Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvalveiðar ræddar í borgarráði

Á fundi borgarráðs í dag var lögð fram tillaga okkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um hvalveiðar.  Meðal annars var rætt um áhrifin á ferðaþjónustuna sem er mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík.  Tillagan er þannig:

"Borgarráð Reykjavíkur lýsir áhyggjum sínum vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni. Ákvörðunin getur skaðað mjög ímynd Íslands út á við og hefur það raunar þegar komið fram í fjölda mótmæla hvaðanæva að. Íslensk ferðaþjónusta mun ef að líkum lætur verða fyrir umtalsverðum búsifjum og hætt er við að hvalveiðarnar hafi m.a. neikvæð áhrif á komur ferðamanna og kemmtiferðaskipa til Reykjavíkur. Þá er eins víst að íslensk útrásarfyrirtæki muni einnig verða fyrir skakkaföllum. Borgarráð samþykkir að kalla eftir markvissum aðgerðum til að draga úr þeim skaða sem þegar er orðinn og vandlegu mati á þeim hagsmunum sem í húfi eru áður en ákvarðanir um frekari veiðar verði teknar."

Afgreiðslu tillögunnar var frestað milli funda og verður væntanlega tekin til afgreiðslu á næsta fundi að viku liðinni.  Hins vegar eru vonir bundnar við að hún njóti góðs stuðnings, fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar styðja hana að sjálfsögðu og miðað við skrif formanns borgarráðs, Framsóknarmannsins Björns Inga Hrafnssonar, ætti hún að verða samþykkt. 


Kraftmikið BSRB þing

Ég átti þess kost að vera við setningu BSRB þings í gær, sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, en ég var kosinn varaformaður Sambandsins í síðustu viku.  Ögmundur Jónasson formaður BSRB flutti þarf kraftmikla setningarræðu, afar vel samda og með mikinn samfélagslegan boðskap.  Í ræðu sinni varaði Ögmundur við markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins og hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.  Benti hann á þá augljósu staðreynd að með slíkum aðgerðum væri verið að færa þessa mikilvægu almannaþjónustu undar forræði þjóðarinnar sjálfrar og til einkaaðila, einkum fjársterkra fyrirtækja.  Og þetta er ekki smámál, þetta snýst nefnilega um grundvöll lýðræðisins, eða eins og Ögmundur orðaði það: 

Undanfarin ár hafa einkennst af mikilli markaðs- og einkavæðingu, ekki aðeins hér á landi heldur víðs vegar um okkar heimshluta. Hér á landi hefur fjármálakerfið, símaþjónustan og ýmis önnur starfsemi þegar verið tekin úr höndum hins opinbera að öllu leyti og ýmsir þættir heilbrigðisþjónustunnar lúta í vaxandi mæli markaðslögmálum. Með því að færa undirstöðuþætti almannaþjónustunnar undan handarjaðri almennings eru völdin færð til nýrra eigenda, handhafa fjármagnsins. Þess vegna dregur einkavæðingin úr áhrifum almennings en eykur að sama skapi tök fjármálamanna á þjóðlífinu. Vilji menn hins vegar kröftugt lýðræðisþjóðfélag þá gefur auga leið að þeir hinir sömu verða að standa vörð um almannaþjónustuna. Ekki nóg með það: Hana þarf að stórefla. Þetta leggur BSRB áherslu á með kjörorði sínu.

Hér er vel að orði komist eins og Ögmundar er von og vísa og er ég algerlega sammála þeim sjónarmiðum sem formaður BSRB setti fram í kröftugu máli sínu.


Landfyllingar við Gufunes

Morgunblaðið sló upp mikilli frétt í gær um hugmyndir um stækkun á athafnasvæði hafnarinnar.  Í fjölmiðlum í dag er svo haft eftir formanni íbúasamtakanna að allir íbúar í Grafarvogi séu andvígir landfyllingum við Gufunes.  Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að í raun eru hér á ferðinni tvö mál, annars vegar stækkun á athafnasvæðinu í Sundahöfn og hins vegar landfyllingar við Gufunes.  Bæði þessi svæði eru sýnd á gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

Á undanförnum árum hefur orðið heilmikil vakning í skipulagsmálum og viðhorf almennings breyst og ekki síður áhugi hans á að hafa áhrif í skipulagsmálum.  Ég hygg að hugmyndir um miklar landfyllingar í Gufunesi undir blandaða byggð, eins og gildandi skipulag gerir reyndar ráð fyrir, muni mæta mikilli andstöðu íbúa í Grafarvogi.  Þar held ég að formaður íbúasamtakanna hafi rétt fyrir sér.  Þess vegna var það að við Dagur Eggertsson greiddum ekki atkvæði með því í stjórn Faxaflóahafna að hefja viðræður við skipulagsyfirvöld um nýtingu þess svæðis.  Við töldum einfaldlega að málið væri alls ótímabært eins og það var lagt upp, og skoða þyrfti miklu betur framtíðarnýtingu á því svæði í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Þá er einnig rétt að vekja athygli á að strandlengjan í Sundahöfn er auðvitað mjög röskuð og inni á miðju athafnasvæði skipafélaga.  Allt öðru máli gegnir í Gufunesi.  Þar höfum við strandlengju sem unnt væri að halda í gera aðgengilega fyrir almenning.  Þess vegna er það mín skoðun að það sé eðlilegt, ekki síst í ljósi nýrra viðhorfa, að endurskoða skipulagsáformin í Gufunesi, ekki með það fyrir augum að þar rísi mikil atvinnustarfsemi á landfyllingum, heldur að svæðið megi nýta til útivistar og afþreyingar, jafnvel í bland við einhverja smágerða byggð, og landfyllingaráformin þurfi að endurskoða frá grunni.


Tek þátt í forvali Vinstri grænna

Ég hef í dag tilkynnt að ég muni taka þátt í forvali Vinstri grænna í Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæmum vegna Alþingiskosninganna næsta vor.  Forvalið fer fram 2. desember nk. er sameiginlegt fyrir kjördæmin þrjú. Í yfirlýsingu frá mér segir m.a.:

Ég er þess fullviss að reynsla mín á sviði sveitarstjórnarmála og í öðru stjórnmálastarfi nýtist okkur Vinstri grænum vel í komandi Alþingiskosningum. Að höfðu samráði við fjölmarga félaga í flokknum í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi, sem hafa eindregið hvatt mig til framboðs, hef ég ákveðið að gefa kost á mér í forvali flokksins sem fram fer þann 2. desember nk. og sækjast eftir einu af efstu sætunum í einhverju kjördæmanna þriggja.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu minni, www.arnithor.is


Anna Politkovskaja - samviska heillar þjóðar

Rússneska blaðakonan Anna Politkovskaja var myrt við heimili sitt í Moskvu á laugardag.  Ég minnist hennar á heimasíðu minni, www.arnithor.is

Ísland herlaust - en hvað svo?

Það er ástæða til að óska okkur Íslendingum til hamingju með að vera loksins herlaust land.  Þungu fargi er af okkur létt.  En hvað tekur við?  Hvernig utanríkisstefnu eigum við að reka?  Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir mig um þetta mál, hana má líka finna á heimasíðu minni.

 


Halldór nýr formaður Sambands sveitarfélaga

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði var nú fyrir stundu kjörinn nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Hann tekur við starfinu af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra, sem hefur verið formaður sl. 16 ár.  Kosið var milli Halldórs og Smára Geirssonar bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð og hlaut Halldór 68 atkvæði en Smári 64.  Það má því segja að það hafi verið mjótt á mununum og báðir þessir sveitarstjórnarmenn njóta trausts og stuðnings í röðum í sveitarstjórnarmanna. 

Nýr formaður kemur nú af landsbyggðinni, eftir að Reykvíkingur hefur setið í formannsstóli í 16 ár og er það vel við hæfi.  Halldór kemur af landssvæði sem á kannski hvað mest í vök að verjast og það getur orðið Vestfjörðum styrkur að formaður sambandsins komi af því svæði.  Hann hefur líka getið sér orðs sem baráttumaður fyrir stóriðjulausum Vestfjörðum og lagt áherslu á aðrar lausnir í atvinnumálum.

Ástæða er til að óska Halldóri til hamingju og velfarnaðar í vandasömum störfum.


Eldfjallafriðlandi vel tekið í borgarstjórn

Tillögu okkar Vinstri grænna um að borgin beiti sér fyrir því að stofnað verði eldfjallafriðland frá Þingvöllum og út á Reykjanestá ásamt Eldey, var vel tekið á fundi borgarstjórnar í dag.  Borgarstjóri lagði til að tillagan færi til umhverfisráðs til meðferðar og var það samþykkt samhljóða.  Við borgarfulltrúar Vinstri grænna erum að sjálfsögðu ánægð með þær viðtökur og teljum líklegt að á vettvangi umhverfisráðs verði unnt að fara ítarlega yfir tillöguna, fá utanaðkomandi hagsmunaaðila til fundar og vonandi mun það leiða til þess að eldfjallafriðland verði að veruleika.

Nánar á heimasíðu minni, www.arnithor.is

 


Fleiri bekki í borgina

Framkvæmdaráð Reykjavíkur samþykkti í gær tillögu okkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um að fela framkvæmdasviði, í samvinnu við hverfisráð, að kortleggja staðsetningu og fjölda bekkja í einstökum hverfum og koma með tillögur um endurbætur og fjölgun bekkja og nýjar staðsetningar.

Tillagan, sem ég var fyrsti flutningsmaður að, var lögð fram í kjölfar svars við fyrirspurn minni frá síðasta fundi ráðsins um fjölda bekkja í borginni.  Að undanförnu hafa talsvert margir, ekki síst rosknir borgarbúar, haft samband við mig og beðið um að bekkjum í borginni yrði fjölgað.  Einkum er tilefni til að fjölga bekkjum á stígum, útivistarsvæðum, við verslunar- og hverfismiðstöðvar, við íþrótta- og sundstaði o.s.frv.  Tillagan var samþykkt samhljóða og má því búast við að áður en langt um líður verði hafin bekkjavæðing borgarinnar.

Orkuveitan lætur undan þrýstingi

Fjölmiðlar hafa greint frá bréfi okkar Svandísar Svavarsdóttur til stjórnarformanns Orkuveitunnar.  Tilefnið var að Grími Björnssyni jarðfræðingi var bannað að tjá sig opinberlega um málefni Kárahnjúkavirkjunar og vísað til starfsreglna fyrirtækisins.  Við mótmæltum þessari ákvörðun og sama hafa fjölmargir aðrir aðilar gert.  Nú hefur það gerst að stjórnarformaður og forstjóri Orkuveitunnar hafa aflétt þagnarbindindinu af Grími Björnssyni og þannig hefur Orkuveitan látið undan almennum þrýstingi og er það vel.  Við Svandís bíðum samt enn eftir skriflegu svari Guðlaugs Þórs (bréfið okkar má lesa hér)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband