Einkavæðing Orkuveitunnar yfirvofandi

Meirihluti borgarstjórnar hyggst óska eftir því að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir því að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur verði breytt í hlutafélag.  Eðlilegri beiðni minnihlutans í stjórn Orkuveitunnar um að fresta málinu var hafnað af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sýnir það best einbeittan ásetning flokkanna um að einkavæða fyrirtækið.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur margsinnis lýst því yfir í borgarstjórn og á öðrum opinberum vettvangi að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur.  Breyting á opinberu fyrirtæki í hlutafélag hefur þó ævinlega verið undanfari einkavæðingar.  Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og F-listans í borgarstjórn hafa á hinn bóginn gefið lítið fyrir yfirlýsingar borgarstjóra og haldið því fram að ásetningur meirihlutans sé að einkavæða fyrirtækið.

Hvað rekur meirihlutann í borgarstjórn til að fara fram með þessum hætti?  Hefur borgarstjóri tryggingu fyrir því að iðnaðarráðherra muni flytja frumvarp um breytingu á rekstrarformi Orkuveitunnar?  Því verður ekki trúað.  Ljóst er því að borgarstjóri er að taka ótrúlega pólitíska áhættu í málinu sem mun einungis verða til þess að veikja ennfrekar stöðu hans.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar hafa ákveðið að fara fram á umræðu um málið á næsta fundi borgarstjórnar sem fram fer nk. þriðjudag.  Meirihlutinn í borgarstjórn virðist ætla að keyra þetta mál í ágreiningsferli sem fyrst og fremst mun skaða Orkuveituna, og að sjálfsögðu pólitíska stöðu oddvita meirihlutans.  Það er hans val.


Áframhaldandi hernaðarstefna á "vitrænum forsendum"

Helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann útskýrir stefnubreytingu flokks síns í utanríkismálum.  Þar má skilja, að nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn verði að taka á utanríkis- og varnarmálum á "vitrænum forsendum". 

Og hverjar eru hinar "vitrænu forsendur"?  Jú, það er óbreytt hernaðarstefna, áframhaldandi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Írak, hernaðarbrölt í Afganistan og þannig má vafalaust áfram telja.  Hefur hann uppi allmörg orð um það að friðarstefna Vinstri grænna sé ekki háð á "vitrænum forsendum" - og hvað er þá orðið að málflutningi og baráttu margra góðra hernaðarandstæðinga og friðarsinna sem störfuðu í Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum á sinni tíð?  Hvert hafa örlögin leitt það ágæta fólk í sameiningunni við Alþýðuflokkinn?

Blasir ekki við að það er gamla heimsvaldastefnan, hernaðarhyggjan og undirgefni við Bandaríkjastjórn, sem var aðalsmerki Alþýðuflokksins, sem hefur orðið ofan á innan Samfylkingarinnar?  Og þá stefnu er talsmaðurinn að verja í Morgunblaðsgreininni.  Sú stefna sem flokkurinn fylgir nú, var að vísu ekki svo einbeitt og augljós í aðdraganda kosninga og meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu.  Háværar kröfur forystumanna flokksins um uppgjör vegna Írak eru að engu orðnar og hafa dáið drottni sínum.

Það er hins vegar vita gagnslaus málsvörn hjá nafna mínum að ætla að útskýra stefnubreytingu Samfylkingarinnar með því að draga fram Norðmenn og Dani sem skálkaskjól.  Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við ríkisstjórnarskiptin, eins og kjósendum var lofað að yrði ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn, og það leyfum við okkur í VG að gagnrýna.  Stjórnarflokkur verður að þola það að vera minntur á kosningaloforðin og þegar þau eru að engu höfð er ekki við neinn að sakast nema hann sjálfan.  En sannleikanum verður hver sárreiðastur, eins og sést glöggt á málsvörn varaformanns utanríkismálanefndar í Morgunblaðinu í dag.


„Þetta er herinn sem byssustingjum beinir að….

… börnum og konum og vopnlausum lýð“ segir í þekktu ljóði Kristjáns Guðlaugssonar. Þar yrkir hann um bandaríska herinn á Miðnesheiði, og margir hernaðarandstæðingar hafa í gegnum árin tekið undir og borið fram kröfuna um herlaust land, afvopnun og frið. Sumir þeirra eru nú, illu heilli, í herbúðum stjórnarliða og hljóta að vera hnípnir mjög þegar forysta þeirra býður velkominn hingað heim innrásarherinn frá Írak.

Því það er einmitt það sem er að gerast. Hingað í heræfingarleiðangur, svokallaðan Norðurvíking, er boðið þeim sama her og stendur í ólögmætum stríðsrekstri í Írak og sem kostað hefur borgarastyrjöld og ómældan fjölda fórnarlamba, ekki síst meðal óbreyttra borgara. Sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum harmaði af stórlyndi sínu stríðsreksturinn í Írak, rétt eins og einhverjir væru bættir með því. En forysta íslenskra jafnaðarmanna auðmýkti sjálfa sig með því að setjast í ríkisstjórn án þess að krefjast þess að stjórnvöld bæðust afsökunar á athæfi sínu og skilmálalausum stuðningi við ólögmætar aðgerðir Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja í Írak. Voru stóryrðin og svardagarnir fyrir kosningar þá eingöngu sjónhverfingar til þess eins að ganga í augun á kjósendum? Sjaldan hefur eins lítið lagst fyrir nokkurn kappa og forystu Samfylkingarinnar þar sem hún reynir nú að fóta sig á svelli utanríkis- og varnarmála.

En ríkisstjórn Íslands telur rétt að halda áfram á sömu braut hernaðarstefnu eins og flestar fyrri ríkisstjórnir, enda stýrir Sjálfstæðisflokkurinn för einn ganginn enn. Sem fyrr velur samstarfsflokkur hans að beygja sig í duftið og fylgja leiðsögn hægri aflanna, hernaðarhyggju og undirlægjuháttar gagnvart Bandaríkjunum. Verður það ef til vill erindi okkar í Miðausturlöndum og í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar býður velkominn þann sama her og réðst með ólögmætum hætti inn í Írak, þann sama her og „beinir byssustingjum að börnum og konum og vopnlausum lýð“ í þeirri barnslegu trú að slíkur her geti reynst þjóðinni vörn á válegri tíð. Væri ef til vill ráð að spyrja almenning í Írak um varnarmátt þeirra vígtóla sem orðið hafa þúsundum að fjörtjóni þar og svo miklu víðar.

Þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott bárum við mörg í brjósti þá von að orð Jakobínu skáldkonu Sigurðardóttur yrðu að áhrínsorðum og að börn okkar gætu „án kinnroða nefnt okkar kynslóð og kletta og heiðar og sand“. En þvert á móti veldur framganga íslenskra ráðamanna nú því að þau verða hugstæðari orðin Jakobínu úr sama ljóði: „En smánin í blóði mér brennur. Þú veist hvað sá heitir sem bregst sínu landi og þjóð.“ Vonandi sér stjórnarforystan að sér áður en svo illa er komið.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 19. ágúst).


Fjármálaráðherra verður ekki tekinn alvarlega

Árni Mathiesen fjármálaráðherra lýsir því yfir í fjölmiðlum í dag að ekki komi til álita að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Þessi yfirlýsing vekur furðu, ekki síst í ljósi þess að sami fjármálaráðherra var ekki þessarar skoðunar fyrir kosningar – a.m.k. ekki opinberlega. 

Sveitarfélögin hafa um langt skeið lagt áherslu á að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.  Ástæðan er einföld og öllum skiljanleg sem nenna að setja sig inn í málið.  Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum sem greiða lítinn sem engan tekjuskatt en hafa mestan hluta tekna sinna af fjármagni – greiða þá fjármagnstekjuskatt til ríkisins en lítið sem ekkert útsvar til sveitarfélaga.  Engu að síður nýta þeir hinir sömu sér þjónustu sveitarfélaga, eiga t.d. börn í grunnskólum og leikskólum, aka á götum sveitarfélaganna, njóta menningar sem styrkt er af sveitarfélögunum o.s.frv.  Jafnvel fjármagnstekjugreiðendur nýta velferðarþjónustuna og holræsakerfið, en öll þessi starfsemi sveitarfélaganna er að miklu eða einhverju leyti fjármögnuð með útsvarstekjum.  Af hverju eiga bara þeir íbúar sveitarfélaganna sem hafa almennar launatekjur að greiða fyrir þessa þjónustu en ekki þeir sem hafa tekjur af fjármagni?  Hvaða sanngirni er í því? 

Þessi sjónarmið voru reifuð á árlegum samráðsfundi sveitarfélaganna með fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra snemma á þessu ári.  Þann fund sátu sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, m.a. sat ég fundinn.  Þótt fjármálaráðherra hafi ekki lýst sig sammála þessum sjónarmiðum, þá var af og frá að hann hafnaði því eða afskrifaði, en þá voru reyndar kosningar í aðsigi og það var etv. ástæða þess að ráðherrann vildi ekki ögra sveitarstjórnarfólki. Yfirlýsing ráðherrans nú er því í mótsögn við afstöðu hans á samráðsfundi með sveitarstjórnarfólki fyrir fáum mánuðum og varla hægt að taka hann alvarlega.  

Og fyrirsláttur hans um að það myndi mismuna sveitarfélögum ef þau fengju hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er aumkunarverður enda er tiltölulega einfalt að nýta Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að jafna tekjur milli sveitarfélaga eins og nú þegar er gert. Það er staðreynd að sveitarfélögin hafa orðið af verulegum tekjum vegna þess að æ fleiri landsmenn flytja skattgreiðslur úr tekjuskatti og útsvari yfir í fjármagnstekjuskatt.  Ríkissjóður hefur notið góðs af þessu og fjármálaráðherra vill bersýnilega halda sínum hlut í því efni.  Sveitarfélögin þurfa hins vegar á frekari tekjustofnum að halda til að bæta fyrir þá skerðingu sem þau hafa orðið fyrir, og til að gæta allrar sanngirni í skattgreiðslum milli íbúa.  Fjármálaráðherra mun verða haldið við efnið í þessu máli á næstu mánuðum.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband