1.4.2007 | 10:59
Nú er rétt að staldra við
Hafnfirðingar tóku þá skynsömu ákvörðun í kosningu um stækkun álversins í Straumsvík að segja nei - hingað og ekki lengra. Það er kominn tími til að staldra við og ljá umræðunni um atvinnu- og umhverfismál nýja hugsun. Þingkosningarnar 12. maí nk. þurfa að innsigla þann vilja almennings sem endurspeglast í Hafnarfjarðarkosningunni í gær.
Það er ótrúlegt að eftir alla umræðuna um umhverfis- og náttúruverndarmál, umræðuna um óstöðugleikann í efnahagsmálum, viðskiptahallann og svimandi háa vexti, skuli enn örla á því viðhorfi að það sé svartur dagur í sögu lands og þjóðar að Hafnfirðingar skuli hafa hafnað stækkuninni. Og að nú þurfi að hefjast þegar handa við Helguvík eða Húsavík!
Nei, einmitt núna er lag til að staldra við, halda áfram og ljúka við vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, skoða af einhveri alvöru margvíslega aðra atvinnukosti sem henta betur okkar litla samfélagi og koma landsmönnun öllum til góða, hvar sem þeir búa. Sannleikurinn er sá að með gríðarlega mikilli innspýtingu inn á eitt atvinnusvæði, eins og eitt stykki álver sannarlega er, verður rýmið í litlu efnahagskerfi okkar nánast ekkert fyrir fjárfestingu í öðrum greinum og um leið verða aðrir landshlutar algerlega afskiptir í atvinnumálum. Á sama tíma eykst viðskiptahallinn með alvarlegum afleiðingum fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar, t.d. sjávarútveg og ferðaþjónustu, og vextir halda áfram að hækka. Það leiðir til vaxandi skuldasöfnunar heimilanna og atvinnulífsins í landinu. Hverjir vilja virkilega halda áfram á þessari braut?
Við eigum marga góða kosti í atvinnumálum. Hvað mikilvægast í því efni er að hlúa að sprotafyrirtækjum og nýsköpun og þróun, stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í hverjum landshluta, smáum og meðalstórum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, smáiðnaði, handverki, hugbúnaði, menningu, listum og sögu svo fátt eitt sé nefnt. Ennfremur þarf að leggja enn meiri kraft í menntun og rannsóknir til að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Tækifærin eru víða ef stjórnvöld bera gæfu til að opna augun og skapa góð skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf í stað þess að einblína á eina allsherjarlausn sem þar að auki veldur óstöðugleika, þenslu, háum vöxtum og hefur einungis lítil staðbundin áhrif á vinnumarkað. Atvinnustefna núverandi stjórnvalda sver sig óþyrmilega í ætt við stórkarlalegar lausnir í ráðstjórnarríkjum víða um heim og ætti að vera löngu aflögð. Tækifærið til að segja skilið við hana er þann 12. maí nk. Látum það tækifæri ekki ónotað.
![]() |
Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |