á limminu og hrökklaðist frá völdum.  Við tók nýr meirihluti félagshyggju og jöfnuðar og verður því ekki á móti mælt að Svandís Svavarsdóttir átti mestan þátt í að búa þann nýja meirihluta til.  Vissulega hefði hún átt að verða borgarstjóri í kjölfarið en í hennar huga skiptu vegtyllurnar ekki máli, heldur pólitíkin og verkefnin.  Það skiptir máli að áherslur Vinstri grænna hafa náð góðum hljómgrunni innan nýs meirihluta og það er með þeim hætti sem Svandís sýnir yfir hvaða pólitískum styrk hún býr.

Ég óska henni hjartanlega til hamingju með þá miklu viðurkenningu sem hún hefur hlotið fyrir elju sína og heiðarleika.  Hún hefur sannarlega unnið fyrir þessari viðurkenningu og meira en það.


mbl.is Svandís maður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega hátíð

Ég óska landsmönnum öllum, nær og fjær, gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.   

Samstarfsfólki mínu, vinum og ættingjum, þakka ég ánægjulega samfylgd á árinu sem er að líða.   

Öllu stuðningsfólki Vinstri grænna færi ég þakkir fyrir óeigingjarnt og árangursríkt starf.


Spurt um Sundabraut, Hvalfjarðargöng og Kjalarnes

Ég hef lagt fram á Alþingi 3 fyrirspurnir til samgönguráðherra um mikilvæg samgöngumál.  Um er að ræða málefni Sundabrautar, Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og Hvalfjarðarganga.  Ágæt frétt er um málið í vefútgáfu blaðsins Skessuhorn.

Það sem mér finnst mikilvægt að fá svör um frá samgönguráðherra um það hvort hann muni beita sér fyrir að tvöföldun Hvalfjarðarganga verði í næstu samgönguáætlun, um það hvaða stefnu ráðherrann hafi um fjármögnun verkefnisins og hvort tryggja eigi jafnt aðgengi allra vegfarenda um göngin eða leggja til upptöku veggjalda? Þá spyr ég einnig ráðherrann hvort hann mun beita sér fyrir því að tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi verði í næstu samgönguáætlun og hvenær megi búast við að framkvæmdir geti hafist við þá mikilvægu samgöngubót. Í þriðja lagi spyr ég ráðherra hvenær megi búast við ákvörðun um endanlega legu Sundabrautar og hvort samgönguráðherra sé sammála mati borgaryfirvalda um að jarðgöng séu ákjósanlegasti valkostur hvað legu brautarinnar áhrærir.

Hér er um að ræða afar þýðingarmikil samgöngumál í borginni og í námunda við hana.  Þau varða ekki síst hagsmuni íbúa höfuðborgarsvæðisins og íbúa Vestur- og Norðurlands.  Því verður fróðlegt að sjá og heyra hverju ráðherra svarar þessum spurningum.  Ekki er þó við því að búast að það verði fyrr en í næsta mánuði.

Spurningarnar má nálgast hér, hér og hér.


Médvédév varð fyrir valinu

Fjórir stjórnmálaflokkar í Rússlandi, þ.á.m. flokkur Pútíns forseta, hafa lýst yfir stuðningi við að Dmítríj Médvédév verði næsti forseti Rússlands.  Pútín má skv. rússnesku stjórnarskránni ekki bjóða sig fram í þriðja sinni.

Í frétt vefútgáfu Prövdu kemur fram að Pútín hafi lýst yfir fullum stuðningi við framboð Médvédévs, en hann er nú annar af tveimur 1. varaforsætisráðherrum Rússlands.  Kollegi hans, sem einnig er 1. varaforsætisráðherra, Sergej Ívanov, hafði af flestum verið talinn líklegri frambjóðandi, en hann er fyrrum varnarmálaráðherra og í hópi "haukanna" í kringum Pútín.  Almennt er talið að Dmítríj Médvédév, sem er 42ja ára lögfræðingur frá Pétursborg, sé hófsamur og líklegri til að eiga góð samskipti við Vesturlönd en Ívanov, og jafnframt líklegri til að vinna að áframhaldandi umbótum í Rússlandi.  Um leið eru margir sem telja að Médvédév sé frekar hálfgert "peð" í höndum Pútíns og því hafi hann ákveðið að veðja fremur á hann.  Um það verður ekki dæmt hér.

Hitt er ljóst, að nú þegar Pútín hefur gefið út hvern hann styðji, þá eru allar líkur á að sá hinn sami verði næsti forseti Rússlands.  Því er full ástæða til að gefa honum gaum og kynna sér feril hans og skoðanir. 


mbl.is Pútín styður Medvedev í forsetakjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða Vinstri grænna afgerandi

Nýjasta skoðanakönnun um fylgi flokkanna sýnir að Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur afgerandi stöðu sem þriðji stærsti flokkur þjóðarinnar og sem forystuflokkur í stjórnarandstöðu.  Það er til marks um að þjóðin ber traust til flokksins og þeirra málefna og sjónarmiða sem hann stendur fyrir í íslenskum stjórnmálum.

Staða Sjálfstæðisflokksins veikist og er það skýrt merki um þau lausatök sem verið hafa á forystu flokksins að undanförnu.  Augljóst er hverjum manni að það eru miklir flokkadrættir í Sjálfstæðisflokknum og afar mismunandi sjónarmið um hvert skal stefna.  Formaður flokksins og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, virðist ekki halda um stjórnartaumana af neinni festu, og andstæðingar hans nýta sér það til fulls.  Það kemur síðan niður á fylgi flokksins.

Athyglisvert er að fylgi Samfylkingarinnar eykst nokkuð en helstu tíðindin úr þeim herbúðum eru jú að flokkurinn er nú kominn í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ásamt okkur Vinstri grænum, Framsókn og F-lista.  Þar hefur oddviti flokksins, Dagur B. Eggertsson, leitt flokkinn til vinstra samstarfs sem bersýnilega hugnast kjósendum vel.  Þá er sérstaklega eftirtektarvert að fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna samanlagt er um 48% og lætur nærri að flokkarnir tveir séu með meirihluta á bak við sig.  Það eru ánægjuleg tíðindi.

Í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem fram fóru á Alþingi í síðustu viku, fannst mér koma fram að mörgum þingmönnum Samfylkingarinnar líður ekkert allt of vel í kompaníi með Sjálfstæðisflokknum.  Í borgarstjórn hrökklaðist meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá völdum eftir 16 mánuði og nýr meirihluti félagshyggju og jöfnuðar tók við.  Það er sem sagt hægt að "dömpa" Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is 78% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband