2.4.2007 | 22:00
Afleikir Jóns
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er fremur seinheppinn í yfirlýsingum sínum að mínu mati. Í kjölfar almennrar og lýðræðislegrar kosningar í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, þar sem Hafnfirðingar höfnuðu stækkuninni, lýsir hann því yfir að bæjaryfirvöld séu ekki bundin af þeirri niðurstöðu og er á honum að skilja að þau geti sem best haft hana að engu.
Í viðtali á Stöð 2 í kvöld lýsir hann svo þeirri skoðun sinni að samstarf við flokka sem vilja ekki halda áfram á stóriðjubrautinni komi ekki til greina. Er það kannski ekki úr vegi að rifja upp viðtal við þann sama Jón í Morgunblaðinu 28. júní sl. en þar er haft eftir honum: "Hann [Jón] segir marga standa í þeirri trú að hér sé rekin virk stóriðjustefna en mikilvægt sé að leiðrétta þennan misskiling."
Þarna er formaður Framsóknarflokksins, þá nýlega orðinn iðnaðarráðherra, að afneita tilveru stóriðjustefnunnar. Nú lýsir hann því yfir að hann vilji ekki vinna með neinum nema þeim sem vilja viðhalda stóriðjustefnunni!! Í hve marga hringi ætlar maðurinn eiginlega?
Þessi útspil formanns Framsóknarflokksins, nú þegar 6 vikur eru til þingkosninga eru ekki pólitísk klók. Enda þótt margir (og e.t.v. flestir) áhrifamenn innan flokksins telji nú að líkur á því að núverandi stjórnarflokkar fái afl til að sitja áfram séu hverfandi, er vitaskuld ekki útséð um hvernig ríkisstjórnarmynstur geta komið til álita. Ætlar Framsóknarflokkurinn að dæma sig úr leik fyrirfram?
Við í VG höfum t.d. ekki útilokað samstarf við neinn flokk þótt við eigum vissulega meiri samleið með núverandi stjórnarandstöðuflokkum en stjórnarflokkum. Nýlegt útspil Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum hefur vissulega komið illa við okkur mörg í VG, en á þessu stigi er ekki rétt að útiloka samstarf enda alls óvíst hvaða mál verða sett á oddinn í stjórnarmyndunarviðræðum. Hið sama hlýtur að eiga við um Framsókn. Þótt flokkurinn hafi verið í forystu fyrir stóriðjustefnunni og umhverfisfórnum sem við í VG höfum barist hatrammlega gegn, er aldrei að vita nema þar á bæ séu menn reiðubúnir að hugsa þau mál upp á nýtt að loknum kosningum.
Á síðasta kjörtímabili störfuðu Vinstri græn, Samfylking og Framsóknarflokkur saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og náðu margháttuðum árangri þótt vissulega væru skoðanir oft skiptar. Á þessu kjörtímabili starfa þessir flokkar saman í meirihluta í Árborg. Ber að skilja yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins þannig að hann útiloki þess háttar stjórnarsamstarf á landsvísu? Ef svo er, þá er það athyglisvert en augljóslega ekki klókt. Þessi útspil Jóns Sigurðssonar eru afleikir og raunar afar ósennilegt að raunsæir og reyndir stjórnálamenn í forystu flokksins bakki formanninn upp í þessari afstöðu. Við sjáum hvað setur.
2.4.2007 | 12:09
Tilefnislausar áhyggjur
Í kjölfar álverskosningar í Hafnarfirði hafa ýmsir, m.a. iðnaðarráðherra, lýst áhyggjum af því að sem við tekur ef vinstri flokkarnir komast til áhrifa í landsstjórninni. Talar hann þar um "stóra stopp" og segir að stóriðjustefnan sé alls ekki dauð, heldur haldi hún áfram.
Þetta er auðvitað mjög skondið. Þegar umræddur ráðherra tók við formennsku í Framsóknarflokknum í haust lýsti hann því yfir að Íraksstríðið væri mistök, og að engin stóriðjustefna væri til hjá stjórnvöldum. Maður verður nú hálfruglaður á þessum misvísandi yfirlýsingum.
En af hverju að hafa áhyggjur? Vissulega verður breytt um stefnu í fjölmörgum málum ef stjórnin fellur í kosningunum 12. maí nk. Hvað er það sem við í VG viljum t.d. stöðva og veldur Jóni Sigurðssyni svona miklu hugarangri? Tökum nokkur dæmi um það sem við viljum stöðva:
- hávaxtastefnan og aukin skuldabyrði heimilanna
- viðskiptahallinn
- einkavæðing samfélagsþjónustunnar
- launamunur kynjanna
- vaxandi misskipting milli þjóðfélagshópa
- einhæf atvinnuuppbygging
- byggðaflótti
- niðurskurður í samgöngumálum
- skuldasöfnun sveitarfélaga
- stuðningur við árásarstefnu Bandaríkjanna
- kynbundið ofbeldi, vændi og mansal
- félagslegur ójöfnuður
- eyðilegging á náttúruperlum landsins
Þetta er meðal þess sem við viljum ekki standa að, en vitaskuld getur verið að ríkisstjórnarflokkarnir vilji halda áfram á þessari braut. Vinstrihreyfingin grænt framboð vill breyta um stjórnarstefnu og leggja m.a. áherslu á:
- stöðugleika í efnahagsmálum
- lækkun vaxta
- jafnvægi í gengismálum
- fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf um allt land
- að sérstaklega verði hlúð að starfsskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreina
- að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki búi við góð skilyrði
- að styrkum stoðum verði rennt undir lífræna matvælaframleiðslu
- réttlátt skattkerfi m.a. með hækkuðum skattleysismörkum
- félagslegan jöfnuð
- mannsæmandi kjör fyrir aldraða og öryrkja
- samfélagsþjónustu fyrir alla óháð efnahag
- stóreflt og fjölþætt menntakerfi, allt frá leikskóla og upp í háskóla
- jafnrétti kynja í raun
- blómlegt fjölmenningarlegt samfélag
- markvissar aðgerðir í byggða- og samgöngumálum, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar
- umhverfis- og náttúruvernd í verki
- sjálfstæða utanríkisstefnu
Og margt margt fleira. Eru það þessi stefnumál sem valda iðnaðarráðherra hugarangri? Það er fásinna að láta eins og allt sé í voða ef skipt verður um ríkisstjórn. Raunar er það löngu orðið tímabært. Áhyggjur formanns Framsóknarflokksins og ýmissa annarra af hugsanlegum stjórnarskiptum eru tilefnislausar. Þvert á móti getur vel verið að ríkisstjórnarflokkarnir séu orðnir svo þreyttir á hvor öðrum að það færði þeim raunverulega hugarró að þurfa ekki að sitja lengur saman við ríkisstjórnarborðið. Kannski þeir ættu að fara að venja sig við þá tilhugsun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)