8.5.2007 | 22:08
Góð frammistaða VG kvenna í Kastljósi
Umhverfismál og atvinnu- og byggðamál voru viðfangsefni Kastljóssins í kvöld. Fyrir hönd okkar Vinstri grænna, mættu Kolbrún Halldórsdóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Kolbrún talaði um umhverfismálin og eins og allir sem fylgst hafa með þjóðmálum vita, hefur Kolbrún verið í stafni þeirra sem barist hafa fyrir stefnubreytingu í þeim málum. Hún hefur verið óþreytandi við að tala um mikilvægi sjálfbærrar þróunar, skuldbindingar okkar við komandi kynslóðir og náttúruna sem auðlind. Öllu þessu kom hún vel til skila í þættinum og var augljóst að hún er vel heima í þessum málaflokki.
Guðfríður Lilja er að hasla sér völl í stjórnmálum nú í þessum kosningum. Hún hefur heillað alla hvar sem hún kemur fram og í allri framgöngu geislar hún af gleði, sannfæringarkrafti og sterkri réttlætiskennd. Í umræðum um atvinnu- og byggðamál lagði hún áherslu á að lausnir núverandi stjórnvalda byggðu á fortíðarhyggju, stóriðju með öllum þeim fórnum sem hún hefði í för með sér í stað þess að leggja rækt við uppbyggingu samgangna, fjarskipta, menntunar, nýsköpunar og þróunar, og styðja við sprotafyrirtæki sem allra víðast.
Vissulega reyndu talsmenn stjórnarflokkanna að koma fram sem frelsandi englar, nú leggur Framsókn fram stefnu um nýtingu og verndun í umhverfis- og orkumálum, þegar flokkurinn hefur gengið fram fyrir skjöldu í því að fórna mikilvægum náttúruperlum þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn virtist ekki hafa neina skýra stefnu í umhverfismálum og Samfylkingin lenti enn einu sinni í vandræðum með að skýra stefnu sína í þessum málaflokki og æpandi voru mismunandi svör fulltrúa flokksins í umhverfisþættinum annars vegar og atvinnuþættinum hins vegar við spurningu um álver við Húsavík. Svo kenndi fulltrúi Framsóknar Sjálfstæðisflokknum eiginlega um allt sem ekki hefði tekist að gera í byggðamálum og vék sér undan allri ábyrgð í þjóðlendumálinu.
Þegar á heildina er litið var frammistaða okkar kvenna fín í kvöld.
8.5.2007 | 15:48
Kosningabrella meirihlutans í borgarstjórn
Borgarstjóri hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt menntamálaráðherra og rektor Listaháskólans um lóðamál fyrir skólann í Vatnsmýri. Það vekur athygli að á viljayfirlýsingunni er auð lína sem var ætluð staðfestingu fjármálaráðherra, en hann er greinilega ekki með í leiknum.
Ég hef gagnrýnt þessi vinnubrögð meirihlutans. Þarna er verið að egna saman velunnurum Listaháskólans annars vegar og Náttúruminjasafns hins vegar. Listaháskólinn þarf að sjálfsögðu að fá viðunandi lausn á sínum málum en hann vill helst vera í miðbænum en ekki í Vatnsmýri.
Sannleikurinn er sá að í gildandi skipulagi fyrir lóðina kemur fram að hún verði EINUNGIS nýtt fyrir Náttúruminjasafn eða starfsemi tengda Náttúrufræðistofnun. Skyldi Listaháskólinn hafa vitað af því? Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ekki kynnt málið innan skipulagsráðs eða borgarráðs og gerir sig enn einu sinni sekan um gerræðisleg og ólýðræðisleg vinnubrögð.
Síðan til að kóróna allt þá kemur fram að Listaháskólinn megi ráðstafa lóðinni til þriðja aðila. Sem þýðir að þessi lóð í Vatnsmýrinni, sem er eyrnamerkt Náttúrufræðistofnun og starfsemi á hennar vegum, verður áður en við er litið komin í lóðabraskdansinn.
Þetta eru vinnubrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar þeir leggja saman. Væri ekki nær að leysa einfaldlega húsnæðismál Listaháskólans þar sem hann vill vera, t.d. á svokölluðum stjórnarráðsreit milli Sölvhólsgötu og Skúlagötu (þar sem skólinn er að hluta til nú) og þar sem hann vill vera. Ef ríkið og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa einhvern minnsta áhuga á að leysa mál Listaháskólans þá geta þeir gert það á þessum reit, án þess að blanda málefnum Náttúrufræðistofnununar í það.
Ég er ekki viss um að mál Náttúrufræðistofnunar séu sett í uppnám með vitund og vilja Listaháskólans. Hverra hagsmuna er verið að gæta?