Góð stemning á Akureyri

Á miðvikudaginn var ók ég norður til Akureyrar til að vera gestur á opnum fundi Vinstri grænna í kosningamiðstöðinni í Hafnarstrætinu.  Fundurinn var liður í fundaröðinni "Vinstri græn um allt land" sem nú stendur yfir.  Það er mikilvægt fyrir okkur frambjóðendur af höfuðborgarsvæðinu að kynnast áherslur vítt og breitt um landið og heilsa upp á kjósendur þar ekki síður en á suðvesturhorninu.  Það eykur víðsýni og breidd.

Þetta er fjórði fundurinn sem ég sæki utan suðvesturhornsins í þessari kosningabaráttu.  Áður hef ég heimsótt Reykjanesbæ, Akranes og Hornafjörð.  Fundurinn á Akureyri var vel sóttur og umræður feikigóðar.  Auk mín fluttu heimaframbjóðendurnir Björn Valur Gíslason (3. sæti í NA-kjördæmi) og Dýrleif Skjóldal (4. sæti í NA-kjördæmi) ræður.  Allt gekk það vel og umræður snérust um atvinnu- og byggðamál, samgöngumál, efnahagsmál, menntamál, umhverfismál og sjávarútvegsmál svo það helsta sé nefnt.  Stemningin var og er sem sagt mjög góð á Akureyri, höfuðvígi kjördæmisins.

Frambjóðendurnir í efstu sætum, þau Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman, voru að sjálfsögðu á fundinum líka og tóku þátt umræðum.  Í þessari fundaröð VG um landið höfum við kostað kapps um að blanda saman frambjóðendum af fleiri listum og það hefur gefist vel.  Með því móti kynnast frambjóðendur flokksins vel, þeim gefst kostur á að kynna sig og það kemur síðan glöggt fram að VG hefur eina stefnu óháð því í hvaða kjördæmi við erum.

Áður en fundurinn hófst gafst okkur tækifæri að vera viðstödd beina útsendingu Stöðvar 2 á umræðum oddvita flokkanna í norðausturkjördæmi frá safnaðarheimilinu á Akureyri.  Þar var Steingrímur J. að sjálfsögðu og stóð sig vel eins og endra nær.  Kynntar voru niðurstöður úr skoðanakönnun innan kjördæmisins þar sem kemur fram að VG er að bæta við sig um 8% frá síðustu kosningum, eða rúmlega 50% aukning, sem verður að teljast mjög gott.  Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka verulega við sig, og er þar væntanlega að gæta áhrifanna af oddvitaskiptum.  Tíðindin mestu þar eru þó þau að Framsóknarflokkurinn hrynur úr 33% í um 12% sem hlýtur að vera flokknum mikið áfall.

Að fundi loknum ók ég frá Akureyri suður í Borgarfjörð þar sem ég eyði páskahelginni með fjölskyldunni.


Stórbæra þarf kjör og aðstæður aldraðra

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ekki staðið sig í málefnum aldraðra. Kjör þeirra hafa versnað á undanförnum árum, jafnvel í góðærinu og skattalækkunum sem orðið hafa, eru aldraðir einkum sá hópur sem hefur setið eftir. Lífeyrir hefur ekki fylgt almennri launaþróun og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa einkum komið hinum tekjuháu til góða. Aldraðir fylla almennt ekki þann hóp. Á þessu þarf að verða breyting.

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Tuttugasta öldin er öld stórstígustu framfara sem orðið hafa á Íslandi. Kynslóðin sem skaut traustum stoðum undir atvinnulífið, sem barðist fyrir bættum kjörum og félagslegum rétti, kynslóðin sem byggði upp velferðarkerfið sem við búum við í dag, það er kynslóðin sem nú fyllir flokk aldraðra. Þjóðinni ber skylda til að búa vel að brautryðjendum sínum og sjá til að aldraðir þurfi ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni og aðbúnaði. Það er það minnsta sem við getum gert. Á það hefur hins vegar skort og það er afar brýnt að á því verði breyting. Tækifærið til þess er í vor þegar gengið verður að kjörborðinu og það tækifæri má ekki láta ónotað.

Á sama tíma og kaupmáttur hefur almennt aukist, bæði vegna kjarasamninga, skattalækkana og annarra atriða, hefur kaupmáttur lífeyrisgreiðslna ekki fylgt með. Lífeyrir hækkar ekki reglubundið eins og laun skv. kjarasamningum og skattalækkanir hafa ekki skilað sér til tekjulægstu hópanna, þ.m.t. þeirra sem eru á lífeyri hvers konar. Persónuafslátturinn hefur langt í frá fylgt almennri verðlagsþróun frá því honum var komið á með staðgreiðslunni á níunda áratugnum. En persónuafslátturinn í skattkerfinu er sá þáttur sem skiptir lágtekjufólk mestu máli, hann ræður því við hvaða tekjumörk fólk byrjar að greiða tekjuskatt. Fyrir aldraða, sem flestir hverjir hafa eingöngu lífeyrisgreiðslur til framfærslu, myndi hækkun persónuafsláttar hafa mikil áhrif til að bæta kjör þeirra. Vel má hugsa sér að sérstakur persónuafsláttur bætist við þá sem eingöngu eru með lífeyrisgreiðslur, vilji menn koma í veg fyrir að allir, líka þeir tekjuhæstu, njóti hækkunar persónuafsláttar. Hugmyndir um lægra skattþrep fyrir lífeyrisgreiðslur koma einnig vel til álita. Meginatriðið er að það verður að auka kaupmátt lífeyrisgreiðslna, og það strax.

En fleira en kaupmátturinn varðar aldraða sérstaklega. Uppbygging þjónustu fyrir aldraða hefur því miður setið á hakanum um langt skeið. Stórbæta þarf heimahjúkrun og samþætta hana félagslegri heimaþjónustu sveitarfélaganna. Aukin og bætt hjúkrun og þjónusta á heimilum getur gert mörgum kleift að búa lengur heima og það eru vissulega margir sem það kjósa. Ennfremur þarf að taka á í uppbyggingu hjúkrunarheimila, einkum á höfuðborgarsvæðinu þarf sem biðlistar eru langir. Þar þarf sérstaklega að horfa til þess að breyta fjölbýlum óskyldra í einbýli en einnig að tryggja að hjón séu ekki aðskilin þegar annað þarf á mikilli umönnun að halda en hitt ekki. Því miður eru sífellt að berast fréttir um slíkt og það er samfélaginu til vansa.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki sinnt þessum málaflokki sem skyldi. Hún hefur verið of upptekin við álæðið og stóriðjustefnuna og að hlúa að fjármagnseigendum og hátekjufólki. Í vor þarf að verða breyting. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur m.a. höfuðáherslu á samábyrgt velferðarkerfi. Í því felst að við viljum nýta hinar almennu skatttekjur til að greiða fyrir grunnþjónustu velferðarkerfisins og ýmist fella niður eða draga verulega úr þjónustugjöldum hvers konar á móti. Forsenda þess að það verði stefnubreyting í málefnum aldraðra er að Vinstri græn viðhorf verði ráðandi í næstu ríkisstjórn. Atkvæði greitt Vinstri grænum er verðmætt atkvæði. Það er ávísun á allt annað líf. 

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2007.)


Afleikir Jóns

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er fremur seinheppinn í yfirlýsingum sínum að mínu mati.  Í kjölfar almennrar og lýðræðislegrar kosningar í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, þar sem Hafnfirðingar höfnuðu stækkuninni, lýsir hann því yfir að bæjaryfirvöld séu ekki bundin af þeirri niðurstöðu og er á honum að skilja að þau geti sem best haft hana að engu.

Í viðtali á Stöð 2 í kvöld lýsir hann svo þeirri skoðun sinni að samstarf við flokka sem vilja ekki halda áfram á stóriðjubrautinni komi ekki til greina.  Er það kannski ekki úr vegi að rifja upp viðtal við þann sama Jón í Morgunblaðinu 28. júní sl. en þar er haft eftir honum:  "Hann [Jón] segir marga standa í þeirri trú að hér sé rekin virk stóriðjustefna en mikilvægt sé að leiðrétta þennan misskiling."

Þarna er formaður Framsóknarflokksins, þá nýlega orðinn iðnaðarráðherra, að afneita tilveru stóriðjustefnunnar.  Nú lýsir hann því yfir að hann vilji ekki vinna með neinum nema þeim sem vilja viðhalda stóriðjustefnunni!!  Í hve marga hringi ætlar maðurinn eiginlega?

Þessi útspil formanns Framsóknarflokksins, nú þegar 6 vikur eru til þingkosninga eru ekki pólitísk klók.  Enda þótt margir (og e.t.v. flestir) áhrifamenn innan flokksins telji nú að líkur á því að núverandi stjórnarflokkar fái afl til að sitja áfram séu hverfandi, er vitaskuld ekki útséð um hvernig ríkisstjórnarmynstur geta komið til álita.  Ætlar Framsóknarflokkurinn að dæma sig úr leik fyrirfram? 

Við í VG höfum t.d. ekki útilokað samstarf við neinn flokk þótt við eigum vissulega meiri samleið með núverandi stjórnarandstöðuflokkum en stjórnarflokkum.  Nýlegt útspil Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum hefur vissulega komið illa við okkur mörg í VG, en á þessu stigi er ekki rétt að útiloka samstarf enda alls óvíst hvaða mál verða sett á oddinn í stjórnarmyndunarviðræðum.  Hið sama hlýtur að eiga við um Framsókn.  Þótt flokkurinn hafi verið í forystu fyrir stóriðjustefnunni og umhverfisfórnum sem við í VG höfum barist hatrammlega gegn, er aldrei að vita nema þar á bæ séu menn reiðubúnir að hugsa þau mál upp á nýtt að loknum kosningum. 

Á síðasta kjörtímabili störfuðu Vinstri græn, Samfylking og Framsóknarflokkur saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og náðu margháttuðum árangri þótt vissulega væru skoðanir oft skiptar.  Á þessu kjörtímabili starfa þessir flokkar saman í meirihluta í Árborg.  Ber að skilja yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins þannig að hann útiloki þess háttar stjórnarsamstarf á landsvísu?  Ef svo er, þá er það athyglisvert en augljóslega ekki klókt.  Þessi útspil Jóns Sigurðssonar eru afleikir og raunar afar ósennilegt að raunsæir og reyndir stjórnálamenn í forystu flokksins bakki formanninn upp í þessari afstöðu.  Við sjáum hvað setur.


Tilefnislausar áhyggjur

Í kjölfar álverskosningar í Hafnarfirði hafa ýmsir, m.a. iðnaðarráðherra, lýst áhyggjum af því að sem við tekur ef vinstri flokkarnir komast til áhrifa í landsstjórninni.  Talar hann þar um "stóra stopp" og segir að stóriðjustefnan sé alls ekki dauð, heldur haldi hún áfram.

Þetta er auðvitað mjög skondið.  Þegar umræddur ráðherra tók við formennsku í Framsóknarflokknum í haust lýsti hann því yfir að Íraksstríðið væri mistök, og að engin stóriðjustefna væri til hjá stjórnvöldum.  Maður verður nú hálfruglaður á þessum misvísandi yfirlýsingum.

En af hverju að hafa áhyggjur?  Vissulega verður breytt um stefnu í fjölmörgum málum ef stjórnin fellur í kosningunum 12. maí nk.  Hvað er það sem við í VG viljum t.d. stöðva og veldur Jóni Sigurðssyni svona miklu hugarangri?  Tökum nokkur dæmi um það sem við viljum stöðva:

  • hávaxtastefnan og aukin skuldabyrði heimilanna
  • viðskiptahallinn
  • einkavæðing samfélagsþjónustunnar
  • launamunur kynjanna
  • vaxandi misskipting milli þjóðfélagshópa
  • einhæf atvinnuuppbygging
  • byggðaflótti
  • niðurskurður í samgöngumálum
  • skuldasöfnun sveitarfélaga
  • stuðningur við árásarstefnu Bandaríkjanna
  • kynbundið ofbeldi, vændi og mansal
  • félagslegur ójöfnuður
  • eyðilegging á náttúruperlum landsins

Þetta er meðal þess sem við viljum ekki standa að, en vitaskuld getur verið að ríkisstjórnarflokkarnir vilji halda áfram á þessari braut.  Vinstrihreyfingin grænt framboð vill breyta um stjórnarstefnu og leggja m.a. áherslu á:

  • stöðugleika í efnahagsmálum
  • lækkun vaxta
  • jafnvægi í gengismálum
  • fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf um allt land
  • að sérstaklega verði hlúð að starfsskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreina
  • að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki búi við góð skilyrði
  • að styrkum stoðum verði rennt undir lífræna matvælaframleiðslu
  • réttlátt skattkerfi m.a. með hækkuðum skattleysismörkum
  • félagslegan jöfnuð
  • mannsæmandi kjör fyrir aldraða og öryrkja
  • samfélagsþjónustu fyrir alla óháð efnahag
  • stóreflt og fjölþætt menntakerfi, allt frá leikskóla og upp í háskóla
  • jafnrétti kynja í raun
  • blómlegt fjölmenningarlegt samfélag
  • markvissar aðgerðir í byggða- og samgöngumálum, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar
  • umhverfis- og náttúruvernd í verki
  • sjálfstæða utanríkisstefnu

Og margt margt fleira.  Eru það þessi stefnumál sem valda iðnaðarráðherra hugarangri?  Það er fásinna að láta eins og allt sé í voða ef skipt verður um ríkisstjórn.  Raunar er það löngu orðið tímabært.  Áhyggjur formanns Framsóknarflokksins og ýmissa annarra af hugsanlegum stjórnarskiptum eru tilefnislausar.  Þvert á móti getur vel verið að ríkisstjórnarflokkarnir séu orðnir svo þreyttir á hvor öðrum að það færði þeim raunverulega hugarró að þurfa ekki að sitja lengur saman við ríkisstjórnarborðið.  Kannski þeir ættu að fara að venja sig við þá tilhugsun?


Nú er rétt að staldra við

Hafnfirðingar tóku þá skynsömu ákvörðun í kosningu um stækkun álversins í Straumsvík að segja nei - hingað og ekki lengra.  Það er kominn tími til að staldra við og ljá umræðunni um atvinnu- og umhverfismál nýja hugsun.  Þingkosningarnar 12. maí nk. þurfa að innsigla þann vilja almennings sem endurspeglast í Hafnarfjarðarkosningunni í gær.

Það er ótrúlegt að eftir alla umræðuna um umhverfis- og náttúruverndarmál, umræðuna um óstöðugleikann í efnahagsmálum, viðskiptahallann og svimandi háa vexti, skuli enn örla á því viðhorfi að það sé svartur dagur í sögu lands og þjóðar að Hafnfirðingar skuli hafa hafnað stækkuninni.  Og að nú þurfi að hefjast þegar handa við Helguvík eða Húsavík!

Nei, einmitt núna er lag til að staldra við, halda áfram og ljúka við vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, skoða af einhveri alvöru margvíslega aðra atvinnukosti sem henta betur okkar litla samfélagi og koma landsmönnun öllum til góða, hvar sem þeir búa.  Sannleikurinn er sá að með gríðarlega mikilli innspýtingu inn á eitt atvinnusvæði, eins og eitt stykki álver sannarlega er, verður rýmið í litlu efnahagskerfi okkar nánast ekkert fyrir fjárfestingu í öðrum greinum og um leið verða aðrir landshlutar algerlega afskiptir í atvinnumálum.  Á sama tíma eykst viðskiptahallinn með alvarlegum afleiðingum fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar, t.d. sjávarútveg og ferðaþjónustu, og vextir halda áfram að hækka.  Það leiðir til vaxandi skuldasöfnunar heimilanna og atvinnulífsins í landinu.  Hverjir vilja virkilega halda áfram á þessari braut?

Við eigum marga góða kosti í atvinnumálum.  Hvað mikilvægast í því efni er að hlúa að sprotafyrirtækjum og nýsköpun og þróun, stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í hverjum landshluta, smáum og meðalstórum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, smáiðnaði, handverki, hugbúnaði, menningu, listum og sögu svo fátt eitt sé nefnt.  Ennfremur þarf að leggja enn meiri kraft í menntun og rannsóknir til að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.  Tækifærin eru víða ef stjórnvöld bera gæfu til að opna augun og skapa góð skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf í stað þess að einblína á eina allsherjarlausn sem þar að auki veldur óstöðugleika, þenslu, háum vöxtum og hefur einungis lítil staðbundin áhrif á vinnumarkað.  Atvinnustefna núverandi stjórnvalda sver sig óþyrmilega í ætt við stórkarlalegar lausnir í ráðstjórnarríkjum víða um heim og ætti að vera löngu aflögð.  Tækifærið til að segja skilið við hana er þann 12. maí nk.  Látum það tækifæri ekki ónotað.


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband