Hótanir um ofbeldi í vöggu lýðræðis!!!

Evrópusambandið telur sig vöggu og verndara lýðræðis.  Þeir sem hvað harðast eru talsmenn sambandsins segja hið sama.  Gagnrýnendur Evrópusambandsins hafa á hinn bóginn hamrað á því að lýðræði sé fyrir borð borið og þátttaka almennings í störfum og stefnumótun sé hverfandi.  Nú hafa leiðtogar ESB-ríkjanna setið á rökstólum og rætt um framtíðina.  Efasemdum Pólverja og sum part Breta er mætt með hótunum og ofbeldi.  Getur þessi "vagga lýðræðis" staðið undir nafni?

Það er vissulega álitamál.  Kröfur stærstu ríkjanna, einkum Þýskalands, eru að völd og áhrif þeirra verði stórlega aukin en að sama skapi verði dregið úr áhrifum smáríkja.  Pólland, sem telur um 40 milljónir íbúa, telur sig verða fyrir barðinu á þessum breytingartillögum.  Hvað mega enn fámennari ríki þá segja? 

Innan Evrópusambandsins hefur verið rætt um "lýðræðishalla" og mikilvægi þess að nálgast hinn almenna borgara, grasrótina.  En það er eins og stjórnendum sambandsins sé fyrirmunað að vinna í þá áttina.  Tillögur um nýja stjórnarskrá líta sum part vel út á blaði, talað um valddreifingu og aukin áhrif hins almenna borgara, en þegar á hólminn er komið snýst þetta samt allt um valdajafnvægi stóru ríkjanna, einkum Þýskalands og Frakklands, Bretland og Ítalía eru svo í næsta nágrenni.

Og nú, þegar Pólverjar malda í móinn er haft í hótunum við þá.  Aðalframkvæmdastjórinn, Barrosso, segir að þeir muni hafa verra af og kanslari Þýskalands, frú Merkel, sem er í forsæti sambandsins um þessar mundir, virðist ætla að sniðganga Pólverjana.  Hvernig hún mun akta gagnvart Bretum á eftir að koma í ljós.

Evrópusambandið er í öngstræti.  Það minnir helst á sovéskt ríkisbákn sem lifir orðið algerlega sjálfstæði lífi, lýtur eigin lögmálum og snýst um allt annað en hagsmuni og kjör fólksins sem byggir löndin innan sambandsins.  Hverjir vilja fórna sjálfstæði smáþjóðar á altari þessa sundurlynda og hrokafulla valdabandalags?


mbl.is Þjóðverjar vilja nýjan ESB-sáttmála, jafnvel án þátttöku Póllands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í takt við stefnu VG

Sjónarmið iðnaðarráðherra um að færa beri Hafrannsóknastofnun út úr sjávarútvegsráðuneyti, er ekki nýtt af nálinni.  Vinstri græn hafa í hugmyndum sínum um eflingu umhverfisráðuneytis í umhverfis- og auðlindaráðuneyti, lagt þetta til.  Fleiri hafa í gegnum árin viðrað sömu sjónarmið.

Það er athyglisvert að iðnaðarráðherra skuli nú koma þessu viðhorfi á framfæri skömmu eftir að nokkuð ítarlega var rætt um málefni stjórnarráðsins á sumarþingi sem er nýlega lokið.  Ríkisstjórnin, sem iðnaðarráðherra situr jú í, lagði þar fram frumvarp um breytingu á stjórnarráðslögum.  Þar var hvergi vikið að þessari hugsun, en hún bar þó á góma í umræðum um málið.  Í umræðum um frumvarp stjórnarinnar sagði ég m.a.:

Þarna mætti t.d. taka auðlindanýtinguna almennt. Við gætum verið að tala um málefni sjávarútvegsins. Tökum t.d. Hafrannsóknastofnun sem oft hefur verið rætt um að ætti gjarnan heima undir umhverfisráðuneyti enda þótt stjórn fiskveiðanna, ákvörðun um það hvernig aflaheimildum er úthlutað o.s.frv. sé á hendi atvinnuvegaráðuneytis. Þannig eru orkumálin til að mynda. Mörg rök eru fyrir því að orkumálin séu að hluta til umhverfismál og að hluta til atvinnugreinin.

Þessi sjónarmið mín og okkar í VG ríma ágætlega við þau sem iðnaðarráðherra er að segja.  En þau rök sem ráðherrann notar eiga ekki bara við um Hafrannsóknastofnun.  Þau eiga í hæsta máta einnig við um orkumálin.  Því er fróðlegt að vita hvort iðnaðarráðherra sé sjálfum sér samkvæmur og tali næst fyrir því að orkurannsóknir og auðlindanýtingin í orkumálum fari yfir í umhverfisráðuneyti.  Verður fróðlegt að fylgjast með vinnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni á næstunni.


mbl.is Össur vill færa Hafró frá sjávarútvegsráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband