Pabbi kvaddur

Útför föður míns, Sigurðar Kr. Árnasonar, fór fram frá Háteigskirkju í dag.  Það var falleg og notaleg stund.  Fjölmargir ættingjar, vinir og samstarfsfólk pabba mætti í kirkju og í erfidrykkju á eftir.  Sr. Pálmi Matthíasson jarðsöng og fórst honum það einkar vel úr hendi og var persónulegur, enda hafði hann þekkt pabba frá því hann var smástrákur á Akureyri.  Tónlistin var líka mjög falleg, Karlakór Reykjavíkur, undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar, skilaði sínu óaðfinnanlega og nutu þeir liðstyrks Marteins H. Friðrikssonar organista og trompetleikaranna Ásgeirs H. Steingrímssonar og Eiríks Arnar Pálssonar.  Framlag þeirra setti sérstakan hátíðarblæ á tónlistarflutninginn.  Þá lék bróðursonur minn, Sindi Már Eydal Friðriksson, fallegt enskt dægurlag, Hinsta kveðja, á píanó af mikilli tilfinningu og frændi minn, Stefán Arngrímsson óperusöngvari, söng Bára blá við undirleik Marteins.  Allt yfirbragð athafnarinnar bar þess merki að við vorum að kveðja mann sem hafði helgað hafinu starfsævi sína, í um hálfa öld.

Fjölskyldan er þakklát öllum þeim sem heiðruðu minningu hans með nærveru sinni í dag, með kveðjum, skrifum eða á annan hátt.

Minningargreinar um pabba má m.a. lesa á mbl.is, http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1177594;minningar=1

 


Bloggfærslur 28. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband