Lóðaríið í Úlfarsárdal

Á fundi borgarráðs í dag lagði ég fram fyrirspurn í framhaldi af tillögum meirihlutans um lóðaúthlutanir í Úlfarsárdal.  Vinstri græn vilja að lóðum sé úthlutað á föstu verði og lóðaverði verði haldið í lágmarki.  Hins vegar teljum við upphæðirnar orka tvímælis og ennfremur að íbúar hverfisins eigi sérstaklega að greiða kostnað við byggingu skóla, leikskóla, íþróttasvæða o.s.frv. í stað þess að sá kostnaður sé greiddur af almennum skatttekjum borgarinnar eins og annars staðar.  Í þessu getur falist mismunun.

  1. Hvaða forsendur liggja að baki lóðaverðinu?
  2. Hvernig samrýmist lóðaverðið ákvæðum laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjöld, einkum 4. og 10. gr.?
  3. Hver er kostnaður borgarinnar við gatnagerð í hverfinu og hvernig standa tekjur af lóðaúthlutun undir þeim kostnaði?
  4. Hver eru gatnagerðargjöld/lóðaverð við úthlutun í nágrannasveitarfélögum og að hvaða leyti eru þær reglur sem nú eru lagðar til, frábrugðnar þeim reglur sem þar gilda og þeim reglum sem gilt hafa í Reykjavík?
  5. Í frétt frá borgaryfirvöldum kemur fram að héðan í frá er fyrirhugað að úthluta 1000 íbúðum í nýjum hverfum og 500 í eldri hverfum árlega.  Óskað er eftir sundurliðun á þessum áformum, skipt á einstök svæði og ár.
Svör munu væntanlega koma í borgarráði nk. fimmtudag.

Baráttudagur verkafólks - treystum velferð!

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks um allan heim.  Þennan dag reisir vinnandi fólk kröfuna um réttlátt samfélag, jöfnuð og velferð öllum til handa.  Þennan dag sýnir vinnandi fólks um allan heim órofa samstöðu í kröfum sínum um betri heim, frið og öryggi.

Ekki svo að skilja að baráttan standi einungis í einn dag á ári.  Þvert á móti, baráttan er viðvarandi en 1. maí er táknrænn baráttudagur, almennur frídagur þar sem færi gefst á að brýna raust og berja sér.  Minna á samtakamátt verkafólks og láta kröfurnar enduróma.

Kjörorð íslenskrar verkalýðshreyfingar á þessum degi er: Treystum velferð.  Það er viðeigandi.  Eftir 12 daga getur hver einasti einn látið til sín taka í kjörklefanum, lagt sitt af mörkum til að tryggja velferð.  Til þess þarf að skipta um ríkisstjórn.  Látum það verða verkefni okkar, heitum því á baráttudegi verkafólks að tryggja velferð 12. maí.

Til hamingju með daginn!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband