9.4.2007 | 21:45
Stjórnmálaleiðtogar í Kastljósi
Fyrsti umræðuþáttur leiðtoga stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar í vor, var í Kastljósi nú í kvöld. Þátturinn fór hægt af stað en eftir því sem á leið færðist meira fjör í leikinn.
Ég var að sjálfsögðu mjög ánægður með minn mann. Steingrímur J. var yfirvegaður og kurteis, en um leið fylginn sér og ákveðinn og kom málstað okkar Vinstri grænna vel á framfæri. Umræðan um stórðjumálin, velferðarmálin og skattamálin sýndi vel muninn á stefnu núverandi ríkisstjórnar og stjórnarandstöðunnar.
Stóriðjustefnan er í raun komin í þrot og meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn viðurkennir það, þótt formaður hans hafi reynt að verja stóriðjustefnuna með hangandi hendi. Steingrími tókst líklega best upp í umræðunni um skattamálin, einkum vegna þess að hann kom vel á framfæri þeirri óréttlátu skattastefnu sem rekin hefur verið af núverandi stjórnarflokkum með aukinni misskiptingu og ennfremur skýrði hann vel út á skýru og einföldu máli kjarnann í skattastefnu Vinstri grænna.
Í heildina fannst mér Steingrímur bera af, en einnig komust Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde vel frá sínu, þótt formaður Sjálfstæðisflokksins mætti alveg létta brúnina endrum og eins. Guðjóni Arnari tókst ekki vel að rökstyðja stefnu flokks síns í málefnum innflytjenda og Jón Sigurðsson virkaði á mig eins og biluð plata sem annars vegar spilar bara stoppsönginn gagnvart stjórnarandstöðunni og hins vegar hálftilbiður Sjálfstæðisflokkinn. Ekki góð taktík. Ómar var í fyrsta skipti í hlutverki sínu sem stjórnmálaleiðtogi og komst ágætlega frá því en skýrði auðvitað ekkert út hvað "hægri" stefnan hans gengur út á. Það kemur vonandi síðar.
Stjórnendurnir, Sigmar og Jóhanna Vigdís, stóðu sig prýðilega og höfðu ágæta stjórn á þættinum og komust yfir þokkalega mikið. Sem sagt, ég var bara ánægður með þáttinn.