13.8.2008 | 11:18
Stórátak verði gert í almenningssamgöngum - ríki og sveitarfélög taki höndum saman
"Vinstrihreyfingin grænt framboð telur brýnt, og raunar óhjákvæmilegt, að stórefla almenningssamgöngur í þéttbýli. Sveitarfélög hafa um langt árabil sinnt almenningssamgöngum af veikum mætti og án þess að um lögbundið verkefni sveitarfélaga sé að ræða. Þau hafa einnig ítrekað óskað eftir aðkomu ríkisvaldsins að þessum þætti samgangna eins og öðrum. Þingmenn VG hafa lagt fram þingmál í þeim tilgangi að styrkja almenningssamgöngur en þau hafa ekki enn fengist afgreidd.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á almenningssamgöngur en því miður virðast það einungis vera orð á blaði, án innihalds. Viðbrögð samgönguráðherra við kröfu sveitarfélaganna um aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum valda vonbrigðum og lýsa skilningsleysi hans á vaxandi mikilvægi góðra og öflugra almenningssamgangna í nútíma þjóðfélagi.
Hækkandi olíuverð er einn þeirra þátta sem kalla á breytt samgöngumynstur með áherslu á almenningssamgöngur. Ríkið hefur þar stóru hlutverki að gegna og verður að bregðast við. Loftmengun, svifrik og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu og víðar, enda byggjast samgöngur nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis.
Samhliða því að styðja við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum er nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr loftmengun. Fyrsta skrefið er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga og enn fremur að almenningssamgöngur verði ekki til frambúðar miklu verr settar með tilliti til olíugjalds en þær voru þegar þungaskattur var innheimtur.
Þingflokkur VG skorar á ríkisstjórnina að hætta skattlagningu á almenningssamgöngur, taka höndum saman við sveitarfélögin og leggja sitt af mörkum við að snúa vörn í sókn og treysta og efla almenningssamgöngur. Í þjóðhagslegu tilliti yrði um leið af þessu ótvíræður ávinningur."
(Ályktun frá þingflokki VG, 12. ágúst 2008.)
11.8.2008 | 08:04
Átökin í Kákasus
Hernaðarátökin í Kákasus eru hörmuleg eins og stríðsrekstur ævinlega er. Það eru saklausir borgarar sem líða og falla fyrir sprengjum og skotárásum á báða bóga. Það er því brýnt að stöðva átökin milli Georgíu og Rússlands og koma á vopnahléi til að unnt verði að leita pólitískra lausna á deilunni.
Skyggnst í söguna
Á Vesturlöndum er sú skoðun almenn að hér séu Rússar með enn einn yfirganginn gegn litlu ríki, Georgíu, sem vill treysta sjálfstæði sitt í sessi. Það er líka sú mynd sem stjórnvöld hér vestra og fjölmiðlar draga gjarnan upp, það er jú ósköp þægilegt að hafa óvin eins og Rússa til að benda á og gera að blóraböggli. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er hér engin undantekning.
En það getur verið hollt að skyggnast bak við tjöldin, skoða söguna og bera saman við önnur dæmi sem geta haft þýðingu gagnvart þeirri deilu sem uppi er í Kákasus. Vitaskuld er unnt að setja þessa deilu í það samhengi að hún snúist um hugsanlega aðild Georgíu að NATO og hernaðarlegar afleiðingar þess fyrir Rússa, það er hægt að nefna olíuna sem leidd er í gegnum þetta svæði o.fl. Átökin á Balkanskaga snérust á sinn hátt líka um yfirráð stórvelda, stöðu þeirra í alþjóðastjórnmálum og viðskiptum. Stríðsreksturinn í Írak nú og fyrr sömuleiðis. Og því miður hneigjast menn til að horfa eingöngu á þetta yfirborð.
Arfleiðfð Stalíns
Sjálfsstjórnarhéruðin Suður-Ossetía og Abkhasía liggja innan landamæra Georgíu eins og þau eru viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Þess er nú krafist að þau landamæri séu virt. Á hitt er að líta að þarna búa þjóðir sem vilja sjálfstæði, hafa eigin menningu, sögu og tungumál. Og þær hafa verið þvingaðar undir georgísk yfirráð. Barátta þeirra fyrir því að ráða sér sjálfar er ekki ný af nálinni. Rússeska keisaradæmið fór með hernaði gegn þeim á 19. öld. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar stofnuðu Menshevíkar sjálfstætt ríki Georgíu þar sem Abkhazía var hluti en áttu í miklum erjum við íbúana sem kærðu sig ekkert um þá tilhögun. Þegar Georgía samdi um aðild sína að Sovétríkjunum varð t.d. Abkhazía sjálfstætti lýðveldi í tengslum við Georgíu. Það var hins vegar ákvörðun Jósefs Stalíns að þessi sjálfsstjórnarhéruð yrðu hluti af Sovétlýðveldinu Georgíu. Og í kjölfarið hóf sá illræmdi Lavrentíj Bería, yfirmaður KGB, að skipuleggja fólksflutninga, m.a. að flytja Georgíumenn til héraðanna. Það er við þessa arfleifð stjórnar Stalíns sem þjóðirnar eru m.a. að berjast í dag. Og það er í raun skömm að því að Vesturlönd skuli ekki sýna þessum þjóðum stuðning við að brjótast undan stalínismanum ef svo má að orði komast.
Sjálfsákvörðunarréttur - sjálfsögð mannréttindi
Ossetar og Abkhasar eru ekki Georgíumenn. Eiga raunar lítið sameiginlegt með þeim nema hin formlegu landamæri. Suður-Ossetar eru hluti af stærri þjóð, þar sem meirihlutinn býr í Norður-Ossetíu sem tilheyrir Rússlandi. Meirihluti þessara þjóða bera rússneskt ríkisfang. Það er hægt að gera lítið úr því og segja að Rússar hafi útbýtt vegabréfum til þeirra sem það vildu hafa. Hin hliðin á þeim teningi er auðvitað spurningin hvers vegna Georgíustjórn hefur ekki veitt þessum þjóðum sjálfsögð borgaraleg réttindi eins og ríkisfang? (Ég hef hér ekkert minnst á þriðja sjálfsstjórnarhéraðið í Georgíu, Adjaríu, þar sem það hefur ekki dregist inn í þessi átök).
Burt séð frá því hvar menn kunna að standa í deilum stórveldanna, með eða móti NATO eða ESB o.s.frv. þá stendur í mínum huga eftir spurningin um sjálfsákvörðunarrétt ossetísku og abkhösku þjóðanna. Er réttur þeirra annar og minni en til dæmis Albana í Kosovo? Eða hver yrði afstaða okkar ef Færeyingar lýstu yfir sjálfstæði? Það er fyrst og fremst vanvirða og lítilsvirðing við þessar þjóðir að horfa fram hjá áralangri baráttu þeirra fyrir sjálfsákvörðunarrétti en beina sjónum þess í stað aðallega að átökum stórveldanna, framferði Rússa, hagsmunum NATO og Bandaríkjanna. Um það allt má vissulega margt segja og flest heldur miður. En eftir standa hagsmunir þjóða, sem eiga sína djúpu og ríku sögu og menningu,og sem vilja berjast fyrir sjálfstæði sínu. Það myndi sæma betur öllum þeim sem vilja berjast fyrir mannréttindum og lýðræði að taka málstað þessara þjóða og leita pólitískra lausna sem tryggja rétt þeirra til að ráða málum sínum sjálfar.
(Greinin birtist í Mbl. 11. ágúst 2008.)
Viðbót: Hér er áhugaverð greining á stöðu mála af vef CNN sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku http://edition.cnn.com/2008/WORLD/europe/08/11/georgia.russia.oakley/index.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.8.2008 | 20:53
Styðjum sjálfsbjargarviðleitni Osseta
Allt frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar hafa Ossetar í Suður-Ossetíu barist fyrir því að sameinast löndum sínum í Norður-Ossetíu. Georgíumenn og málsvarar þeirra á vesturlöndum, ríghalda hins vegar í ríkjaskipan sem Stalín kom á fót á fjórða áratug síðustu aldar. Er ekki kominn tími til að segja skilið við Stalín og virða vilja ibúanna sjálfra?
Það kemur vitaskuld ekki á óvart að Bandaríkjastjórn vilji að Rússar dragi sig út úr Suður-Ossetíu. Markmið Bandaríkjanna er að koma Georgíu inn í NATO eins og kunnugt er. En á það er að líta að allt að 90% íbúa Suður-Ossetíu hafa rússneskt ríkisfang. Og örlög þeirra íbúa koma því Rússum sannarlega við, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Landamærin sem Georgíumenn tóku sér við fall Sovétríkjanna hafa að vísu verið viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. En Ossetar sjálfir hafa alla tíð mótmælt þeim og ekki kært sig um að vera innan vébanda Georgíu. Enda eru Ossetar sjálfstæð þjóð, sem eigin sögu, menningu og tungumál. Og eiga ekkert síður rétt á að sameinast löndum sínum í Norður-Ossetíu en t.d. Kosovobúar að lýsa yfir sjálfstæði, eða að Þjóðverjar voru sameinaðir eftir fall Berlínarmúrsins.
Við Íslendingar brugðumst skjótt við þegar Eistland, Lettland og Litháen lýstu yfir sjálfstæði við fall Sovétríkjanna. Við höfum líka viðurkennt sjálfstæði Kosovo. Og við eigum nú að sýna sama dug og kjark og styðja baráttu Osseta í Suður-Ossetíu sem vilja ráða málum sínum sjálfir. Það er okkur ekki sæmandi að mismuna þjóðum eftir því hvað hentar hernaðarhagsmunum stórveldanna hverju sinni. Þjóðin sjálf á sinn rétt og við eigum að gerast málsvarar sjálfsákvörðunarréttar ossetísku þjóðarinnar.
![]() |
Rice: Rússar yfirgefi Georgíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2008 | 14:06
Stalín uppvakinn!
Átökin sem nú geisar á landamærum Georgíu og Rússlands, í sjálfsstjórnarhéraðinu Suður-Ossetíu, voru etv. fyrirsjáanleg. Um langt árabil hafa íbúar héraðsins, og raunar líka héraðsins Abkhazíu, barist fyrir sjálfstæði sínu og ljóst að þeir vilja ekki tilheyra Georgíu. Stjórnvöld í Georgíu gera á hinn bóginn tilkall til héraðanna og virðist sem alþjóðasamfélagið hafi fallist á þá skipan. En hvað veldur? Eru það hagsmunir og saga þjóðanna sem byggja þessi héruð sem ráða þeirri afstöðu eða eru það etv. frekar pólitískar ástæður, nefnilega að koma höggi á Rússlandsstjórn?
Fyrir þá sem hafa áhuga á þróun mála í þessum heimshluta væri fróðlegt að kynna sér sögu héraðanna. Hvað veldur því að þessi héruð eru talin til Georgíu? Ef íbúarnir fengju sjálfir að ráða málum sínum er ólíklegt að þeir kysu að tilheyra Georgíu. Íbúar Suður-Ossetíu vilja að líkindum sameinast Norður-Ossetíu, sem tilheyrir Rússlandi og íbúar Abkhazíu hafa krafist sjálfstæðis. Má fólkið ekki ráða sjálft? Af hverju á að gilda annað viðhorf til vilja íbúanna á þessu svæði en t.d. í Kosovo?
Þegar Sovétríkin voru stofnuð á sínum tíma gerði Georgía sérstakan samning um aðild að ríkjabandalaginu. Sjálfsstjórnarhéruðin sem hér um ræðir voru ekki hluti þess samkomulags, þau gerðust sjálfstæðir aðilar að Sovétríkjunum á eigin forsendum. Það var hins vegar Jósef gamli Stalín sem ákvað að þessi héruð skyldu tilheyra Georgíu, sínu gamla heimalandi. Þannig má segja að þessi héruð (og líklega er það nú enn óumdeildara hvað Abkhazíu varðar) séu enn að súpa seyðið af stalínismanum. Það skýtur óneitanlega skökku við að vesturlönd skuli vilja viðhalda gamla Stalín og alræðisvaldi hans. En það virðist mér eingöngu gert til að hnykkla vöðvana gagnvart Rússlandi og styðja við gulldrenginn sinn Saakashvili, sem rígheldur í ríkjaskipan Stalíns. Og etv. vert að rifja upp að átökin sem nú blossa upp, hófust í raun fyrst eftir að Saakashvili varð forseti Georgíu.
Það kemur ekki á óvart að hægri öflin sem víða halda um stjórnvölinn í hinum vestræna heimi, skuli láta rétt og vilja íbúanna lönd og leið í pólitískum leiðangri sínu, en verst er að jafnaðarmenn skuli elta eins og hundar í bandi. Sennilega vita þeir ekki að þeir eru að draga taum Stalíns og arfleifðar hans.
![]() |
Rússlandsher inn í Suður-Ossetíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2008 | 12:22
Umdeildir dómarar
![]() |
Kröfu um áframhaldandi nálgunarbann hafnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.8.2008 | 15:40
Á heimleið
Ég er nú staddur á hinum heimilislega Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Flaug í morgun frá Pétursborg eftir 5 vikna dvöl þar og hingað til kóngsins Kaupinhafnar og bíð hér eftir flugi heim. Það verður unaðslegt að koma heim eftir þetta langa dvöl fjarri heimahögum, ekki síst fjölskyldunni.
Í gærkvöldi hitti ég félaga úr karlakórnum Heimi í Skagafirði, en kórinn ásamt fylgdarliði var kominn til Pétursborgar og mun halda tónleika þar á mánudagskvöld. Margt ágætra kunningja er í hópnum og gaman hitta svo hresst og skemmtilegt fólk og taka með því lagið. Vonandi ganga tónleikar þeirra vel.
Þessi síðasta vika hefur verið býsna viðburðarrík hjá mér í Pétursborg. Ekki vildi betur til, þegar ég var í Novgorod um síðustu helgi, en að ég veiktist af lungnabólgu og kynntist heilbrigðiskerfinu ágætlega, bæði í Novgorod og svo einnig í Pétursborg vegna áframhaldandi rannsókna og meðferðar. Svo gerðist það sem ég hef aldrei lent í áður að ég var rændur og missti ég þar minn ágæta síma með "vitinu", upplýsingum um símanúmer o.s.frv. en verst þótti mér samt að í símanum var líka forláta myndavél. Og til að kóróna allt gleypti hraðbanki einn bankakortið mitt og tókst mér ekki að fá það eftur áður en ég yfirgaf landið.
En Pétursborg er kvödd að sinni, vonandi gefst tækifæri til að heimsækja hana fyrr en síðar á nýjan leik.
1.8.2008 | 14:10
Geir H. Haarde er ónauðsynlegur - í stóli forsætisráðherra
Forsætisráðherra segir úrskurð umhverfisráðherra um heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka hafa verið ónauðsynlegan. Þegar sami umhverfisráðherra úrskurðaði á annan veg í tengslum við annað verkefni, var allt í himna lagi að mati sama forsætisráðherra. Stjórnsýslan á sem sagt að fara að duttlungum forsætisráðherrans.
Pólitískur forystumaður sem hefur þetta viðhorf hefur ekkert að gera í stóli forsætisráðherra á 21. öldinni. Þetta viðhorf heyrir til liðinni öld. Forsætisráðherra sem vill ekki að lög um mat á umhverfisáhrifum séu virt, forsætisráðherra sem vill ekki huga að hagsmunum umhverfis og náttúru og komandi kynslóða hefur ekkert að gera í ríkisstjórn. Ekkert frekar en flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur nú setið við ríkisstjórnarborðið í 17 ár og lætur eins og hann eigi þar allt og megi öllu haga að eigin geðþótta.
Formaður Sjálfstæðisflokksins gerist einnig talsmaður Samfylkingarinnar, eða amk. margra innan hennar, að eigin sögn. En var ekki stefna Samfylkingarinnar að ljúka við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og meta í kjölfarið í hvaða virkjanir yrði ráðist og hverjar ekki? Er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur því? Eru kannski giska margir forystumenn Samfylkingarinnar andvígur eigin stefnu? Er forsætisráðherra (og fyrrverandi utanríkisráðherra), andvígur alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í umhverfismálum?
Er nema von að spurt sé. Fáheyrð viðbrögð forsætisráðherra eru enn eitt dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í þrot. Ástandið í ríkisstjórnarliði hans og þingflokki er lítið skárra en í borgarstjórnarflokknum. Hann á að fara frá völdum, hans tími er liðinn.
![]() |
Úrskurðurinn ónauðsynlegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |