Stjórnin í bullandi vörn - lokasóknin er hafin

Stöð 2 var með ágætan þátt í kvöld þar sem formenn stjórnmálaflokkanna tókust á um meginmál kosninganna á laugardag. Þátturinn var nýstárlegur, bæði sátu formennirnir öll saman en síðan var hvert og eitt þeirra yfirheyrt sérstaklega. Í lokin voru síðan þrír álitsgjafar sem sögðu kost og löst á frammistöðu formannanna.

Þátturinn hófst með því að kynnt var ný og stór skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Stöð 2. Þar fær Sjálfstæðisflokkurinn um 38% og Framsókn 8,6% og samanlagt fá stjórnarflokkarnir 30 þingmenn. Samfylkingin hefur náð vopnum sínum og mælist með tæp 30%, sem er að nálgast kjörfylgið í síðustu kosningum, Vinstri græn eru rúm 16% en það er tvöföldun á fylgi frá 2003 og Frjálslyndir eru með rúm 5%. Samanlagt fá stjórnarandstöðuflokkarnir 33 þingmenn. Íslandshreyfingin nær ekki að koma manni að og vantar talsvert á að svo verði.

Í þættinum voru formenn stjórnarflokkanna í bullandi vörn, einkum Jón Sigurðsson. Að mínum dómi stóðu Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sig áberandi best, þannig að ég er sammála álitsgjöfum Stöðvar 2 um það atriði. Sömuleiðis um að formaður Framsóknar hafi átt lakastan leik. Hins vegar vekur athygli mína sú skoðun álitsgjafanna að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafi verið að daðra hvort við annað. Það vekur upp spurningar um það hvort atkvæði greitt Samfylkingu sé hugsanlega ávísun á áframhaldandi stjórnarforystu Sjálfstæðisflokks.

Nú eru aðeins 2 dagar til kjördags. Þótt enn séu talsverðar sveifur í skoðanakönnunum þá eru stóru línurnar samt skýrar. Samfylkingin verður á svipuðu róli og síðast og hið sama má segja um Frjálslynda. Framsókn tapar og Sjálfstæðisflokkur bætir við sig. Vinstrihreyfiingin - grænt framboð stefnir síðan í að tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum, og verði það úrslitin á laugardag, þá er það sögulegur pólitískur sigur og skýr skilaboð frá kjósendum um að VG eigi að axla ábyrgð í landsstjórninni. Til þess erum við að sjálfsögðu reiðubúin. Nú verða allir að leggjast á eitt og tryggja VG sögulegan sigur, það er eina raunverulega tryggingin fyrir breytingar. Lokasóknin er hafin, það er hægt að fella ríkisstjórnina og koma sjónarmiðum velferðar, umhverfisverndar, jafnréttis og jöfnuðar að í ríkisstjórn. Látum þann draum rætast.


Ögmundur spurður um "bankana úr landi" hjá Kaupþingi

Framsóknarflokkurinn auglýsir að Vinstrihreyfingin grænt framboð vilji senda bankana úr landi. Þar er vísað í gagnrýni Ögmundar Jónassonar þingflokksformanns VG nýlega  í garð bankaforstjóra sem honum þótti skammta sér um og ganga fram af samfélaginu með ýmsum hætti. Ögmundur mun hafa sagt á þá leið að hann vildi ekki fórna íslensku jafnaðarsamfélagi fyrir "þotuliðið í bönkunum".

 

Þetta hefur síðan verið túlkað á þann veg að Ögmundur Jónasson eigi sér þann draum æðstan að koma öllum íslenskum bönkum úr landi!

Ég hafði í bland gaman og fróðleik af því að sitja frambjóðendafund í Kaupþingi ásamt Ögmundi þar sem þessi mál bar á góma. Ögmundur var að vonum spurður út í staðhæfingar Framsóknar. Hann minnti á að hann væri stjórnarformaður stærsta lífeyrissjóðs landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, sem hefði fjárfest í íslenskum fjármálafyrirtækjum fyrir milljarðatugi. Eignarhluti sjóðsins í íslensku bönkunum væri á milli 35 og 40 milljarðar króna. Auk þess ætti sjóðurinn skuldabréf hjá bönkunum að verðmæti 15 – 20 milljarða. Þessi tiltekni lífeyrissjóður hefði fjárfrest hjá íslenskum útrásrafyrirtækjum fyrir milljarða á milljarða ofan. "Allt er þetta gert með mínum velvilja og mínu atkvæði", sagði Ögmundur.

 

"Halda menn virkilega að ég vilji ekki þessum stofnunum vel? Að sjálfsögðu geri ég það. Íslenskir lífeyrisþegar og þar með verkalýðshreyfingin vill hag þeirra sem bestan. En við ætlumst til þess að farið sé vel með þessa fjármuni og þá ekki síður þau völd sem fjármagnið veitir. Forsvarsmenn bankanna verða að geta tekið gagnrýni þegar þeir ögra samfélaginu."

 

Ögmundur minnti einnig á að ein ástæðan fyrir því að VG hefði viljað hafa þjóðarbanka væri einmitt sú að forðast að bankarnir yrðu fluttir úr landi. Því miður væri það smám saman að gerast. Þannig væri eignarhald Landsbankans nú komið 70% úr landi. Lífeyrissjóðirnir væru hins vegar ekkert á leið úr landi.

 

Mér þótti boðskapur Ögmundar Jónassonar vera trúverðugur og heyrði ég ekki betur en fundarmönnum þætti það líka. Þeim mun ómerkilegri held ég að sanngjörnu fólki þyki auglýsingar Framsóknar sem byggja á skrumskælingu og útúrsnúningum. 

 

Bankarnir og aðrar fjármálastofnanir eru mikilvægar og okkur Vinstri grænum þykir nauðsynlegt að þær búi við gott starfsumhverfi.  Ekki síður viljum við tryggja góð starfskjör almennra starfsmanna þeirra og raunar alls launafólks í landinu.  Þar liggur trúnaður VG, öfugt við það sem á við um núverandi stjórnarflokka sem sannarlega þurfa að komast í langþráð frí.

 

Bloggfærslur 9. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband