25.5.2007 | 20:27
Vandinn á Vestfjörðum
Fréttir berast af erfiðleikum í atvinnumálum á Vestfjörðum. Nú síðast er það sjávarútvegsfyrirtækið Kambur á Flateyri sem hefur sagt upp starfsfólki og kvótinn væntanlega á leið burt. Bæjarstjórinn telur að vísu að bærinn eigi að nýta forkaupsrétt og tryggja að veiðiheimildirnar verði áfram á staðnum. Við sjáum hvað setur í því efni.
Öllum er hygg ég löngu ljóst að fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarmála, kvótakerfið og einkum framsalið, á drjúgan þátt í hvernig komið er fyrir mörgum sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. Stjórnvöld hafa því miður ekki horfst í augu við rætur vandans og líklega eru of áhrifamiklir hagsmunaaðilar í kringum stjórnarflokkana, einkum Sjálfstæðisflokkinn, til þess að nokkuð verði að gert.
Á undanförnum árum hefur Samfylkingin haldið uppi harðri gagnrýni á stjórnkerfi fiskveiðimála og lýst ásetningi sínum að gera verulegar breytingar á því ef flokkurinn kæmist í aðstöðu til þess. Nú er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, að vísu hægri stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en engu að síður hljóta þær kröfur að vera gerðar að til aðgerða verði gripið til að taka til í þessu rangláta kerfi.
Því miður gefur stjórnarsáttmálinn nýi engin fyrirheit um að svo verði gert. Stefnumið Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum hafa í engu ratað inn í þann sáttmála, frekar en í mörgum öðrum málaflokkum. Vandinn á Vestfjörðum er þess eðlis að það þolir enga bið að á honum verði tekið. Vinstri græn munu í stjórnarandstöðu beita sér fyrir því að málefni Vestfjarða sérstaklega verði tekin til umræðu og viðunandi og varanlegra lausna leitað. Það mun ekki veita af kröftugu aðhaldi við þá ríkisstjórn sem nú er að stíga sín fyrstu skref, henni þarf að halda við efnið.