Ný ríkisstjórn - ný von

Það eru sannarlega miklir umbrotatímar í íslensku samfélagi um þessar mundir.  Hrunið efnahags- og fjármálakerfi og hraðvaxandi atvinnuleysi kippa stoðum undan lífsafkomu fjölmargra fjölskyldna í landinu.  Staða þjóðarbúsins er ein sú alvarlegasta sem við höfum þurft að takast á við sem fullvalda þjóð.  Og það er skiljanlegt að það brjótist út reiði og vonleysi í brjóstum þúsunda og tugþúsunda Íslendinga sem hafa mótmælt dáðleysi stjórnvalda.  Reiði yfir því ranglæti að tiltölulega fámennur hópur fólks hafi getað valsað um og skuldbundið þjóðina að henni fornspurðri, reiði út í stjórnvöld sem brugðust þeirri frumskyldu sinni að tryggja öryggi og afkomu þjóðarinnar. 

Við þurfum að rýna inn í okkar eigið sjálf og spyrja okkur fjölmargra grundvallarspurninga.  Hvar brást okkur bogalistin?  Í nýjársprédikun sinni gerði Biskup Íslands græðgina og hrokann að umtalsefni og sagði að öllu virtist vikið til hliðar nema nauðsynjum fjármagnsins, fátt virtist álitið heilagt nema rétturinn að græða.  Þessi hugsunarháttur gegnsýrði því miður svo ótalmarga þætti í samfélaginu.  Það er hárrétt sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði í sjónvarpsviðtali nýlega að hugmyndafræðin sem eftirlitsstofnanir okkar störfuðu samkvæmt var í grundvallaratriðum röng.  Eftirlitsaðilar sem áttu að starfa í þágu almennings í landinu, voru í vitlausu liði. 

Hin fyrirhyggjulausa einkavæðing, þar sem samfélagslegar eigur voru teknar traustataki og látnar lúta taumlausum lögmálum samkeppnis- og markaðshyggju, hefur leikið okkur grátt.  Í nafni frjálshyggjunnar voru miklar skuldbindingar kyrfilega reyrðar á bak almennings í landinu.  En ábyrgðin á óráðsíunni og drambinu – hún var ekki einkavædd.  Hana berum við sameiginlega og undan henni verður ekki vikist. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forystu í landsstjórninni undanfarin 18 ár.  Hugmyndafræðin sem stefna hans byggir á skilur heimilin og atvinnulífið í landinu eftir í miklum kröggum.  Stoðir þeirrar stefnu, sem svo mjög hefur verið mærð og talin ábyrg efnahagsstjórn, reyndust fúnar og feysknar.  Nú þegar Sjálfstæðisflokkinn hefur þrotið örendið við stjórnvölinn, þarf að tryggja að uppbygging samfélagsins helgist af öðrum gildum og annarri lífssýn. 

Kosningar til Alþingis fara fram innan fárra vikna.  Ríkisstjórnin hefur því ekki langan tíma til að hrinda í framkvæmd þeim fjölþættu ráðstöfunum sem eru svo brýnar til að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik og forða heimilum og fjölskyldum frá efnahagslegri ánauð.  Vitaskuld verðum við að vera raunsæ og horfast í augu við þá erfiðleika sem við blasa og að það verður ekki allt gert á vikunum fram til kosninga.   

En við skulum samt vera bjartsýn.  Það býr mikil elja í íslenskri þjóð og við eigum dýrmætt land sem okkur þykir öllum vænt um.  Við erum rík að auðlindum til sjós og lands, og ekki síst er mikill auður í náttúrunni sem slíkri og fólkinu sjálfu. Vinstri græn hafa á undanförnum mánuðum og misserum talað fyrir breyttri stjórnarstefnu og bent á hætturnar sem fólust í gegndarlausri neyslu sem mestmegnis var tekin að láni, og þeirri ofþenslu sem efnahagslífið var keyrt í undir gunnfána græðgisvæðingar frjálshyggjunnar.  Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mun nú einhenda sér í það verk að reisa landið úr pólitískum rústum frjálshyggjunnar.  Við vitum að það er ekki létt verk og engar töfralausnir eru til.  En með samhentu átaki og með þjóðina að baki okkur, erum við sannfærð um að það mun takast að reisa Ísland við.  Að endurheimta traust og trúnað inná við og út á við. 

Góðir Íslendingar.Vonina og bjartsýnina eigum við saman.  Við viljum geta sagt stolt við börnin okkar og barnabörn: þetta samfélag höfum við mótað, sjálfbært samfélag réttlætis, jöfnuðar og samvinnu.  Þeirri ábyrgð og því trausti skulum við ekki bregðast.

Góðar stundir.

(Ræða í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 4. feb. 2009)

Sunnudagur til sigurs!

Í gær, sunnudag, á 105 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar, tók við völdum ný ríkisstjórn á Íslandi.  Stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það eru mörg tímamót sem tengjast myndun þessarar ríkisstjórnar og hún er söguleg fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta skipti er kona skipuð forsætisráðherra hér á landi.  Ríkisstjórnin er skipuð jafn mörgum konum og körlum en það hefur ekki áður gerst hér.  Vinstrihreyfingin - grænt framboð sest nú í ríkisstjórn í fyrsta skipti en flokkurinn fagnar 10 ára afmæli sínu um næstu helgi.

Með myndun þessarar ríkisstjórnar fer Sjálfstæðisflokkurinn frá völdum, sest í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn í 18 ár.  Nærfellt tveggja áratuga stjórnarsetu hans og nýfrjálshyggjunnar er lokið.  Það mátti sannarlega ekki dragast eitt augnablik, eftir að sú stefna hafði kollsiglt íslenskt efnahagslíf.  Það segir sína sögu að aðeins 1 af 25 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur setið í stjórnarandstöðu, en það er Geir Haarde.  Nú er einfaldlega kominn tími til að önnur gildi og grundvallarsjónarmið ráði för við stjórn þjóðmálanna.  Hvort sem litið er til efnahags- og atvinnulífsins, lýðræðis og stjórnskipunar, velferðar- eða menntamála eða hvaða annarra þátta þjóðlífsins.

Stjórnarflokkarnir ásamt Framsóknarflokknum leggja til að kosið verði til Alþingis 25. apríl nk.  Stjórnin hefur því ekki langan tíma til að sýna hvers hún er megnug.  Vissulega eru miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar og það er vel, en um leið verðum við að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir að á um 80 dögum verða ekki nein kraftaverk unnin.  Þjóðin biður heldur ekki um það.  En það sem þjóðin þarf á að halda er trúnaður og traust milli hennar og stjórnvalda.  Það verður því ekki lítill hluti af starfi ríkisstjórnarinnar að endurvekja það traust sem fyrri stjórn var með öllu rúin.  Þá skiptir mestu máli að verkin tali.

Brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs í landinu munu fljótlega líta dagsins ljós.  Endurskipulagning stjórnkerfis, ekki síst banka- og eftirlitsmála, ný stjórn í Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, endurskoðun stjórnarskrár og ný löggjöf um stjórnlagaþing skipta hér veigamiklu máli.  Ekki síður áform stjórnarinnar um samtal við þjóðina, reglubundna upplýsingagjöf og heiðarleg og hreinskiptin samskipti.  Þjóðin verður að vita undanbragðalaust hver staða þjóðarbúsins er.

Nýrri ríkisstjórn fylgja bestu heillaóskir - hún boðar vonandi upphaf nýrra tíma í íslensku samfélagi og vekur von um að okkur takist í sameiningu að vinna okkur út úr þeirri erfiði stöðu sem við höfum ratað í.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband