Mun hitta Dalai Lama

Dalai LamaÁ þriðjudag mun Dalai Lama koma í heimsókn í Alþingi.  Þar mun forseti Alþingis taka á móti honum og síðan mun hann hitta fulltrúa úr utanríkismálanefnd þingsins. 

Þá gefst mér, sem formanni nefndarinnar, tækifæri til að ræða við þennan góða gest og friðarverðlaunahafa Nóbels.  Ég hlakka sannarlega til þess að heyra hvað hann hefur að segja um stöðu mála í Tíbet, en einnig um viðhorf hans til friðarmála og alþjóðamála almennt.  Vonandi verður einnig unnt að gera honum grein fyrir þeirri stöðu sem er uppi í íslensku þjóðlífi.  Dalai Lama er aufúsugestur á Íslandi.


mbl.is Dalai Lama í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræn samvinna í utanríkis- og öryggismálum

Thorvald StoltenbergÍ næstu viku kemur hingað til lands Thorvald Stoltenberg, fyrrv. utanríkisráðherra Noregs, til að fjalla um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála.  Stoltenberg er þrautreyndur stjórnmálamaður og diplómat og var um langt skeið í forystusveit norska Verkamannaflokksins.  Hann hefur að undanförnu unnið á vegum utanríkisráðherra Norðurlandanna að skýrslu og tillögum um aukna samvinnu Norðurlandanna.

Stoltenberg kynnti norrænu utanríkisráðherrunum skýrslu sína í febrúar sl. og fékk hún umfjöllun, m.a. á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis.  Hefur tillögum hans yfirleitt verið vel tekið þótt einstaka tillögur eigi varla við hér á landi.  Að mínu mati felst í tillögunum viðleitni til að taka utanríkis- og öryggismálin nýjum tökum, auka norræna samvinnu á því sviði og víkka sjónarhornið á öryggismál.  Það er mjög jákvætt og í anda þess málflutnings sem vinstri menn og friðarsinnar hafa lengi haldið á lofti.  Það felast því mörg tækifæri í þeirri nýju sýn sem Stoltenberg fjallar um.

Fyrirlestur Stoltenbergs verður í Háskóla Íslands nk. miðvikudag (27. maí) kl. 12.15.


Að stýra neyslu - um sykurskattinn

Nokkurt fjaðrafok hefur orðið vegna hugmynda Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra um sérstaka skattlagningu sykraðra gosdrykkja og etv. einnig annarrar óhollustu.  Hafa bæði forsvarsmenn iðnaðarins og jafnvel formaður Neytendasamtakanna brugðist hart við og mótmælt öllum áformum um meinta neyslustýringu.

Á sama tíma kemur framáfólk úr heilbrigðisgeiranum, fólk sem hefur mikla reynslu af að vinna að tannheilbrigðismálum, og fagnar hugmyndunum og segir að það hafi verið mikil afturför þegar virðisaukaskattur á gosdrykki var lækkaður fyrir skemmstu (á þensluskeiðinu).

Lesa meira>>


Námavinnsla í Kollafirði

Þessi frétt á mbl.is rifjar upp fyrir mér þegar ég var formaður hafnarstjórnar í Reykjavík að takast á við iðnaðarráðuneytið um efnistöku í Kollafirði.  Þá kom einmitt fram, það sem umhverfis- og samgönguráð ályktar um nú, að stjórnsýsla þessara mála er alls ekki í lagi.  Þess vegna var það, að í stjórnarmyndunarviðræðum nú milli Vinstri grænna og Samfylkingar, var ákveðið að styrkja umhverfisráðuneytið og gera það að raunverulegu umhverfis- og auðlindaráðuneyti um leið og á hinn bóginn verður til atvinnuvegaráðuneyti.  Þessar breytingar gætu orðið á næsta ári.  Þá myndi efnistaka á hafsbotni flytjast til umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá iðnaðarráðuneytinu.  Það yrði að mínu viti til mikilla bóta.


mbl.is Telja stjórnsýslu umhverfismála veika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar óskir fylgja nýrri stjórn

Ný ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur tekið til starfa.  Hún á fyrir höndum mörg risavaxin og erfið verkefni.  Meginstarfið á næstu mánuðum og misserum mun lúta að því að koma atvinnulífinu á réttan kjöl og treysta og tryggja hag heimila og fjölskyldna í landinu.  Ekkert mál má skyggja á þetta brýna viðfangsefni.

Íslenskt samfélag er brotið og beyglað eftir áralanga stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins og hægri aflanna í landinu.  Hugmyndafræði frjálshyggjunnar og markaðsvæðingar, fylgt af taumlausri græðgi eftir efnislegu ríkidæmi, setti samfélagið á hliðina og hefur valdið ómældu tjóni með alvarlegum félagslegum afleiðingum.  Verkefnið sem bíður nýrra stjórvalda er að byggja upp samfélag á nýjum grunni, með ný gildi að leiðarljósi.  Við viljum ekki og þurfum ekki sömu grunngildi og hrundu í hausinn á okkur í haust. 

Stjórnarflokkarnir heita því að byggja upp norrænt velferðarsamfélag í þess orðs bestu merkingu.  Vonandi tekst það.  Mikil áhersla á samstarf við samtök launafólks og atvinnulífs, sveitarfélög og fleiri lykilaðila gefur fyrirheit um að stjórninni takist að hafa forystu um að við vinnum okkur út úr kreppunni.  Ríkisstjórnin mun ekki ein vinna verkið, þjóðin öll verður að koma að því og það þarf að skapa samstöðu um réttlátt þjóðfélag, jöfnuð og velferð.  Stjórnarandstaðan hefur líka hlutverki að gegna eins og ávallt í lýðræðislegu þjóðfélagi, hún þarf að veita stjórninni aðhald en um leið hvatningu og stuðning og ríkisstjórnin á að tileinka sér ný vinnubrögð þar sem önnur stjórnmálaöfl en þau sem sitja í ríkisstjórn eiga sinn sess og skipta máli.

Stjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Samfylking, eiga um margt sameiginlegan málefnagrundvöll.  Báðir byggja flokkarnir á félagshyggju og jöfnuði, lýðræði og sjálfbærri þróun.  Báðir vilja flokkarnir líta til hinna Norðurlanda um grunngerð samfélagsins.  Þeir eiga því margt sameiginlegt sem mun auðvelda þeim samstarfið á erfiðum tímum. 

Það er einkum í Evrópusambandsmálum sem flokkana greinir á.  Samfylkingin hefur um langt skeið viljað að Ísland gengi í Evrópusambandið meðan Vinstri græn eru því andsnúin.  Snertiflötur flokkanna í málinu er þó sá að vilja að þjóðin sjálf ráði örlögum sínum í þessu stóra máli.  Samkomulag þeirra gengur einmitt út á að þjóðin fái málið til sín í kjölfar viðræðna við ESB þar sem allir þættir málsins verða krufnir til mergjar og lagðir á borðið.  Jafnframt áskilja flokkarnir sé fullan rétt að halda uppi málflutningi sínum og vinna sjónarmiðum sínum fylgis meðal þjóðarinnar.  Það er lýðræðisleg nálgun.  Einhverjum þykir að málið sé sett í hendur stjórnarandstöðunnar en sannleikurinn er sá að málið fær einfaldlega lýðræðislega umfjöllun á Alþingi og þar verður úr því skorið hvort farið verður í viðræður eða ekki.  Það er í senn lýðræðislegt og þingræðislegt. 

Er það óvenjulegt eða óeðlilegt að í ríkisstjórnarsamstarfi sé treyst á þingræðið?  Varla.  Sérhver þingmaður er bundinn af sannfæringu sinni einni og þannig mun málið verða útkljáð á Alþingi og síðar í þjóðaratkvæðagreiðslu ef meirihluti þingmanna vill koma málinu til þjóðarinnar.  Ef að líkum lætur verður það fyrst eftir tvö og hálft til þrjú og hálft ár.  Á meðan mun ríkisstjórnin hafa í nógu að snúast við að koma samfélaginu á réttan kjöl.

Nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir.  Henni mun ekki af veita.  Verkefni hennar er risavaxið og verður vafalítið vanþakklátt á köflum.  Ég er sannfærður um að sérhver ráðherra, og ríkisstjórnin í heild, mun starfa af fullri einlægni og besta vilja til að vinna landi og þjóð vel.  Þegar öllu er á botninn hvolft er það besta loforðin sem ný stjórn getur gefið þjóðinni.

Greinin birtist fyrst á www.pressan.is 11. maí 2009.


Pressupenni

Fyrsta grein mín sem pressupenna birtist í morgun og fjallar um kröfuna um réttlátt samfélag.  Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, var haldinn hátíðlegur sl. föstudag í skugga efnahagskreppu og alvarlegra atvinnuástands en við höfum upplifað hér á landi um áratugaskeið. 

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður ekki síst að vinna að endurreisn samfélagsins úr rústum frjálshyggjunnar, í þágu fjölskyldna og atvinnulífs og að tala bjartsýni og kjark í þjóðina.  Þar varðar mestu að verkin sýni merkin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband