Verðskulduð viðurkenning

Félagi minn og vopnasystir úr hinni pólitísku baráttu, Svandís Svavarsdóttir, var kosin maður ársins 2007 af hlustendum Rásar 2.  Það er verðskulduð viðurkenning.  Fátítt er að einstaklingar breyti gangi stjórnmálanna nánast með eigin hendi eins og Svandísi tókst nú á haustmánuðum þegar hún gekk á móti straumnum og til baráttu gegn spillingu og áformum um einkavinavæðingu orkuauðlinda borgarbúa.  Þeirri baráttu lyktaði með fullu sigri heiðarleika og lýðræðis og falli meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eftir 16 mánaða valdasetu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði beðið eftir óþreyjufullur í 12 ár, sprakk hann á limminu og hrökklaðist frá völdum.  Við tók nýr meirihluti félagshyggju og jöfnuðar og verður því ekki á móti mælt að Svandís Svavarsdóttir átti mestan þátt í að búa þann nýja meirihluta til.  Vissulega hefði hún átt að verða borgarstjóri í kjölfarið en í hennar huga skiptu vegtyllurnar ekki máli, heldur pólitíkin og verkefnin.  Það skiptir máli að áherslur Vinstri grænna hafa náð góðum hljómgrunni innan nýs meirihluta og það er með þeim hætti sem Svandís sýnir yfir hvaða pólitískum styrk hún býr.

Ég óska henni hjartanlega til hamingju með þá miklu viðurkenningu sem hún hefur hlotið fyrir elju sína og heiðarleika.  Hún hefur sannarlega unnið fyrir þessari viðurkenningu og meira en það.


mbl.is Svandís maður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband