Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.5.2006 | 07:58
Landspítalinn og sjónarmið Vinstri grænna
Sjónarmið okkar Vinstri grænna um að endurmeta eigi umfang og staðsetningu nýs Landspítala hefur vakið verðskuldaða athygli. Margir fjölmiðlar taka undir þetta sjónarmið og hrósa okkur fyrir hugrekki, stundum "þrátt fyrir fyrra aðkomu VG að málinu." Og mér heyrist að ýmsir úr hinum flokkunum jánki líka.
Það er mjög eðlilegt að menn staldri við á þessum tímapunkti málsins. Sannleikurinn er sá að þegar borgin fjallaði um málið á sínum tíma, var fyrst og fremst verið að taka afstöðu til þeirrar grundvallarspurningar hvort spítalinn ætii að byggjast upp við Hringbraut, í Fossvogi eða í Garðabæ. Heilbrigðisráðherra ákvað að leggja áherslu á Hringbraut og borgin féllst á það. Á þeim tíma lá ekki fyrir nein tillaga að skipulagi þannig að ómögulegt var að gera sér grein fyrir umfangi bygginganna. Síðan kom fram tillaga spítalans að rammaskipulagi svæðisins en borgin átti enga aðkomu að þeirri vinnu. Sú tillaga var kynnt fyrir skipulagsráði borgarinnar nú fyrir fáum vikum. Þá fyrst gat skipulagsráð byrjað að fjalla um málið og þá er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir myndi sér skoðun á málinu.
Það höfum við Vinstri græn gert. Við teljum ástæðu til að fara betur yfir skipulagsforsendur, meta hvernig þessi miklu mannvirki fara í landinu og í nálægðinni við smágerða byggð Þingholtanna, athuga umferðartengingar og umferðarsköpun o.fl. í þeim dúr. Þá hafa margir í heilbrigðisstétt gagnrýnt þá ofuráherslu sem er á nýja byggingu þegar ýmsir hlutar í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins eru fjársveltir, s.s. hin almenna heilsugæsla og þjónusta við aldraða.
Enda þótt lengi hafi verið beðið eftir úrbótum í húsnæðismálum Landspítala er mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að skoða með opnum þær tillögur sem nú hafa verið að fæðast um skipulag svæðisins. Það er enn enginn skaði skeður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.4.2006 | 14:05
Gera þarf átak í málum aldraðra
Við Steingrímur Joð skrifuðum saman grein sem birtist í Morgunblaðinu á Skírdag. Þar fjöllum við um nýtilkomna umhyggju Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum. Júlíus Vífill Ingvarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sendir okkur svo tóninn í blaðinu í dag. Finnst honum greinilega kynlegt að við skulum ekki vilja færa málefni aldraðra til sveitarfélaga fyrr en "almennileg ríkisstjórn kemst til valda."
Það þarf ekki að koma nokkrum á óvart að við skulum gjalda varhug við því að menn hlaupi nú til og ætli að lagfæra stöðuna í málefnum aldraðra með því að flytja ábyrgðina til sveitarfélaga. Sannleikurinn er sá að það skortir sárlega fjármagn inn í þessa þjónustu og það fjármagn verður ekki til við það eitt að færa málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga. Enda hefur formaður Sjálfstæðisflokksins tekið af allan vafa um að sveitarfélögin myndu aldrei fá neitt meira í meðgjöf til þessara mála en það sem ríkið leggur af mörkum í dag. Þess vegna finnst okkur þetta vera lýðskrum.
Augljóst er að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins, nú með Framsóknarflokknum og áður með Alþýðuflokknum, hafa skert verulega fjármagn til uppbyggingar í málefnum aldraðra, sennilega um 2,5-3 milljarða á síðustu 15 árum. Þetta eru umtalsverðir fjármunir. Halda menn að sami Sjálfstæðisflokkur myndi standa sig betur í þessum málum ef þau væru komin til sveitarfélaga?
Reykjavíkurborg hefur verið í forystu í mörgum velferðarmálum á liðnum árum. Nægir þar að nefna stórkostlegt átak í uppbyggingu í leikskólamálum, einsetningu grunnskólans og innleiðingu skólamáltíða o.fl. Nú er röðin sannarlega komin að öldruðum. Þar þarf einkum að gera þrennt að mínu mati:
- Samræma heimahjúkrun og heimaþjónustu þannig að sá sem þjónustunnar nýtur sé ávallt í fyrirrúmi.
- Byggja fleiri hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu þar sem nú eru um 400 manns í brýnni þörf. Á næsta kjörtímabili þarf að eyða þessum biðlista.
- Stuðla að því að aldraðir, sem það geta og kjósa, eigi kost á að búa lengur heima hjá sér, m.a. með því að auka afslátt tekjulágra aldraðra af fasteignagjöldum.
Þessu til viðbótar verður svo að koma í auknum mæli á móts við óskir Félags eldri borgar og Samtaka aldraðra um lóðir fyrir íbúðir á þeirra vegum.
Við í Vinstri grænum viljum vinna að framgangi þessara mála á næsta kjörtímabili af fullum krafti. Við treystum hins vegar ekki ríkisstjórnarflokkunum til þess að ná árangri á þessu sviði, frekar en þeir hafa gert hingað til. Þess vegna er brýnt að VG fá góða kosningu í vor en því þarf svo að fylgja eftir í þingkosningum að ári og tryggja löngu tímabær ríkisstjórnarskipti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2006 | 19:52