Þjóðin kjósi um ESB

AÐ undanförnu hefur ágerst umræða í samfélaginu um það hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hrunið í efnahags- og fjármálum og gjaldmiðilsumræðan veldur þar miklu. Eru reyndar sumir þeirrar skoðunar að ESB-aðild myndi lækna öll mein í þeim efnum, sem að mínu viti er barnsleg einföldun. Margir telja raunar að rökin gegn aðild að ESB hafi heldur styrkst að undanförnu. Það er þó ekki viðfangsefni þessarar greinar.

Í hinni almennu umræðu um hugsanlega ESB-aðild Íslands hefur verið á það bent að þjóðin yrði sjálf að taka ákvörðun í því máli, og þar að auki yrði að breyta stjórnarskrá ef af aðild yrði. Um þessar forsendur er vafalítið breið samstaða óháð því hvaða skoðun menn kunna að hafa á aðild að Evrópusambandinu. Í þessu sambandi hafa komið fram sjónarmið um að fyrst verði að ákveða eins konar „vegvísi“, það er að segja aðferðafræði við að leita álits þjóðarinnar og einnig hefur þeirri skoðun verið haldið á lofti að kjósa eigi um aðild samhliða næstu þingkosningum sem ef til vill verða fyrr en síðar.

Í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál á Alþingi í janúar sl. lýsti ég þeirri skoðun minni að ef pólitískur vilji myndi skapast til að sækja um aðild að Evrópusambandinu ætti fyrst að spyrja þjóðina þeirrar grundvallarspurningar hvort hún væri fylgjandi eða andvíg aðild að ESB. Þá því aðeins að svarið við þeirri spurningu yrði jákvætt yrði síðan farið í viðræður og samningsniðurstaða þá einnig borin undir þjóðina í annað sinn. Mér er ljóst að um þetta atriði eru skiptar skoðanir í samfélaginu og vafalaust innan allra stjórnmálaflokka. Flokkarnir búa líka við mjög svo mismunandi hefðir en í VG er t.d. mjög lagt upp úr því að fara með grundvallarumræðu „niður í svörðinn“ ef svo má segja, leita til grasrótarinnar og virkja hana í stefnumótun. Það hefur gefið góða raun og það væri því mjög í anda okkar vinstri grænna að viðhafa einmitt svona vinnubrögð. Fyrir þessu sjónarmiði eru einnig margvísleg mikilvæg rök sem lúta m.a. að lýðræðislegum vinnubrögðum og því að skapa sem minnsta togstreitu og klofning í þjóðfélaginu um þá leið sem farin verður. Við svo afdrifarík skref í sögu þjóðar er einnig mikilvægt að fyrir liggi ljós vilji hennar í upphafi en að stjórnvöld geti ekki stillt þjóðinni upp við vegg í lok ferlis sem er alls óvíst að þjóðin hafi viljað og raunar færi í bága við gildandi stjórnarskrá.

Það getur verið hollt að rifja upp í þessu efni að þjóðin hefur um áratugaskeið verið klofin í afstöðu sinni til utanríkismála. Ákvarðanir stjórnvalda á sínum tíma um aðild að NATO og um herverndarsamninginn við Bandaríkin ollu miklu uppnámi og skiptu þjóðinni í tvær fylkingar. Sumir tala nú um að breytt heimsmynd, brottför hersins og fall múrsins ætti að geta sameinað þjóðina á ný í utanríkismálum. Um það verður ekki rætt sérstaklega hér en á það bent að þjóðinni hefði áreiðanlega farnast betur í þessum efnum ef hún hefði verið spurð á sínum tíma um afstöðuna til NATO annars vegar og bandaríska herliðsins hins vegar. Það hefði orðið meiri sátt um niðurstöðu sem þjóðin hefði sjálf tekið á lýðræðislegan hátt, á hvorn veginn sem það hefði orðið. Hið sama á við um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin verður sjálf að taka þá ákvörðun hvort hún vill ganga inn í það bandalag eða ekki. Við Íslendingar stöndum á krossgötum. Ráðandi öfl í samfélaginu hafa komið þjóðarbúinu í þrot eða því sem næst. Fyrir liggur að þjóðin verður bundin þungum skuldaböggum til margra ára. Það þarf að hefja endurreisn samfélagsins og sú uppbygging þarf að byggja á bjargi en ekki sama sandinum og Sjálfstæðisflokkurinn byggir sína hugmyndafræði og hefur því miður ráðið för allt allt of lengi. Því miður eigum við sem þjóð ekki endilega jafn margra kosta völ nú og við hefðum átt ef ekki hefði komið til efnahagshrunsins. Þá kosti sem við samt eigum verður að skoða gaumgæfilega með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Flokksráð VG ræddi nýlega um þetta mál. Þar samþykkti flokksráðið efnislega tillögu stjórnar flokksins að málsmeðferð, hvað Evrópumálin varðar. Hún gengur út á breiða og lýðræðislega nálgun og umræðu og að þjóðin kjósi um málið.

Þjóðaratkvæðagreiðslu af þessu tagi á ekki að blanda saman við almennar kosningar, hvorki til Alþingis eða sveitarstjórna. Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild á að snúast um það mál eingöngu. Það á að tryggja frjálsum félagasamtökum með og móti ESB-aðild jafna möguleika til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og annast kynningu, ákveða til dæmis atkvæðagreiðsluna með hálfs til eins árs fyrirvara eða svo, og síðan tekur þjóðin sína ákvörðun. Það er sannfæring mín að þetta sé ein lýðræðislegasta aðferðin sem í boði er hvað þetta álitamál áhrærir og að bæði fylgjendur og andstæðingar Evrópusambandsaðildar eigi að geta sameinast um hana. Þannig ætti þjóðin ekki bara síðasta orðið, heldur tæki hún sjálf ákvörðun um það hvort fyrsta skrefið verður stigið eða ekki.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. des. 2008.)


Valdhafarnir eru viti bornir - en það er þjóðin ekki!

Ótrúlegt er að fylgjast með valdhöfum þjóðarinnar, forvígismönnum ríkisstjórnarflokkanna, um þessar mundir.  Þeir umgangast þjóðina eins og hún sé hver annar óþurftarlýður sem skilur ekkert hvað hann býr við góða og göfuga ríkisstjórn.

Formaður Sjálfstæðisflokksins  kannast ekki við að bera nokkra ábyrgð á því ástandi sem við búum nú við.  Hann hefur þó verið ráðherra síðan 1998 eða í 10 ár, lengst af sem fjármálaráðherra, síðan um stundarkorn utanríkisráðherra og svo nú sem forsætisráðherra síðan 2006.  En hann ber enga ábyrgð!  Hvernig geta menn verið svona fullkomnlega lausir við alla sjálfsgagnrýni?  Formaður Samfylkingarinnar segir að fjöldinn sem mætir á borgarafund sé ekki þjóðin og segir síðan í tilefni af slöku gengi ríkisstjórnarinnar í skoðanakönnunum að þjóðin hafi bara ekki áttað sig á því hvað ríkisstjórnin sé að vinna góð verk!  Valdhafarnir eru þeir sem vitið hafa, þjóðin veit ekki hvað hún hefur það gott að  búa við ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar.  Því líkur hroki.

Ráðamönnum kemur ekki til hugar að þjóðin viti hvað hún vill, að hún viti hvað sé henni fyrir bestu!  Ráðamönnum kemur ekki til hugar að þjóðin geti haft rétt fyrir sér, t.d. þegar hún krefst afsagnar stjórnarinnar, afsagnar Seðlabankastjóra og krefst þingkosninga.  Nei, það kemur ráðamönnum ekki í hug.  Þeir eru að moka skafl, en líklega eru þeir á góðri leið með að moka sjálfa sig inn í skaflinn og þar munu þeir sitja fastir og komast ekki spönn frá rassi.  Fyrr en þjóðin hefur kastað þessari ríkisstjórn Geirs, Ingibjargar og Davíðs.


mbl.is Ánægja með stjórnarandstöðu vex
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband