17.4.2007 | 17:39
VG fagnar því að Hólmsheiði sé talin besti flugvallarkosturinn
Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna sendi nú síðdegis í dag frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Á fundi borgarstjórnar í dag fór fram umræða utan dagskrár um málefni Reykjavíkurflugvallar að beiðni Vinstri grænna.Vinstri græn fagna því að niðurstaða starfshópsins sem unnið hefur að úttekt á flugvallarkostum, bendir til þess að flugvöllur á Hólmsheiði sé besti kosturinn frá þjóðhagslegu sjónarmiði.
Sú staðsetning sameinar kosti þess að byggja upp Vatnsmýrina en um leið tryggja góðan og greiðan aðgang landsmanna allra að höfuðborginni sem við Vinstri græn teljum óhjákvæmilegt. Vinstri græn fagna þeirri samstöðu sem virðist geta tekist í borgarstjórn um nýja staðsetningu innanlandsflugvallar í Reykjavík.
Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna leggur kapp á að samhliða veðurrannsóknum verði hafin vinna við umhverfismat hinna mismunandi flugvallarkosta, en telur þó að flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur komi ekki til álita.
![]() |
Fagna niðurstöðu skýrslu um Hólmsheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2007 | 17:35
Mikil fylgisaukning VG í Suðurkjördæmi
Ný skoðanakönnun sem birt var í dag um fylgi flokka í Suðurkjördæmi bendir til þess að fylgi Vinstri grænna allt að því fjórfaldist frá síðustu kosningum. Og jafnvel þótt um tvöföldun væri að ræða þá væri það í sjálfu sér stórsigur, enda slíkt fátítt í íslenskum stjórnmálum.
Raunar hafa skoðanakannanir að undanförnu verið misvísandi um fylgi flokka. Skýrist það að mati stjórnmálafræðinga einkum af mismunandi aðferðum þeirra aðila sem eru að kanna viðhorf almennings. Þannig hefur Capacent/Gallup allt aðrar aðferðir en t.d. Fréttablaðið og Blaðið. En það sem virðist sameiginlegt öllum könnununum er að fylgi núverandi stjórnarflokka annars vegar og annarra framboða hins vegar er ámóta mikið þegar tekið er tillit til skekkjumarka.
Í því felst að ríkisstjórnarflokkarnir munu halda áfram stjórnarsamstarfi fái þeir til þess umboð, en einnig hitt að það getur vel tekist að fella stjórnina. Það gerist þó ekki af sjálfu sér og við sem viljum knýja fram breytta stjórnarstefnu verðum að leggja okkur mjög fram á þeim vikum sem eftir eru til kosninga.
Könnunin í Suðurkjördæmi sýnir að vísu sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokkurinn missir mikið fylgi. Vinstri græn eru að bæta mjög mikið við sig en Samfylkingin tapar nokkrum prósentum. Frjálslyndir missa líka mikið fylgi. Íslandshreyfingin mælist varla. Þótt margt geti gerst á þeim ríflega 3 vikum sem eftir eru til kosninga eru í öllum könnunum sterkar vísbendingar um að þjóðin vilji nýja ríkisstjórn. Þær áherslur sem Vinstri græn hafa kynnt í umhverfismálum, velferðarmálum, efnahags- og skattamálum, atvinnu- og byggðámálum, jafnréttismálum og utanríkismálum þurfa nauðsynlega að fá rými við ríkisstjórnarborðið. En til þess þarf að tryggja Vinstri grænum góða kosninga þann 12. maí.
![]() |
VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |