Vorþing nýs Alþingis

Boðað hefur verið að nýkjörið Alþingi komi saman á fimmtudag í næstu viku.  Fyrir mig sem nýjan þingmann verður spennandi að takast á við þau verkefni sem bíða, bæði á vorþinginu sjálfu og eins í framhaldinu.

Væntanlegt vorþing stendur ef að líkum lætur í 1-2 vikur og hefur ríkisstjórnin boðað ýmis mál sem lögð verða fyrir þingið.  Meðal annars eru nefnd málefni barna og aldraðra og einnig breytingar á stjórnarráðslögum til að hrinda í framkvæmd þeim breytingum á verkefnum ráðuneyta sem koma fram í samkomulagi stjórnarflokkanna.

Stjórnarandstaðan gegnir mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi.  Hún er jafnvel aldrei eins mikilvæg og þegar ríkisstjórn styðst við mikinn meirihluta á Alþingi og þegar flestir fjölmiðlar hafa með einum eða öðrum hætti stutt við þá flokka sem mynda ríkisstjórnina.  Um leið er brýnt að skoða rækilega starfsaðstæður stjórnarandstöðunnar eins og sumir stjórnarþingmenn hafa raunar haft orð á.  Verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða frumkvæði ríkisstjórnin mun hafa í þeim efnum.

Að loknu vorþingi verður næsta verkefni að undirbúa þinghaldið næsta vetur.  Að venju mun Alþingi koma saman að nýju 1. október en í aðdraganda þess munu þingmenn leggja drög að þeim þingmálum sem þeir hyggjast flytja og skipuleggja starfið.  Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða í landsmálum.  Undanfarin 13 ár hef ég verið borgarfulltrúi í Reykjavík og haft bæði gaman og gagn af þeim störfum og komið margvíslegum málum fram.  Það verður vissulega ákveðinn söknuður sem fylgir því að hætta afskiptum af borgarmálum þegar þing kemur saman í haust, en vonandi gefst þó færi á að halda tengslum við sveitarstjórnarmálin að vissu marki, þótt ég setjist nú á Alþingi.


Bloggfærslur 26. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband