Frábær þáttur um Vinstri græn í sjónvarpi

Sjónvarpið sýndi í kvöld kynningarþátt um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.  Þar kynna Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Benedikt Davíðsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir helstu baráttumál flokksins.

Þátturinn var sérstaklega líflegur og skemmtilegur og var ólíku saman að jafna þegar myndband Sjálfstæðisflokksins kom í kjölfarið, sem reyndist þá vera mánudagsviðtal við Geir Haarde.

Kynningarþáttinn um VG má sjá hér.


Skemmtilegur fundur í Brimborg

Í hádeginu í dag var efnt til almenns stjórnmálafundar í bifreiðaumboðinu Brimborg.  Þetta var skemmtilegt frumkvæði hjá fyrirtækinu að bjóða fulltrúum allra framboða að koma og ræða um samgöngumál og málefni bílgreina.  Matsalurinn var þétt setinn og stemningin góð.

Þarna mætti ég fyrir hönd Vinstri grænna en aðrir frambjóðendur voru Össur Skarphéðinsson (S), Birgir Ármannsson (D), Jónína Bjartmarz (B), Magnús Þór Hafsteinsson (F) og Ómar Ragnarsson (I).  Mikið var rætt um samgöngumálin hér á höfuðborgarsvæðinu, Sundabrautina vitaskuld, Suðurlandsveg o.fl.  Umræðurnar snérust m.a. um fjármögnun, skattlagningu og syndaregistur ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.

Birgir og Jónína voru í nokkurri vörn fyrir hönd stjórnarinnar, einkum Birgir, en Össur sótti hart að stjórnarflokkunum (var samt ekki alltaf mjög málefnalegur).  Ómar lét móðann másan og fór á flug eins og honum er lagið, talaði um lengdar- og breiddargjöld á bíla.

Af minni hálfu kom fram mikilvægi þess að skoða samgöngumálin í samhengi við umhverfismál, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka almenningssamgöngur og breyta skattlagningu bíla þannig að hún samræmist betur markmiðum í umhverfis- og umferðaröryggismálum.

Sem sagt, skemmtilegur fundur í Brimborg og vona að starfsfólkið þar hafi haft gagn og gaman að.


Bloggfærslur 7. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband