1.7.2007 | 09:41
Er einkavæðing vatnsveitunnar ekki ólögmæt?
Einkavæðing orkugeirans er hafin fyrir tilstilli stjórnvalda. Þar á meðal er vatnið. Engu að síður eru í gildi í landinu lög sem kveða á um að vatnsveitur megi ekki vera í eigu einkaaðila. Ekki enn að minnsta kosti. Hvernig stendur þá á því að einkavæðing vatnsveitna er látin óáreitt?
Og hvar eru fjölmiðlarnir? Þeirra hlutverk er mikilvægt í hverju lýðræðissamfélagi. Hvers vegna hamast þeir ekki í málinu? Ná eigna- og hagsmunatengslin e.t.v. svo langt inn í íslenskan fjölmiðlaheim að þar er ekki amast við neinu sem þjónar hagsmunum fjármagns og valds?
Í gildandi lögum um vatnsveitur segir m.a.:
4. gr. Heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags.Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.
Álfheiður Ingadóttir þingmaður VG og fulltrúi í iðnaðarnefnd Alþingis hefur bent á þetta atriði og er full ástæða til að fylgja því eftir. Var salan á Vatnsveitu Vestmannaeyja í samræmi við þessi lagaákvæði? Er einkavæðingin á Hitaveitu Suðurnesja í samræmi við þessi lög, nú þegar stefnir í að Geysir Green Energy geti orðið meirihlutaeigandi í því fyrirtæki?
Hvernig hyggjast stjórnvöld, t.d. iðnaðarráðherra, bregðast við? Er ekki rétt að vakna af þeim væra blundi sem færðist yfir núverandi stjórnarflokka um leið og stjórninni hafði verið klambrað saman? Munu fjölmiðlar spyrja ráðamenn gagnrýnna spurninga?
Þessum og mörgum fleirum spurningum þarf að svara. Og þeirra svara verður leitað.