Baugalín styrkir stöðu Sjálfstæðisflokksins

Hin nýja ríkisstjórn hefur tekið á sig mynd.  Það er ljóst að hlutur Samfylkingarinnar varðandi skiptingu ráðuneyta er rýrari en hlutur Framsóknarflokksins var í fráfarandi stjórn.  Sjálfstæðisflokkurinn fær í raun 7 ráðuneyti og Samfylking 5 í stað helmingaskipta sem áður ríktu.

Sjálfstæðisflokkurinn fær bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti en Samfylkingin mun þurfa að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp í tvennt milli Össurar og Björgvins.  Auk forsætis- og fjármálaráðuneyta fær Sjálfstæðisflokkurinn útgjaldafrekustu ráðuneytin, heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti og þegar hefur nýr heilbrigðisráðherra lýst yfir því að hafin verði einkavæðing í heilbrigðisgeiranum.

Ekki verður annað séð en að hin nýja ríkisstjórn og verkaskipting innan hennar styrki stöðu Sjálfstæðisflokksins mjög og gleymdar eru allar heitstrengingar um hlutverk Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum.  Ég man a.m.k. ekki eftir því að þar hafi verið lagt upp með að Samfylkingin ætti að auka vægi Sjálfstæðisflokksins og tryggja setu hans á valdastólum.  En allt um það.  Samfylkingin hefur þá um leið tekið sér sömu stöðu og Alþýðuflokkurinn hafði í Viðreisn og Viðeyjarstjórn, sem hækja eða göngugrind Sjálfstæðisflokksins. 

Við völdum mun nú taka enn ein hægri stjórnin, stjórn auðvalds og sérhyggju, ójafnvægis í byggðamálum og tvískinnungs í umhverfismálum.  Sjálfsagt er þó, með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi, að vonast eftir því að stjórninni farnist vel.  Stjórnarandstaðan mun þau ef að líkum lætur hafa í nógu að snúast.


Ráðherrakapallinn

Það getur verið vandasamt verk að manna ríkisstjórn.  Ekki vegna þess að það sé ekki nóg framboð, heldur hitt að stólarnir eru takmarkaðir og margs konar sjónarmið þarf að hafa í huga varðandi samsetningu, s.s. kyn, kjördæmi, aldur, reynslu, röð á framboðslista o.fl.

Ég spái því að ekki verði um fækkun ráðherra frá því sem nú er, þeir verði 12, 6 frá hvorum flokki.  Í hlut Sjálfstæðisflokks komi forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Samfylkingin mun fara með utanríkisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti, menntamálaráðuneyti, og félagsmála- og tryggingaráðuneyti.

Ráðherrar gætu t.d. orðið Geir H. Haarde, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Árni M. Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson, Björn Bjarnason og Arnbjörg Sveinsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Ingibjörg S. Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján Möller og Björgvin G. Sigurðsson frá Samfylkingu.

Þetta skýrist að vísu allt áður en yfir lýkur.


Kallar Brown Breta heim frá Írak?

Það liggur fyrir að Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands til 10 ára, tekur við embætti forsætisráðherra í lok næsta mánaðar.  Þá lýkur áratugar löngum valdaferli Tony Blair.  Gordon Brown, sem verið hefur náinn samstarfsmaður Blair í breska Verkamannaflokknum og í ríkisstjórn um langt skeið, er líklegur til að breyta um stefnu í mörgum mikilvægum málum.  Hann mun þó fara sér hægt og taka ákveðin en varfærin skref í því efni. 

Gordon Brown studdi ákvörðun Blair um að fylgja Bandaríkjunum í blindni í Íraksstríðið.  Með hálfum hug þó.  Það er vitað að innan bresku stjórnarinnar mun Brown heldur hafa latt til stríðsrekstursins en hitt, en hann valdi þó ekki þá leið sem ýmsir forystumenn gerðu, eins og Robin Cook utanríkisráðherra, að segja af sér í mótmælaskyni við stefnu Blair.  Brown var þá með hugann við að verða arftaki Blair sem leiðtogi Verkamannaflokksins og næsti forsætisráðherra og því gat hann ekki hætt frama sínum með þeim hætti. 

Afstaða Gordon Brown til Bandaríkjanna er áreiðanlega önnur en afstaða Blair.  Gordon mun frekar styrkja og efla tengsl bresku stjórnarinnar við Demókrataflokkinn, eins og hefðbundið er, en smám saman fjarlægjast Repúblikanaflokk Bush forseta.  Þetta er stjórnvöldum í Bandaríkjunum áreiðanlega löngu ljóst.  Og munu þau því hafa áhyggjur af því hvaða stefnu Brown mun taka í málefnum Íraks. 

Samkvæmt skoðanakönnunum er flest sem bendir til þess að frambjóðandi demókrata muni bera sigur úr býtum í forsetakosningunum þar í landi seint á næsta ári.  En það eru þó bara skoðanakannanir og margt getur breyst á löngum tíma í pólitík.  Brown mun því sennilega fara sér hægt og hafa náið samráð við forystumenn Demókrata.  Hann mun nefnilega seint ganga lengra en Demókratar geta fellt sig við og stutt.  Það verður spennandi að fylgjast með þróun mála í þessu efni á næstunni.  Mestar líkur eru nefnilega á að Gordon Brown muni einmitt leita leiða til að hefja heimflutning breskra hermanna frá Írak.  Slík ákvörðun yrði til vinsælda fallin heima fyrir og gæti styrkt stöðu hans og Verkamannaflokksins fyrir næstu kosningar sem væntanlega verða haldnar innan 3ja ára.


Bloggfærslur 22. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband