Bakdyramegin inn í Stjórnarráðið?

ÞAÐ hefur vakið athygli mína og margra annarra að ýmis ráðuneyti hafa að undanförnu breytt skipulagi sínu á þann veg að sett hafa verið á laggirnar sérstök "svið" sem eins konar millistig milli ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé verið að fara einhverja bakdyraleið inn í Stjórnarráðið með ný störf og kostnaðarauka.

Af þessum sökum hef ég lagt fram á Alþingi fyrirspurn til forsætisráðherra um skipulagsbreytingar innan Stjórnarráðsins og eru spurningarnar eftirfarandi: 

1.      Hversu mörg svið hafa verið sett á stofn í einstökum ráðuneytum undanfarin fimm ár?
2.      Í hve mörgum tilfellum hafa ný svið verið viðbót í innra skipulagi ráðuneytanna og í hve mörgum tilfellum hafa skrifstofur verið lagðar niður í staðinn?
3.      Á grundvelli hvaða lagaheimilda hafa svið ráðuneytanna verið sett á stofn og sviðsstjórar skipaðir?
4.      Eru sviðsstjórar að mati ráðherra embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins?
5.      Hver er kostnaður ríkissjóðs vegna framangreindra skipulagsbreytinga undanfarin fimm ár

Ég hef beðið um skriflegt svar við fyrirspurninni og verður fróðlegt að sjá hvað þar verður reitt fram.


Gjaldmiðilsumræða á villigötum

MIKIL umræða um íslensku krónuna, veikleika hennar og stöðu, og um hugsanlega upptöku annars lögeyris hefur nánast tröllriðið samfélaginu nú um nokkurt skeið. Því miður hefur það um of einkennt þá umræðu að óskhyggja ræður málflutningi fremur en rökhyggja. Ákafir stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) finna krónunni allt til foráttu og tala um að við eigum að ganga í Myntbandalagið og taka upp evru, jafnvel einhliða. Á hinn bóginn er þeim málflutningi haldið á lofti af hálfu andstæðinga ESB-aðildar að upptaka evru sé útilokuð fyrir ríki sem stendur utan ESB og vandinn sem blasir við atvinnulífinu sé ekki krónunni að kenna og myndi ekki hverfa við upptöku evru.

Bæði rangt og rétt

Í raun má segja að báðir aðilar hafi nokkuð til síns máls og báðir hafi um leið að hluta til rangt fyrir sér. Ef horft er á gjaldmiðilinn út frá fræðilegu sjónarmiði má vel halda því fram að unnt sé að skipta krónunni út fyrir evru eða annan gjaldmiðil, t.d. bandarískan dollar eða norska krónu, og taka um það einhliða ákvörðun. Á hitt er að líta að þannig einhliða ákvörðun gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér til lengri tíma litið, m.a. vegna þess að evrópski Seðlabankinn myndi ekki styðja við þá ákvörðun og Íslendingar hefðu því engan bakhjarl í peningamálum. Þá þyrftu Íslendingar að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur og vandséð að nokkur myndi vilja taka þátt í þeim viðskiptum með gjaldmiðil sem opinberlega væri á útleið og þar með verðlítill. Þessu til viðbótar hafa leiðtogar allra stjórnmálaflokka tekið að því er virðist afdráttarlausa afstöðu í þessu efni: einhliða upptaka evru er ekki á dagskrá. Fullyrðingar um að það sé unnt að taka upp evru, einhliða eða með inngöngu í Myntbandalagið, án ESB-aðildar eru því einungis til þess að slá ryki í augu fólks og afvegaleiða umræðuna. Tilgangurinn er augljóslega að beina umræðunni að ESB-aðild eftir þessari krókaleið. Tvíeggjað sverð vissulega því um leið er verið að veikja undirstöður íslensks efnahagslífs. Þannig má segja að einhliða upptaka evru sé fræðilega möguleg en hún sé hins vegar í reynd ófær leið.

Skilyrði Evrópusambandsins

Síðan komum við að þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur um stöðu efnahagsmála í aðildarríkjum ESB fyrir upptöku evru. Í fyrsta lagi verða öll ný aðildarríki að taka upp evru um leið og þau uppfylla hin efnahagslegu skilyrði, en þau lúta m.a. að verðbólgu og vaxtastigi, skuldum hins opinbera o.fl. Slök hagstjórn undanfarinna ára á hins vegar ríkan þátt í að hér er verðbólga farin á skrið og vextir gríðarlega háir. Við eigum því langt í land að uppfylla skilyrði um upptöku evru, jafnvel þótt þjóðin ákvæði að ganga í Evrópusambandið sem vitaskuld getur orðið í framtíðinni. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi, af forystumönnum í stjórnmála- og viðskiptalífi, að tala eins og evruupptaka geti verið innan seilingar. Nema tilgangurinn sé einmitt sá að skaða hagsmuni Íslands og þröngva okkur inn í ESB með góðu eða illu, aðallega illu. Hvort þjóðin tekur síðan ákvörðun um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næstu árum er annað mál og sjálfsagt að halda umræðu um það áfram og fordómalaust. Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess hins vegar að tekið sé til í hagstjórninni og stöðugleika komið á, verðbólgunni náð niður og vöxtunum, líkt og vinstri stjórnin gerði í lok níunda áratugarins og byrjun hins tíunda. Áframhaldandi stóriðjustefna er ekki ávísun á árangur í hagstjórninni. Á meðan þurfum við á því að halda að standa vörð um krónuna en tala hana ekki niður og gera eins gott úr þeim ágæta efnivið og við frekast getum. Ábyrgð stjórnenda í fjármála- og viðskiptalífi er vissulega mikil í því efni en einnig og ekki síður stjórnmálamanna, að ekki sé talað um forystumenn í ríkisstjórnarflokkum.

Atvinnuástandið ekki síst mikilvægt

Loks verðum við að hafa í huga að stjórn peningamála er aðeins einn afmarkaður þáttur hagstjórnarinnar. Aðrir þættir, eins og ríkisfjármálin og atvinnustigið, skipta ekki síður miklu máli og við sjáum að í löndum Evrópusambandsins hefur hagvöxtur verið lítill sem enginn og atvinnuleysið mikið. Ekki hefur evran dugað til að vinna á þeim vandamálum og það er ekki eftirsóknarverð fyrirmynd. Á sama tíma má líta til Noregs þar sem ríkir stöðugleiki, hagvöxtur, lítil verðbólga og eðlilegt vaxtastig. Utan ESB og engin evra heldur norsk króna. Veröldin er nefnilega flóknari en svo að hún snúist bara um evru eða krónu eða aðild að ESB eða ekki aðild. Það er alls ekki einboðið hvaða leið er hagstæðust fyrir okkur Íslendinga og fyrir efnahags- og atvinnulífið hér á landi en eins og gjaldmiðilsumræðan hefur verið að undanförnu þá er hún á villigötum. Vonandi tekst að ráða bót á því.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar sl.)


Hvers vegna hefur Ingibjörg Sólrún allt á hornum sér?

Í dag (þriðjudag)  fór fram stutt umræða um nýgerða kjarasamninga á Alþingi. Forsætisráðherra gerði þinginu grein fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á næstu árum, m.a. í skatta- og velferðarmálum. Af hálfu okkar þingmanna og forystumanna Vinstri grænna hefur komið skýrt fram að sú hugmyndafræði sem samningurinn byggir á sé jákvæð og rétt og við styðjum hana. Um leið höfum við bent á þá augljósu staðreynd að lægstu launin hér á landi eru langt undir framfærslu- og fátæktarmörkum og að afar hægt miðar í þá átt að allir búi við mannsæmandi kjör. 

Að okkar mati hefði framlag ríkisvaldsins átt að vera í þá átt að lyfta kjörum þeirra sem helst þurfa á því að halda enn frekar en kjarasamningarnir gera.  Skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin boðar lúta annars vegar að því að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18 í 15% frá og með tekjuárinu 2008 og hins vegar að persónuafsláttur hækki um 7000 kr. umfram verðlagsbreytingar á þremur árum, fyrst árið 2009. Þar sem hækkun persónuafsláttarins gengur upp allan tekjuskalann munu umtalsverðar upphæðir fara úr ríkissjóði til þeirra sem hafa háar og jafnvel mjög háar tekjur. Þær fjárhæðir hefðu betur verið komnar sem viðbótarframlög til þeirra sem enn eru undir framfærslumörkum.  Það er leið jöfnuðar sem við í VG hefðum viljað fara.

Ríkisstjórnin hafði hafnað þeirri leið sem verkalýðshreyfingin vildi fara að koma á sérstökum persónuafslætti til tekjulágra hópa. Það hefði verið jafnaðarstefna í verki.  En þess í stað er það skattastefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur orðið ofan á hjá ríkisstjórninni, skattastefna sem ekki er til þess fallin að auka jöfnuð líkt og hægt hefði verið að gera.  Á þetta hljótum við að benda.

Þá bregður svo við að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur allt á hornum sér og leggur sérstaka lykkju á leið sína til að ausa okkur Vinstri græn skömmum, aðallega fyrir að benda á þessi atriði. Henni mislíkar greinilega að við skulum ekki bera lof á ríkisstjórnina fyrir framlag hennar, rétt eins og það verði ekki nógir um það í röðum þingmanna! Vill formaður Samfylkingarinnar ekki að menn segi kost og löst á því sem gert er? Ingibjörg Sólrún verður að una því að það er stjórnarandstaða í landinu og að hún mun að sjálfsögðu halda því til haga sem betur má fara, að ekki sé talað um þegar hún telur að ekki sé farið rétt að málum. Formaður Samfylkingarinnar þarf ekki að taka það persónulega og bregðast við eins og svo sé. Þetta snýst um pólitík og stefnumál og við í VG teljum að í þessu efni (eins og því miður í alltof mörgum öðrum málum) hafi Samfylkingin látið undan frjálshyggju- og misskiptingarstefnu Sjálfstæðisflokksins.  Og við kunnum því illa. Nema hvað?


Lestarsamgöngur verði skoðaðar

Ég hef ásamt ellefu öðrum þingmönnum úr öllum flokkum hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

 

Tillagan gerir ráð fyrir að samgönguráðherra verði falið að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar annars vegar og svokölluðu léttlestakerfi innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar.  Í tillögunni segir ennfremur að kannaðir skuli kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Sjónum á einkum að beina að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum,

umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Gert er ráð fyrir að leitað verði til sérfræðinga innan lands og utan og að niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir í árslok 2008.

 

 Tillögunni fylgir ítarleg greinargerð og má nálgast hana á vef Alþingis 

Afrek Svandísar

Umræðan um skýrslu REI-hópsins hefur tekið á sig ýmsar myndir að undanförnu.  Efalaust má draga ýmislegt í skýrslunni fram og teygja og toga á ýmsa lund.  Kjarninn í þessu máli öllu saman vill þó á stundum gleymast. 

Hann er sá að það stefndi í það í haust að almannahagsmunir yrðu stórlega fyrir borð bornir, sullað yrði saman hlutverki og markmiðum opinbers veitufyrirtækis annars vegar og hagnaðarsjónarmiðum einkaaðila hins vegar, verðmætum eignum almennings yrði kastað á glæ og brautin rudd fyrir einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur og þar með þeirra mikilvægu almannahagsmuna sem eigendur OR eiga að gæta.  Allt þetta var sannarlega í farvatninu í skugga óheyrilegs flýtis og leyndar sem hvíldi á öllum málatilbúnaði.  Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var aðeins ein rödd sem andæfði.  Það var Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna.  Hún mótmælti einnig lögmæti eigendafundarins og ákvað að sitja hjá við afgreiðslu málsins og með því taka enga afstöðu til máls sem var í raun algerlega vanreifað til að hægt væri að taka til þess afstöðu.  Á hvorn veg sem var.  Og nauðsynlegar upplýsingar skorti einnig. 

Það var ekki fyrr en á síðari stigum að aðrir kusu að hoppa á vagninn og njóta eldanna sem Svandís fyrst kveikti.  Það er út af fyrir sig gott og blessað, en gæta verður allrar sanngirni og minnast þess hvernig málið allt bar að.  Ef Svandís hefði ekki risið til varnar og mótmælt og höfðað mál þá stæðum við nú væntanlega enn með sama meirihlutann og var í byrjun október, sama borgarstjóra og Orkuveituna komna á útsölu til einkaaðila.  Í því ljósi eru veikburða athugasemdir um að Svandís hafi ekki verið nógu „grimm“ í skýrslunni hjóm eitt.  Það var hún sem eigin hendi og óbilandi málafylgju stöðvaði ruglið sem var í uppsiglingu og hún hefur nú landað mikilvægri niðurstöðu um að Orkuveitan og REI verði í 100% opinberri eigu og að ný og breytt vinnubrögð verði innleidd í stjórnmálin.  Og allir flokkar taka undir.  Það er ekki lítið afrek.

 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2008)


Óskemmtileg lífsreynsla

Heldur var hún óskemmtileg lífsreynslan sem við fjölskyldan urðum fyrir á laugardag þegar við vorum á leið í Borgarfjörðinn.  Þar komum við að umferðarslysi þar sem fólksbíll hafði oltið út fyrir veg og var á hvolfi og 2-3 aðrir bílar höfðu staðnæmst út við vegarkant til að huga að slösuðum.  Aðeins hægðum við ferðina til að sjá hvort þörf væri á aðstoð og skipti þá engum togum að stór pick-up bill skall af miklum krafti aftan á okkur.  Bill sem kom þar á eftir forðaði sér út af og lenti í snjóskafli og varð það honum til happs.  Ekki urðu alvarleg slys á fólki en þó eru eymsli í baki og hálsi að hrjá mannskapinn.  Bíllinn er mikið skemmdur og var hann fluttur af vettvangi á vörubíl en lögreglan flutti okkur á heilsugæslustöðina í Borgarnesi.  Gistum á hótel Hamri rétt við Borgarnes og komum svo heim í gær, reynslunni ríkari.


Hver er maðurinn - úti í bæ?

REI-málið er að verða að einum allsherjar farsa.  Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að hann hafi ráðfært sig við borgarlögmaður en hann tali náttúrulega ekki við "lögfræðinga úti í bæ" eins og hann komst að orði í Kastljósi í gær. 

Í dag kemur yfirlýsing frá oddvitanum um að hann hafi átt við "fyrrverandi" borgarlögmann.  Og hver skyldi það vera?  Verður ekki að upplýsa um það?  Mér segir svo hugur um að hér sé átt við Hjörleif B. Kvaran, sem var borgarlögmaður til ársins 2003.  Varla hélt oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi í gær að hann væri enn borgarlögmaður, 5 árum eftir að hann hætti?  

Sé tilgáta mín rétt, að oddvitinn hafi leitað til Hjörleifs B. Kvaran í október sl., þá vill svo til að sami Hjörleifur var og er starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og var væntanlega helsti lögfræðilegur ráðgjafi oddvita Sjálfstæðisflokksins og þáverandi borgarstjóra á hinum umdeilda og örlagaríka eigendafundi í Orkuveitunni í október.   

Allur er þessi farsi orðinn grátlegur og hann getur bara endað á einn veg. 


mbl.is Yfirlýsing frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin viðurkenna ómannúðlegar pyntingar

Yfirmaður CIA, bandarísku leyniþjónustunnar hefur viðurkennt að Bandaríkin hafi notað ómannúðlegar aðferðir við að knýja fram játningar hjá meintum hryðjuverkamönnum.  Aðferðir sem eru skýlaust brot á alþjóðasamningum. Þær aðferðir sem Bandaríkjamenn hafa viðhaft í fangabúðunum í Guantanamo eru algerlega óréttlætanlegar. Ekki eru nema 2-3 vikur síðan dómsmálaráðherra Bandaríkjanna þvertók fyrir, í bréfi til Bandaríkjaþings, að slíkar pyntingar væru stundaðar.

Það hlýtur að vekja upp spurninguna um það hvort yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda séu yfirleitt trúverðugar, hvort það sé yfirleitt hægt að reiða sig á þau svör sem stjórnvöld gefa meðal annars fyrir bandaríska þinginu.  Þannig má segja að jafnvel þótt því sé haldið fram núna að þessar aðferðir hafi ekki verið notaðar undanfarin fimm ár og aðeins á þremur föngum þá er full ástæðu til að tortryggja þær yfirlýsingar þegar það liggur fyrir að að dómsmálaráðherra Bandaríkjanna sagði þinginu ósatt fyrir örfáum vikum síðan um þetta sama mál.

Bandaríkin eru því miður ótrúverðug sem brjóstvörn lýðræðis og mannréttinda sem þau þó telja sig vera og hafa um langt skeið verið fyrirmynd margra, ekki bara um hinn vestræna heim heldur annars staðar einnig. Ísland vill vera í fararbroddi í mannréttindamálum og baráttan fyrir mannréttindum og lýðræði er einmitt eitt af meginmarkmiðum Íslands í framboði þess til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.  Alþingi Íslendinga á því að láta þessi mál til sín taka með því að utanríkismálanefnd Alþingis ljúki umfjöllun um þingsályktunartillögu okkar Vinstri grænna um að fordæma mannréttindabrot í Guantanamo og sem þingmenn allra flokka hafa lýst stuðningi við.  s

En ég hlýt líka að velta því upp hvort utanríkisráðherra eigi ekki að kalla sendiherra Bandaríkjanna hér á landi á sinn fund og mótmæla þessu framferði og lýsa vanþóknun Íslendinga á framferði Bandaríkjanna.


Fagleg vinnubrögð innleidd við skipun í opinber embætti

Ég hef, ásamt fjórum öðrum þingmönnum, lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að forsætisráðherra skipi nefnd með þátttöku allra þingflokka er hafi það verkefni að móta reglur og eftir atvikum semja frumvarp til laga um verkferla og meðferð og þýðingu faglegs hæfnismats við skipan í opinber embætti.

Tilefni þessarar tillögu blasir við.  Umræðan um stöðuveitingar einstakra ráðherra að undanförnu kallar á að faglegri vinnubrögð verði innleidd við opinberar stöðuveitingar.  Í tillögunni er talað almennt um opinber embætti en sérstök áhersla þó lögð á dómarastöður enda eru þær sérstaklega mikilvægar í þessu sambandi þar sem dómsvaldið er ein af grunnstoðum þrískiptingar ríkisvaldsins.

Í einni af fjölmörgum umræðum um málið á Alþingi sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra m.a. í andsvari við mig: "Það er auðvitað sjálfsagt að hafa jafnan til athugunar hvaða aðferðum er beitt þegar menn eru skipaðir í embætti á vegum ríkisins en ég tel ekki að þessi tilteknu þrjú mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni gefi sérstakt tilefni til þess. Við skulum á hinn bóginn fara yfir það í rólegheitum hvort ástæða er til að breyta eitthvað málsmeðferðinni."  Þarna gefur ráðherrann a.m.k. undir fótinn með að settar verði einhverjar reglur eða málsmeðferð breytt að einhverju leyti.  Ég er því bjartsýnn á að tillaga mín fái hljómgrunn á þingi, bæði þegar ofangreind ummæli forsætisráðherra eru höfð í huga og eins málflutningur Samfylkingarinnar í þessum málum í gegnum árin.

 Þingsályktunartillögunar má nálgast hér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband