Einkavæðing orkugeirans hafin - með vitund og vilja stjórnvalda?

Það er bersýnilegt að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja á eftir að draga dilk á eftir sér.  Einkavæðing orkugeirans er hafin og slagurinn getur orðið mjög harður.

Þrátt fyrir svardaga forystumanna ríkisstjórnarinnar um að ekki standi til að einkavæða orkugeirann, þá er hið gagnstæða að gerast.  Fyrri ríkisstjórn ákvað að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og var m.a. opinberum aðilum bannað að bjóða í umræddan hlut.  Hann skyldi aðeins falur einkaaðilum.  Getur einkavæðingin verið meðvitaðri?  Nú heldur einkafyrirtækið sem keypti hlut ríkisins áfram og vill kaupa hlut sveitarfélaga.  Og býður vel.  Sveitarfélögin láta fallerast og selja hlut sinn.  Slagur hefst milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar en bæði þessi sveitarfélög vilja neyta forkaupsréttar síns og eignast þann hlut sem ríkið átti áður og einnig hlut þeirra sveitarfélaga sem ákváðu að selja Green Energy sinn hlut.

Það er grátlegt að fylgjast með þessum atgangi öllum.  Og það sem verst er: það eru íbúarnir sem munu blæða fyrir einkavæðingu orkugeirans með hærra orkuverði og óöryggi í orkuafhendingu eins og gerst hefur víða um heim þar sem orkugeirinn hefur verið einkavæddur.

Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað raunverulega með því að ekki eigi að einkavæða orkugeirann, verður hún að grípa í taumana.  Hún verður að beita sér og tryggja að salan á hlut ríkisins gangi til baka eða að aðrir opinberir aðilar geti eignast hlutinn.  Það er brýnt að standa vörð um samfélagslega eign orkufyrirtækjanna og nú ríður á að stjórnin sýni að hún meinar eitthvað með yfirlýsingum um að orkugeirinn verði áfram í opinberri eigu.  Að öðrum kosti verður ekki dregin önnur ályktun en sú að einkavæðing orkufyritækja sé með vitund og vilja ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Óska eftir aukafundi í bæjarstjórn vegna málefna Hitaveitu Suðurnesja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband