20.10.2007 | 16:41
Kærleikurinn umber ALLT - tækifæri kirkjunnar
Kirkuþing stendur nú yfir. Samkvæmt fréttum og m.a. því sem haft er eftir biskupi, munu málefni samkynhneigðra verða talsvert til umræðu. Hin íslenska þjóðkirkja hefur fram að þessu streist á móti því að vígja samkynhneigt fólk í hjónaband eins og gagnkynhneigt.
Það var fróðlegt málþing haldið í Þjóminjasafninu í gær um þessi málefni og mörg áhugaverð erindi flutt. Fjarvera biskups og helstu forvígismanna kirkjunnar var æpandi. En sem betur fer eru starfandi innan þjóðkirkjunnar margir prestar sem láta sig málefni samkynhneigðra varða og vilja að kirkjan sýni kærleik sinn í verki og mæti samkynhneigðu fólki á sama grundvelli og öðrum einstaklingum. Þeir eiga heiður og hrós skilið fyrir framsýni, réttsýni og kjark.
Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður Vinstri grænna, hefur ásamt þingmönnum úr tveimur öðrum stjórnmálaflokkum, lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir að í landinu gildi ein hjúskaparlög, þar sem hjónaband verði skilgreint sem hjúskapur tveggja einstaklinga (án kyngreiningar). Í því felst mikil réttarbót en umfram allt snýst það um jafnrétti. Að tveir einstaklingar geti stofnað til hjónabands ef þeir svo kjósa og það eigi bæði við um hjónaband karls og konu en einnig um hjónaband einstaklinga af sama kyni.
Grundvöllur kristinnar trúar er kærleikurinn. Þjóðkirkja sem snýr baki við tilteknum hluta þjóðarinnar og treystir sér ekki til að horfa á alla þegna sína jafnt, heldur vill mismuna þeim, getur ekki staðið undir nafni sem þjóðkirkja. Í fyrra bréfi Páls til Korintumanna standa þau fleygu orð sem ég vísa til í fyrirsögninni um kærleikann: "Hann ... umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi." [1. Kor. 13:7]
Þjóðkirkjan hefur nú tækifæri á yfirstandandi kirkjuþingi til að sýna í verki að hún umberi allt líkt og kærleikurinn. Mun hún grípa það tækifæri - eða missa það úr höndum sér?